14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

54. mál, fjárlög 1979

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það kemur betur og betur í ljós með hverjum deginum sem líður, að bráðabirgðaráðstafanir ríkisstj. hafa engan vanda leyst, þvert á móti stóraukið hann, eins og við sjálfstæðismenn bentum á þegar við setningu brbl. í september. Síðan ríkisstj. tók við hefur ekki verið gripið til neinna þeirra aðgerða, sem gætu ráðið bót á vandamálunum.

Við stöndum nú frammi fyrir svipaðri verðbólguþróun og í tíð vinstri stjórnarinnar 1971–1974, og verði ekkert að gert nú á næstunni virðist stefna í hærra verðbólgustig á næsta ári en áður hefur þekkst þér á landi.

Samfara þessu eru ríkisfjármálin 1978 afgreidd með halla og er sá halli bein og ótvíræð afleiðing ráðstafana ríkisstj. frá því í september. Með fjárlagafrv. því, sem hér er til umr., sýnist ekki ætlunin að leysa á árinu 1979, nema síður sé, þann hluta efnahagsvandans sem velt var yfir á ríkissjóð með septemberaðgerðunum, og því aftur stefnt í hallarekstur hjá ríkissjóði. Í tíð fyrrv. ríkisstj. hafði tekist að koma á jöfnuði í ríkisfjármálunum eftir verðbólguáhrif vinstri stjórnarinnar, eins og fram kom í þeirri endurskoðuðu áætlun ríkisfjármálanna 1978 sem gerð var á miðju þessu ári og alþm. hafa fengið í hendur, sbr. og niðurstöður ársins 1976.

Allur aðdragandi, svo og myndun núv. ríkisstj. var með þeim hætti, að áhrif Alþb. gætti þar mest og úrræðin, sem gripið var til, einkennast af stefnumörkun Alþb. í efnahagsmálum.

Áhrifa flokks forsrh. gætti að vísu að nokkru leyti, en segja má að honum hafi verið rétt stjórnarforustan upp í hendurnar þegar Alþb. hafði beygt Alþfl. svo kirfilega, að ekkert stóð eftir af hinum fögru kosningaloforðum, ekki einu sinni siðbótin, og gengið hafði verið fram hjá öllum 10 punktunum í efnahagsstefnu Alþfl.

Lúðvík Jósepsson, 1. þm. Austurl., kunni vel til verka sinna, enda þrautreyndur, hafði áður mótað efnahagsstefnu tveggja vinstri stjórna 1956–1958 og 1971–1974. Þær voru að vísu ekki langlífar, en samt tókst að ná fram ætlun þeirra Lúðvíks og félaga að setja íslenskt efnahagslíf úr skorðum. Lúðvík Jósepsson, hv. þm. Austurl., munaði því ekkert um að móta efnahagsstefnu þriðju vinstri stjórnarinnar, og árangurinn lætur ekki á sér standa. Reyndar taldi hann sér hagstæðara að eyða ekki tíma sínum í það að veita einhverju ráðuneyti forstöðu, heldur leitaði fyrirmynda um stöðu sína erlendis og gegnir nú yfirráðherrastörfum án stjórnardeildar. Það er hins vegar allrar athygli vert, hvernig hv. 1. þm. Austurl. tókst að leggja hin pólitísku net sín, hvernig hann leikur á metorðagirnd manna. Honum var og ljóst vegna nýrrar reynslu flokks hans í borgarstjórn Reykjavíkur, að kosningaloforð settu menn ekki fyrir sig og sviku þau ef valdaaðstaða var í boði. Hann vissi, að Alþfl.-menn í vímu kosningasigurs gætu haft að leiðarljósi afsökun sem kunnur Alþfl.-maður í Hafnarfirði notaði einu sinni er hann afsakaði svik gefinna kosningaloforða og sagði orðrétt: „Það er sitt hvað, hvað skrifað er og skrafað fyrir kosningar, en framkvæmt er eftir kosningar.“ Þannig framkallaði hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, hjá sigurvegurum kosninganna ein mestu kosningasvik síðari ára.

Viðskilnaður vinstri stjórnanna er öllum kunnur og óþarft að eyða að honum mörgum orðum. Þó verður að minna á þeirra eigin orð, en þáv. forsrh., Hermann Jónasson, sagði hér á Alþingi er ríkisstj. hans sagði af sér í desembermánuði 1958, með leyfi forseta:

„Boðaði ég þá ráðherrafund að morgni laugardags 29. nóv., en þar náðist ekki samkomulag um stuðning við frv. Af þessu leiddi, að hin nýja kaupgreiðsluvísitala kom til framkvæmda um mánaðamótin, og ný verðbólgualda er þar með skollin yfir.“

Í frv. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, er lagt var fyrir Alþingi á útmánuðum 1974 segir, með leyfi forseta: „Hér er um svo mikla hækkun að ræða, að ný og kröpp verðbólgualda rís í kjölfarið, auk þess sem kauphækkun einstakra hópa launþega umfram ákvæði rammasamningsins magnar óhjákvæmilega togstreitu og launakapphlaup stétta á milli á næstu mánuðum og missirum.“

Það verður hins vegar ekki um það deilt, að tímabil viðreisnarstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. 1959–1971 er einn árangursríkasti áratugur í bættum lífskjörum og stöðugleika efnahagslífs á Íslandi.

Vissulega átti sú stjórn við mikla erfiðleika að etja. Við vandamálunum var hins vegar brugðist og á árinu 1971, þegar vinstri stjórnin tók við völdum, var verðbólgan um 10%. Þegar hins vegar vinstri stjórnin lét af völdum 1974 var verðbólgan á því ári 54% frá upphafi til loka árs.

Hér eru engin tök á að gera samanburð, svo neinu nemi, á þjóðarbúskapnum í lok viðreisnartímabilsins 1971 og við uppgjöf vinstri stjórnarinnar 1974. Sá samanburður yrði vinstri stjórn sannarlega óhagstæður í öllum greinum. Aðeins skuli tvö mikilsverð atriði nefnd.

Árið 1971 var rekstrarhalli ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu 0.5%. Árið 1974 reyndist hann hins vegar 2.4%, sbr. sömu viðmiðun. Í tölum talið hefði rekstrarhallinn þurft að vera 2.6 milljörðum lægri en hann varð til þess að halda hlutfallinu frá 1971.

Á árinu 1971 voru ríkisútgjöldin 24.9% af þjóðarframleiðslunni, en höfðu hækkað í 29.6% 1974. Til þess að halda sama hlutfalli 1974 og var 1971 hefðu ríkisútgjöldin því þurft að vera 6.4 milljörðum lægri.

Þessar tölur tala sínu máli og sýna glöggt þróun efnahagsmála svo og ríkisfjármálanna og eru nánast skólabókardæmi um hvernig til tekst þegar vinstri stjórnir sitja að völdum.

Af því, sem hér hefur verið sagt, má sjá hvert verkefni fyrrv. ríkisstj. fékk í hendur til úrlausnar á sviði efnahags- og fjármála, að ógleymdum öðrum þýðingarmiklum verkefnum, sem tengdust öryggis- og varnarmálum, svo og landhelgismálið. Hin öra verðbólguþróun, sem átt hafði sér stað á árinu á undan, svo og versnandi viðskiptakjör árin 1974 og 1975 leiddu til þess, að ekki gafst svigrúm til að snúa af þessari braut fyrr en komið var fram á árið 1976, en þá rofaði til og úr verðbólgunni tókst að draga og rekstrarafkoma ríkissjóðs varð hagstæð.

Áfram hélt þessi þróun fram á mitt s.l. ár og verðbólgustigið komið niður í 26%, en þá skipti um, því miður. Gerðir voru samningar á vinnumarkaðinum, sem með engu móti gátu rúmast innan afkomu þjóðarbúsins. Þá var enn fremur samið um vísitölukerfi sem mældi í enn ríkara mæli verðlagshækkanir og magnaði þar með kapphlaup verðlags og kaupgjalds. Þá var ljóst, að ekki varð fram hjá opinberum starfsmönnum gengið með launahækkanir og leiðréttingu, og má rekja m.a. lakari stöðu ríkissjóðs á s.l. ári til aukinna útgjalda vegna þessara launahækkana.

Ríkisstj. var ásökuð fyrir að bregðast ekki rétt við svo og að taka þátt í lausn þeirrar deilu, sem þá var ,milli aðila vinnumarkaðarins, með beinum aðgerðum. Það verður ekki gert af sanngirni í sama orðinu og hún er gagnrýnd fyrir sambandsleysi við aðila vinnumarkaðarins.

Við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1978 gerði ég að umtalsefni stöðu efnahags- og ríkisfjármálanna. Þá var öllum ljóst, að grípa yrði til svokallaðra „óvinsælla aðgerða“ til þess að ekki glataðist það sem þá hafði áunnist og hægt væri að halda áfram á þeirri braut, sem þjóðarbúskapurinn var kominn á fyrri hluta s.l. árs.

Í febrúarmánuði s.l. voru lagðar fram af hálfu ríkisstj. tillögur um takmarkaðar vísitölubætur, sem var ætlað að tryggja kaupmátt hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu. Með þeim ráðstöfunum var gert ráð fyrir verðbólgustigi í lok ársins milli 35 og 40%. Þá var því og lýst yfir af hálfu ríkisstj., að hún mundi beita sér fyrir viðræðum við aðila vinnumarkaðarins um breytta vísitölu.

Forsrh. Geir Hallgrímsson gerði þjóðinni grein fyrir stöðu þessara mála og lagði tillögurnar fram og kom ekki til álita að fresta slíku fram yfir kosningar. Fölsun vísitölu, fölsun kaupmáttar voru ekki tillögur fyrrv. ríkisstj. Vandanum var ekki heldur velt á ríkissjóð, sem hefði leitt til aukinnar skattheimtu eða skuldasöfnunar.

Tillögur þessar fengu óblíðar viðtökur. — Kauprán — samningsrof — voru orð, sem óspart voru notuð, þá fannst mönnum það mögulegt að skipta kökunni þannig að allir fengju allt sem þeir vildu, og þeir hinir sömu boðuðu samningana í gildi.

Til að tryggja enn betur hlut þeirra lægst launuðu var þessum tillögum breytt í maí. Áfram var talað um kauprán og samningsrof af hálfu óábyrgrar stjórnarandstöðu, enda nálguðust kosningar.

Málflutningur þáverandi stjórnarandstöðu leiddi til þeirrar niðurstöðu, sem við blasir í dag: Vinstri stjórn með hefðbundnum efnahagsúrræðum vinstri aflanna, sem fært hefur okkur 20 ár aftur í tímann hvað snertir stjórn efnahagsmála, er endurspeglast m.a. í aukinni ríkisforsjá, eins og fjárlagafrv. þetta ber með sér Niðurstöðutölur þess fjárlagafrv., sem hér er til umr., hækka um rúmlega 65% frá síðasta fjárlagafrv. eða töluvert meira en svarar til verðbólgunnar, en vöxtur hennar verður milli 40 og 50% á þessu ári. Þá er gert ráð fyrir að auka ríkisumsvifin og áformað að ríkisútgjöldin sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hækki um tæp 4% eða yfir 20 milljarða kr. Frv. ef að lögum verður, mun því auka enn þá verðbólgu sem við búum við.

Þá ber þetta fjárlagafrv. þess merki, að við völd situr ríkisstj. sem hefur enga fastmótaða stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum. Þá er það óvenjulegt við þetta fjárlagafrv., að stjórnarflokkarnir eru alls ekki á einu máli um það, hver skuli verða endanlega niðurstaða frv. Að sjálfsögðu hefur það gerst oft áður, að þingmenn greini á um afstöðu til einstakra atriða í fjárlagafrv. En ég held að fullyrða megi að aldrei fyrr hafi frv. verið lagt fram með jafnmiklum fyrirvörum og þetta. Væri slíkt fyrirvarafargan skiljanlegra sem aðdragandi að stjórnarslitum. Nú er því ekki að heilsa, að hæstv. ríkisstj. sé að búa sig undir að biðjast lausnar. Þvert á móti er hún nýmynduð að undangengnum löngum samningaviðræðum og á grundvelli samstarfsyfirlýsingar í fjölmörgum liðum um flesta þætti þjóðmála og ekki síst um efnahagsmál. Af ágreiningnum um fjárlagafrv. verður helst ráðið að þessar samningaviðræður hafi snúist um allt annað en lausn aðsteðjandi vanda, þar hafi menn setið og rökrætt, en látið óskhyggjuna ráða ferðinni.

Í aths. við frv. kemur fram, að ætlun hæstv. ríkisstj. er að vinna upp þann halla, sem verður á ríkissjóði á þessu ári, og jafnframt tryggja hallalausan ríkisbúskap á næsta ári. Sá halli sem augljóslega verður á ríkissjóði á þessu ári er eins og áður er sagt, afleiðing ráðstafana ríkisstj. frá því í septembermánuði og mun hann nema samkvæmt áætlun fjárlaga- og hagsýslustofnunar rúmum 400 millj. kr., eins og hér kom fram áðan. Er þá ekki gert ráð fyrir að greiddar verði umsamdar afborganir til Seðlabankans að fjárhæð 3.4 milljarðar kr. Því er frv. látið sýna greiðsluafgang að fjárhæð 4 milljarðar kr. til þess að mæta þannig fjárvöntun ríkissjóðs þetta ár.

Að óathuguðu máli gæti mönnum virst sem þessi markmið næðust. En við nánari athugun kemur allt annað í ljós. Veigamiklir útgjaldaliðir eru vanmetnir, ýmsum mikilvægum atriðum hreinlega sleppt, og enn fremur er farið í furðulegan talnaleik til að reyna að sýna þann rekstrar- og greiðsluafgang, sem látinn er koma fram í þessu frv.

Skal nú vikið nánar að þeim atriðum, sem ég tel vera vanmetin í þessu frv.

Í fyrsta lagi eru verðlagsforsendur frv. miðaðar við desembermánuð og gert ráð fyrir hækkun verðbótavísitölunnar um 10%. Samkvæmt upplýsingum, sem nú liggja fyrir, má ætla að verðbótavísitalan 1. des. hækki um 14%, en ekkí 10%, eins og frv. gerir ráð fyrir, þannig að verðlags- og launaforsendur þess eru rangar. Ef ekki er gert ráð fyrir launahækkunum sem þessu nemur, en verði verðlagsforsendunum frv. haldið, þá mun ríkissjóður þurfa að auka útgjöld vegna niðurgreiðslna á næsta ári um a.m.k. 5.2 milljarða.

Í öðru lagi vantar 2.8 milljarða kr. til viðbótar þeirri fjárhæð, sem frv. gerir ráð fyrir til niðurgreiðslna, ef halda á því niðurgreiðslustigi sem efnahagsráðstafanir frá því í septembermánuði gera ráð fyrir.

Í þriðja lagi er ekki reiknað með umsömdum launahækkunum til handa opinberum starfsmönnum hinn 1. apríl n.k. sem auka útgjöld til launa og tryggingamála um 2 milljarða kr. Hér er sennilega verið að taka tillit til þess, sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum um breytingar á samningsrétti opinberra starfsmanna gegn því að fallið verði frá þeirri áfangahækkun, sem núverandi samningar gera ráð fyrir. Þrátt fyrir nefndarskipun hefur ekki enn þá heyrst að samkomulag sé í vændum í máli þessu eða hvort slíkt samkomulag muni ekki leiða til annars konar útgjalda hjá ríkissjóði.

Í fjórða lagi hafa framlög úr ríkissjóði til Byggðasjóðs samkv. lögum þar um verið lækkuð um 1.2 milljarða kr. Byggðasjóði er ætlað með lántöku að tryggja sér það ráðstöfunarfé sem lögin gera ráð fyrir að sé varið til hans úr ríkissjóði. Með þessum talnaleik er á pappírnum verið að lækka útgjöld ríkissjóðs og ná þannig hagstæðari útkomu á fjárlögunum. Slík vinnubrögð eru gersamlega út í hött. Miklu karlmannlegra hefði verið fyrir hæstv. fjmrh. að leggja til breytingu á lögunum um Byggðasjóð og láta það vera háð fjárlögum hverju sinni, hvert framlag ríkissjóðs væri. Hæstv. ráðh. gat þess hér í frumræðu sinni áðan, að ætlunin væri að það lán, sem Byggðasjóður tæki, yrði endurlánað Orkusjóði. En hver skyldi síðar útvega Orkusjóði fé. Það er ríkissjóður sem síðan greiðir Byggðasjóði og Byggðasjóður síðan sínum lánanda.

Í fimmta lagi er vantalinn í útgjaldahlið 1 milljarður kr., sem fjmrh. hefur gert ráð fyrir að fjvn. muni ráðstafa. Er þetta atriði eitt ljósasta dæmið um þann talnaleik, sem notaður er varðandi fjölmarga þætti frv.

Þegar tekið hefur verið tillit til allra þessara atriða, sem að framan greinir, hækka útgjaldaliðir frv. um a.m.k. 12.2 milljarða kr., þannig að áætlaður rekstrarafgangur verður ekki 8.2 milljarðar, heldur rekstrarhalli sem nemur um 4 milljörðum kr., og greiðsluafgangur, sem sýndur er 4 núlljarðar, verður greiðsluhalli sem nemur 8 milljörðum kr. Þá eru ótalin loforðaútgjöld, sem einstakir stjórnarflokkar virðast ganga með upp á vasann, sem nemur milljörðum, sbr. yfirlýsingar ýmissa þingmanna Alþb. síðustu daga.

Að öðru leyti en að framan greinir eru launagreiðslur frv. samkv. þeim samningum sem í gildi eru. Gert er ráð fyrir að lækka yfirvinnu- og álagsgreiðslur hjá ríkisspítölunum um 270 millj. kr. og hjá löggæslunni um 125 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir lækkun launagjalda í grunnskólum um 150 millj. kr.

Við fjárlagagerð ársins 1978 voru stofnunum ríkisins gefin fyrirmæli um að skipta launaútgjöldum eftir efnisþáttum til þess að hægt yrði að skapa aukið eftirlit með launaútgjöldum ríkissjóðs. Var stofnunum gert að skila greinargerð þar að lútandi mánaðarlega og í maílok þessa árs gerður samanburður á áætlunum og útgjöldum. Með þessu fyrirkomulagi í framhaldi af því útgjaldaeftirliti, sem komið var á í fjmrn. í upphafi árs 1976, skapaðist grundvöllur til ákvarðanatöku um þær útgjaldalækkanir sem að framan greinir. Að mínum dómi ber brýna nauðsyn til að fylgja þessum verklagsreglum eftir og skapa þar með aukið aðhald og betri vitneskju um launaútgjöld ríkisins.

Rekstrargjöldin hækka umfram almenna verðlagshækkun um 25% eða 1 milljarð kr. Þetta er eflaust í anda þeirrar yfirlýsingar — eða hitt þó heldur — sem fram kemur í einum af fyrirvörunum, að lögð skuli sérstök áhersla á stóraukið aðhald í ríkisbúskapnum og stefnt að því að lækka rekstrarkostnað um 1 milljarð kr.

Þá miklu hækkun vaxtakostnaðar, sem fram kemur, má m.a. rekja til vanáætlunar á fjárlögum yfirstandandi árs, til greiðsluhalla þess árs svo og til þess, að ríkisstj. tekst ekki að greiða umsamdar afborganir við Seðlabankann samkv. fjárl. 1978.

Hækkun niðurgreiðslna um 164% eða rúma 11 milljarða kr. má að mestu leyti rekja til efnahagsráðstafana núv. ríkisstj. Væri þessi liður rétt áætlaður, eins og bent hefur verið á, ætti hann að hækka a.m.k. um 19. milljarða kr. eða um 282% í stað 164%, eins og frv. er sett fram.

Útflutningsuppbætur hækka um 80% eða 2.4 milljarða kr. og eru af því 300 millj. kr. vegna eftirstöðva verðjöfnunargjalds bænda, sem ríkisstj. ákvað að ríkissjóður tæki á sig umfram þá 10% hámarksreglu, sem er lögbundin. Hér er vissulega við mikið vandamál að glíma, og ýmsar hugmyndir hafa komið fram um breytingar þar að lútandi, sem í senn gætu tryggt jafnvægi milli framleiðslugreina landbúnaðarins, grundvallarverð til bænda og verið hvati til að selja landbúnaðarafurðir til útflutnings, jafnan á hæstu verði.

Fylgt er þeirri stefnu í fjárlagafrv. varðandi opinberar framkvæmdir, að til þeirra er ætluð sama fjárhæð og á yfirstandandi ári, að framlögum til vegamála undanskildum. Með þessu á sér stað nokkur magnminnkun verklegra framkvæmda, en telja verður eðlilegt að ríkið dragi nokkuð saman framkvæmdir við núverandi aðstæður.

Tekjuhlið frv, ber með sér að mörg veigamikil atriði eru enn óútkljáð hjá stjórnarflokkunum. Eitt er þó ljóst, að hlutur beinna skatta í tekjuöflun ríkissjóðs er stóraukinn á næsta ári. Gert er ráð fyrir að hlutfallið hækki úr rúmum 18% í milli 22 og 23%, og má búast við að tekjuskattsinnheimtan á næsta ári geti hækkað um allt að 100% frá árinu í ár, ef koma á saman hallalausum fjárlögum. Skattbyrði einstaklinga af tekjum greiðsluárs hækkar um 20–30%. Verður fylgst sérstaklega með afstöðu þeirra alþm., sem afnema vilja beina skatta úr tekjuöflun ríkissjóðs, svo og afstöðu þeirra, sem telja sig bera hag aldraðra fyrir brjósti.

Af því, sem hér hefur verið rakið, er naumast gerlegt að gera sér grein fyrir hvert stefnir í fjármálum ríkissjóðs á næsta ári. Eitt er þó ljóst, að þeim höfuðmarkmiðum, sem ríkisstj. hyggst ná fram, eftir því sem sagt hefur verið, hallalausum ríkisbúskap, verður ekki náð með þessu frv. þrátt fyrir velvilja hæstv. fjmrh., sem ég efast ekki um. Umr. um fjárlagafrv. á þessu stigi eru næsta marklitlar. Þingmenn hefðu þurft að fá upplýsingar um efnahagsstefnu ríkisstj. í heild til þess að þeir gætu tekið afstöðu til afgreiðslu einstakra liða í fjárlögum. Hvað ætlar ríkisstj. að gera í gengismálum? Hefur hún ákveðið að láta gengið síga áfram? Hvað með stefnuna varðandi erlendar lántökur. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. segir, að stefnt skuli að jöfnuði í viðskiptum við útlönd á árinu 1979 og dregið úr erlendum lántökum. Hverju geta menn treyst í þessum efnum, þegar gripið hefur verið til þess ráðs á síðustu vikum að heimila sveitarfélögum að taka erlend lán til að standa undir rekstrarkostnaði? Hvað um stefnuna í vaxtamálum? Þingmenn eins stjórnarflokksins flytja frv. til laga, sem stangast á við sjónarmið hinna tveggja stjórnarflokkanna. Hvenær tekur ríkisstj. af skarið? Hvaða ráðstafanir á að gera vegna fyrirsjáanlegra kauphækkana 1. des. n.k.? Ætlar ríkisstj. Alþb. og Alþfl. að éta ofan í sig öll stóryrðin, sem talsmenn þessara flokka höfðu um efnahagsaðgerðir fyrrv. ríkisstj. í febrúar og maí? Ekki verður annað séð en helstu talsmenn þessara flokka innan verkalýðshreyfingarinnar séu farnir að búa sig undir að verja það sem þeir kölluðu „kauprán“ fyrr á þessu ári og í kosningabaráttunni. Hvernig ætlar ríkisstj. að standa að endurskoðun vísitölunnar? Hver er stefna hennar í því máli?

Að þessum hugleiðingum loknum leyfi ég mér að undirstrika viðhorf Sjálfstfl. varðandi þau miklu vandamál sem nú steðja að.

Sjálfstfl. telur rétt og nauðsynlegt að skrá gengi íslensku krónunnar samkv. verðgildi hennar í aðalviðskiptalöndum okkar.

Sjálfstfl. telur óhjákvæmilegt að beita ítrasta aðhaldi um erlendar lántökur, sbr. stefnu fyrrv, ríkisstj. í lántökumálum á þessu ári.

Sjálfstfl. leggur megináherslu á jöfnuð í erlendum viðskiptum.

Það er skoðun Sjálfstfl. að beita þurfi ströngu aðhaldi í peningamálum og ná aftur jöfnuði í fjármálum ríkisins. Sjálfstfl. leggur ríka áherslu á auknar verðtryggingar í lánamálum, svo tryggðir verði fjármunir sparifjáreigenda, og minnir á þá einföldu staðreynd, að aukinn sparnaður er forsenda nýrra framkvæmda.

Sjálfstfl. harmar afstöðu núv. ríkisstj. varðandi efnahagsráðstafanir fyrr á þessu ári og vekur athygli á að vandamálin 1. des. væru auðleystari nú, ef ekki hefði verið snúið af þeirri braut.

Að lokum vil ég minna á yfirlýsingu fyrrv. ríkisstj. um nauðsyn þess að draga úr víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags um nauðsyn að endurskoða núgildandi vísitölu, og hefur skoðun sjálfstæðismanna í engu breyst enda þótt flokkurinn hafi skipt um hlutverk í íslenskum stjórnmálum.

Herra forseti. Ég hef áður í ræðu minni vissulega dregið upp dapurlega mynd, sem hver maður getur raunar séð fyrir sér við lestur þessa fjárlagafrv. Hún er þeim mun hörmulegri þegar haft er í huga að nú er þörf á raunsæi og hugrekki til að takast á við vandamálin. Þess í stað má horfa á stjórnarflokkana verja tíma sínum og Alþingis í innbyrðis áflog.

Við verðum að vona lands og þjóðar vegna, að betur fari en nú horfir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.