23.05.1979
Neðri deild: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5290 í B-deild Alþingistíðinda. (4776)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta nú við 1. umr. í viðbót við það sem ég sagði áðan. Ég mun auðvitað ræða þetta mál allnokkru ítarlegar við 2. umr. málsins. Þá mun ég sem sagt fara um þetta fjölmörgum orðum og taka til þess góðan tíma, svo lengi sem c-liður þessa frv. er í frv. Ég get fellt mig við afgreiðslu þessa frv. ef c-liðurinn yrði felldur út úr því. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, að það er ekki víðtæk samstaða í þinginu um það að leggja aukaskatta, umfram það sem búið er að gera, á íbúa í nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur. Bæjarsjóður Hafnarfjarðar hefur hafnað því að taka þátt í þessu samstarfi, en eins og ég sagði áðan, þá er mér ekki kunnugt um hvernig málum er komið í öðrum bæjarfélögum. (Gripið fram í.) Þó að Hafnarfjörður hafi farið vel með sína fjármuni á undanförnum árum, hefur kannske annað verið uppi á teningnum t. d. í Kópavogi; og tel ég að bæjarsjóður þar hefði eitthvað annað við peningana að gera en að greiða þá til sinfóníuhljómsveitar.

Ég er þeirrar skoðunar, að Sinfóníuhljómsveitin sé ákveðinn þáttur í menningarstarfinu í landinu, og náttúrlega ætti það að vera markmið í sjálfu sér að hún gæti að einhverju leyti staðið undir starfi sínu sjálf með þeirri starfsemi sem hún rekur. Ég vil taka undir það með hv. þm. Garðari Sigurðssyni, að það er tiltölulega lítill hópur sem hefur stundað tónleika sinfóníuhljómsveitarinnar á undanförnum árum, og það má segja sem svo, að þarna sé raunverulega um dýrustu aðgöngumiða að ræða í landinu og kannske eina þá mestu niðurgreiðslu á aðgöngumiðum að menningarstarfsemi sem fer fram í landinu.

Herra forseti. Ég vil sem sagt ítreka það, að þetta gerræði, sem ég vil kalla, að setja í lög nýja skatta á þessi sveitarfélög, er hættulegt fordæmi. Hér er verið að fara út á nýja braut og það stórhættulega braut. Þegar búið er að marka þessa stefnu getur maður búist við því á næstu árum, að hvert frv. af öðru færist hingað inn á Alþ. þar sem sveitarfélögunum í nágrenni Reykjavíkur yrði gert að greiða svo og svo mikið vegna einnar eða annarrar starfsemi sem fer fram í Reykjavík, en eigi að síður á landsvísu.