23.05.1979
Neðri deild: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5287 í B-deild Alþingistíðinda. (4771)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil að öllu leyti taka undir það sem hv. 4. landsk. þm. sagði í mótmælaræðu sinni gegn þessu frv. Ég tel furðu sæta að það skuli liggja fyrir stjfrv. um rekstur á einu ríkisfyrirtæki, þar sem hluta af landsmönnum er ætlað að greiða aukaskatt til að standa undir þeim rekstri. Ég efast um að það standist gagnvart stjórnarskrá landsins. En ég sé ekki ástæðu til að fara að fjölyrða um þetta mál. Sinfóníuhljómsveitin er talin til menningarauka í okkar þjóðfélag, tilvera hennar og rekstur, ekki vegna íbúa Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar eða Seltjarnarness sérstaklega, heldur fyrir þjóðina alla.

Þetta mál hefur hvað eftir annað verið rætt í borgarstjórn Reykjavíkur, og við gerð fjárhagsáætlunar fyrir Reykjavíkurborg um síðustu áramót var það einróma álit allra borgarfulltrúa, að Sinfóníuhljómsveitin væri þess eðlis að Reykjavíkurborg sem slík ætti að taka þátt í rekstri hennar miðað við höfðatölu, það yrði höfðatöluálag á landsmenn alla, en ekki hærri skattur á einn umfram annan til þess að halda þessum rekstri uppi.

Ég vil taka það fram, að ég er hlynntur rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, en ekki svo hlynntur að ég vilji að Reykjavíkurborg og sveitarfélögin hér í nágrenni, á Stór-Reykjavíkursvæðinu, taki hana alfarið á sínar herðar og reki — og síst af öllu að Alþingi Íslendinga samþykki að leggja aukaskatt á íbúa þessa landshluta til rekstrar Sinfóníuhljómsveitarinnar.