14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

54. mál, fjárlög 1979

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur gefið hæstv. fjmrh. holl ráð um það, hvernig eigi að skera niður útgjöld á fjárlögum ríkisins. Það var dálitið einkennandi við þessa upptalningu, að það voru aðallega útgjöld, sem varða þýðingarmikla þætti í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi.

Ég skal ekki gera lítið úr þessu hjartans máli hv. þm., að ríkisstj. hafi ekki blaðafulltrúa, eða úr prófdómendunum sem hann vill líka skera niður. En mér fannst þessi upptalning nokkur vottur þess, hve þessi hv. þm. lítur grunnhyggnum augum á hinn raunverulega vanda sem við er að glíma. Það kann að vera, að hægt sé að skera niður hluti sem þessa, kannske að öllu leyti eða einhverju leyti, og það má lengi tína upp slíkt. En það, sem er aðalatriðið, er að gerður verði uppskurður, eins og það hefur verið orðað í þessum umr., á stærstu útgjaldaliðunum, sem nema samtals um 50% af útgjöldum fjárlaga, þ.e.a.s. á menntamálum og trygginga- og heilbrigðismálum. En það þarf að gera uppskurð sem þýðir í mínum huga að gjörbreyta þarf skipulagi þessara mála með það fyrir augum, að þjónað sé eins vel og áður þeim verkefnum, sem þarna er um að ræða, en með öðrum hætti og breyttu skipulagi.

Hæstv. fjmrh. hóf ræðu sína í dag á því að lýsa hve mikill vandi væri á höndum fyrir hann, fyrir Alþ. og þjóðina í heild. Ég vil ekki draga neitt úr þessum vanda. Ég held að öllum sé ljóst, að okkur er mikill vandi á höndum. Auðvitað er fjmrh. mikill vandi á höndum og vandinn er sá, að það þarf að bregðast við þeirri verðbólguþróun, sem hér ríkir og hefur ríkt á undanförnum árum og er nú í hámarki. En það verður ekki gert nema með margháttuðum aðgerðum. Það þarf að móta heildarstefnu í þessum málum, og það er ekki hlaupið að því að gera slíkt. Það verður í grófum dráttum að gerast með tvennu móti: Það verður annars vegar að gerast með því, að gerðar séu sérstakar skammtímaráðstafanir til þess að afstýra aðsteðjandi vanda. En það verður einnig að gera langtímaráðstafanir, sem miða að því að ráðast að rótum vandans. Þetta stóra vandamál verður ekki leyst nema það sé tekið slíkum tökum.

Og hver eru svo viðbrögð núv. hæstv. ríkisstj.? Það er ekki sanngjarnt að dæma núv. ríkisstj. eftir langtímaráðstöfunum, ríkisstj. hefur setið svo skamman tíma, enda bólar ekki enn að mínu viti á neinum langtímaráðstöfunum. En það má nokkuð marka af þeim skammtímaráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir og komið í framkvæmd, hvert stefnir í þessum málum. Þá hef ég í huga bæði ráðstafanir ríkisstj. á s.l. hausti með brbl., sem þá voru gefin út, og svo það frv., sem hér liggur fyrir, en þær ráðstafanir, sem þar er leitast við að gera, eru ekki nema í mesta lagi skammtímaráðstafanir. Það er ekki neitt þar að finna, sem markvisst vegur að rótum þess vanda sem við er að glíma.

Mest er um vert að öll sú viðleitni, sem við er höfð, stefni í rétta átt. Við getum ekki gert kröfu til þess, að hæstv. ríkisstj. leysi þann vanda, sem við er að glíma, í einni svipan, en við getum gert kröfu til þess, að það, sem gert er, stefni þó í rétta átt. Því miður er því ekki að heilsa með þær bráðabirgðaráðstafanir, sem voru gerðar á s.l. hausti. Það, sem einkennir þær, er fyrst og fremst að vandinn er aukinn frá því sem var, og síðan á að taka til að leysa vandann, en því miður er það ekki gert með réttum aðferðum. Í raun og veru er anað út í loftið, í þveröfuga átt við það, sem hefði þurft að fara til þess að mæta aðsteðjandi vanda: verðbólgunni.

Ég skal ekki vera fjölorður nú um þessi efni. Ýmsir þeir flokksbræður mínir, sem hafa talað á undan mér, hafa komið að einstökum þáttum þessa máls og lýst þeim.

Ég sagði áðan, að það frv., sem hér liggur fyrir, mótaði ekki á neinn hátt neinar langtímaráðstafanir, en að svo miklu leyti sem um viðbrögð væri að ræða gegn verðbólgunni, þá væru þau skammtímaráðstafanir. Menn hafa hér í löngum umr. rætt þessar ráðstafanir. Það eru ekki margir, sem hafa lagt áherslu á gildi þeirra. Þó verður að segja það, að þeir Alþfl.-menn sem hér hafa talað, hafa sagt að þeir væru samþykkir sumum atriðum í þessu fjárlagafrv. Þetta á bæði við um hv. síðasta ræðumann og hv. þm. Sighvat Björgvinsson.

Sighvatur Björgvinsson taldi upp í fjórum töluliðum þau atriði, sem hann kvað þá Alþfl.-menn vera sammála hæstv. fjmrh. um og frv. fjallaði um. Það var í fyrsta lagi, að dregið væri úr umsvifum hins opinbera. Í öðru lagi mörkuð fjárfestingarstefna. Í þriðja lagi dregið úr rekstrarútgjöldum ríkissjóðs og ríkisstofnana. Og í fjórða lagi stöðvun skuldasöfnunar ríkisins.

Ýmsir ræðumenn og þ. á m. sjálfstæðismenn, hafa komið inn á flest þessi atriði. Ég skal ekki neita því, að hæstv. fjmrh. sýnir viðleitni í þessa átt. En ég vil halda því fram, að það, sem stefnir í rétta átt, eigi það allt sammerkt að allt of skammt sé gengið. Sannleikurinn er sá, að þessi viðleitni hæstv. fjmrh. ber svipmót af því, að við séum að ræða fjárlagafrv., sem stefni að því að koma verðbólgu — við skulum segja úr 10% niður í 7–8%. En það er auðvitað alveg gagnslaust að taka þannig á þeim vanda, sem við er að glíma. Við erum ekki svo vel á vegi staddir, að það dugi að miða ráðstafanir við það að lækka dýrtíðina kannske um 2–3%. Við lifum við verðbólgu, sem nú hefur náð 50%, og þegar svo er komið verður að beita allt öðrum aðferðum, miklu markvissari og stórtækari en ef við byggjum við verðbólgu sem næmi 10%.

Eitt af því, sem er grundvöllur þess að árangur náist í baráttunni fyrir verðbólgunni, er að almenningur í landinu hafi þá skoðun, að raunverulega sé verið að gera eitthvað sem umtalsvert er. Það geta engin stjórnvöld, engin ríkisstj. ráðið við þennan vanda nema skapa það andrúmsloft og það almenningsálit sem eitt getur náð að vinna bug á verðbólgunni.

Í þessum umr, hafa talað tveir hv. þm. Alþfl., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., og hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason. Vilmundur Gylfason hóf sína ræðu á að lýsa því yfir, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefði í ræðu sinni lýst stefnu þingflokks Alþfl. og ekki væri minnsti ágreiningur í flokknum um það sem hv. þm. sagði. Það er ákaflega gott að fá þessar upplýsingar inn í þessar umr.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, eins og raunar hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, ræddi einkum um tvö ágreiningsefni við hæstv. fjmrh.: annars vegar skattastefnuna og hins vegar um landbúnaðarmálin. Form. þingflokks Alþfl. var alllangorður um skattastefnuna. Það var ágætt að hlýða á hann telja fram rök okkar sjálfstæðismanna í skattamálum. En það er ekki nóg að gera slíkt. Það er ekki nóg að hafa sömu stefnu og við sjálfstæðismenn í þessu efni. Ef hv. þm. er nokkur alvara með því, sem hann segir, þá verður hann að fylgja eftir skoðunum sínum með baráttu, eins og við sjálfstæðismenn gerum í þessum efnum. Ef hann gerir það ekki hlýtur maður að ætla, að hér sé um sýndarmennsku að ræða, vegna þess að hér er að sjálfsögðu um algert grundvallaratriði að ræða.

Ég átti von á því, að formaður þingflokks Alþfl. segði, að stjórnarsamstarfinu væri lokið ef ekki yrði farið að vilja þeirra Alþfl.-manna í þessu máli, fyrst þeir setja það svo mjög á oddinn sem form. þingflokks Alþfl. sagði. Ég geri greinarmun á því hvort maður, sem gefur yfirlýsingar eins og Sighvatur Björgvinsson gerði hér í umr. í dag, er formaður þingflokks eða ekki. Ég leit svo á, að hann talaði í nafni þingflokks Alþfl., og hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, staðfesti það í ræðu sinni áðan.

Hvers vegna sagði formaður þingflokks Alþfl. ekki, að slíkt grundvallarmál sem þetta varðaði stjórnarslitum? Það getur hver og einn svarað þessari spurningu fyrir sig. Hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, sagði, að það kynni að vera nýjung að stjórnarflokkar væru ekki sammála. Nei, það er engin nýjung að stjórnarflokkar séu ekki sammála, en venjulega þegar deilt er um grundvallaratriði og svo veigamikil sem það mál sem Sighvatur Björgvinsson gerði einkum að umræðuefni, þá verður ágreiningur um slík mál til þess, að til stjórnarslita getur komið, ef eitthvað er meint með slíku tali sem formaður þingflokks Alþfl. hafði uppi í þessum umr.

Ég hefði haft tilhneigingu til þess að víkja að einstökum þáttum þessa fjárlagafrv., en þeir sjálfstæðismenn, sem hafa talað á undan mér, hafa minnst sérstaklega á suma þeirra málaflokka, sem ég hefði komið inn á, svo ég sé ekki ástæðu til að vera að orðlengja um það, sem sérstaklega hefur verið rætt hér af þeirra hálfu, og lengja þannig umr. En ég get samt ekki komið hér upp án þess að víkja sérstaklega að einum málaflokki — það eru orkumálin — og að sérstökum þáttum þeirra.

Þá kem ég fyrst að framlagi til Orkusjóðs, eins og gert er ráð fyrir að það verði samkv. þessu fjárlagafrv. Gert er ráð fyrir, að til styrkingar dreifikerfis í sveitum verði veittar 150 millj. kr., en hér er um ákaflega mikið og brýnt verkefni að ræða. Orkuráð hefur látið fara fram athugun og rannsóknir á því, hvert umfang þessa verkefnis er. Óhætt er að fullyrða, að það mundi kosta a.m.k. 10 milljarða. Hér er um að ræða svo brýnt verkefni, að til vandræða horfir í ýmsum sveitum landsins. Ég hygg að það þurfi að athuga þetta mál betur.

Til jarðhitaleitarlána er gert ráð fyrir 350 millj. Það er upphæð, sem er í algeru lágmarki til þess að hægt sé að hagnýta að fullu þá jarðbora, sem fyrir hendi eru. Sumir telja að koma þurfi til fleiri jarðborar vegna þess, hve það er þýðingarmikið verkefni að leita að jarðhitanum.

Lán til hitaveituframkvæmda eru upp á 350 millj., en ef vel ætti að vera ætti frekar að telja þessa upphæð í milljörðum. Til sveitarafvæðingar er ekki gert ráð fyrir nema 130 millj., sem er gert ráð fyrir að sé varið til heimtauga í sveitum landsins, sem rafvæddar hafa verið.

Nú kann að vera, að ýmsum finnist það skjóta nokkuð skökku við að ég skuli fara þessum orðum um þennan þátt fjárlagafrv., þegar augljóst er eins og ég sagði, að ekki er nægilega að gert í viðleitni til að vega á móti verðbólguþróuninni með því að endurskipuleggja ríkisfjármálin og spara og draga úr þar sem hægt er. En það verður að leggja ríka áherslu á það, að þegar það er gert má það ekki vera af handahófi. Verkefnin eru misjafnlega brýn og framkvæmd þeirra hefur mismunandi áhrif. Þegar t.d. er verið að tala um að koma á jöfnuði í viðskiptunum við útlönd, þá er að sjálfsögðu eitt af því, sem hefur mikla þýðingu, að spara gjaldeyri. Fátt sparar hann í ríkara mæli en að taka t.d. jarðvarmann í notkun til upphitunar húsa. — Nú veit ég að hæstv. iðnrh. hefur áhuga og vilja til þess að hér verði bætt úr. Ég vona, að honum verði vel ágengt í þeirri viðleitni, og ég vona, að allir styðji þá viðleitni.

Ég vil af sérstökum ástæðum víkja að byggðalínum. Tekið er fram í grg. með fjárlagafrv., að gert sé ráð fyrir að 1313 þús. kr. eða 1.3 milljarðar fari til Vesturlínu á næsta ári. Ég vil vekja athygli á því, að þegar Orkubú Vestfjarða var stofnað var gert ráð fyrir að þessari byggðalínu yrði lokið fyrir árslok 1979, en til þess að svo geti orðið þarf um 4 milljarða kr. Mér er kunnugt um hugmyndir um að láta þessa framkvæmd taka lengri tíma, um tvö ár, en til þess að svo geti orðið þarf 2 milljarða kr. á þessu ári. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég mun bera fram sérstaka fsp. um þetta mál og ræða málið frekar þegar þar að kemur.

Ég get svo að lokum ekki látið hjá líða að minnast á verðjöfnunargjald af raforku. Í grg. með frv. segir: „Tekjur af verðjöfnunargjaldi renna óskiptar til Rafmagnsveitna ríkisins eins og lög gera ráð fyrir.“ Við þetta er að athuga, að gildandi lög gera ráð fyrir að verðjöfnunargjaldið renni til Rafmagnsveitna ríkisins sem svarar 80%, en til Orkubús Vestfjarða 20%. Það er ekki rétt, sem segir í grg. fjárlagafrv., að samkv. gildandi lögum eigi þetta allt að renna til Rafmagnsveitna ríkisins. Samkv. gildandi lögum, sem samþ. voru á Alþ. 19. des. s.l., eiga tekjur af verðjöfnunargjaldi að ganga til þessara tveggja aðila í þeim hlutföllum sem ég greindi frá. Villan er í grg. með frv., en í sjálfu frv. er gert ráð fyrir að öll upphæðin gangi til Rafmagnsveitna ríkisins, eða 1210 þús. kr. Ný þykist ég vita að hæstv. fjmrh. hljóti að vera mér sammála um að það séu mistök að setja inn í grg. frv. það sem ég sagði áðan, að þessi upphæð ætti að öllu leyti að ganga til Rafmagnsveitna ríkisins samkv. gildandi lögum, því að svo er ekki í gildandi lögum. Ég vil því leyfa mér að vona að þetta verði leiðrétt og skipting þessa fjármagns fari fram samkv. gildandi lögum. Og ég vil leyfa mér að óska svars hæstv. fjmrh. um það, hvort þetta verði ekki leiðrétt, því að ég verð að segja eins og er, að ég get ekki látið mér til hugar koma að núv. ríkisstj. ætli að breyta þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. markaði í þessu efni og var ein af forsendunum fyrir því, að Orkubú Vestfjarða var stofnað.

Herra forseti. Ég sagði áðan, að ég hefði haft tilhneigingu til þess að koma að ýmsum öðrum málaflokkum en orkumálunum, en eins og ég sagði þá, hafa aðrir komið inn á þá málaflokka, sem ég hafði hugsað mér sérstaklega að koma inn á. Ég vil ekki lengja þessar umr. með því að vera að endurtaka eitthvað af því, sem áður hefur verið sagt.