18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi okkar Alþb.-manna við þetta frv. sem hér hefur verið gerð grein fyrir, á sama hátt og ég hef ævinlega gert fyrr þegar mál af þessu tagi hafa verið til umr. í þinginu. Alþfl. hefur flutt svona frv. áður og þá stóð ekki á mér að koma hér upp í ræðustólinn og lýsa yfir eindregnum stuðningi Alþb. við frv., enda er það auðvitað misskilningur hjá hv. 1. flm. þessa frv., að það hafi tekið Alþb. 12 ár áð uppgötva þetta mál. Þetta hefur verið yfirlýst opinber stefna Alþb. frá upphafi, og það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum, enda margsinnis ítrekað hér á Alþ. um afstöðu okkar til málsins.

Hins vegar má það teljast til barnabreka þegar menn fara að metast á um það, hver hafi verið á undan að leggja frv. fram á borðin, og þá ekki síst þegar um er að ræða frv. sem menn eru sammála um, frv. eins og þetta, sem er um nákvæmlega sama atriði og við Alþb.-menn fluttum á síðasta þingi. Og það nýmæli, sem var sérstaklega minnst á í framsögu fyrir málinu, þ.e.a.s. að miða kosningarréttinn ekki við það, að tilskildum aldri hafi verið náð á kjördegi, heldur að hinum tilskilda aldri sé náð á kosningaári, það var einmitt í því frv., svo að þessi nýjung er ekki fundin upp nú. Það var í frv. sem lagt var fyrir Alþ. í fyrra. En ekki meira um það, því að ég hef enga löngun til þess að karpa við Alþfl. um þetta mál, síður en svo. Við erum algerlega sammála um að þetta sé réttlætismál sem beri að vinna að, og væntanlega er stuðningur manna og flokka við málið miklu víðtækari heldur en aðeins meðal þessara tveggja flokka.

Hins vegar bendi ég á það, að hér er um að ræða breytingu á stjórnarskrá. Það er flestum kunnugt sem þekkja eitthvað til starfa á Alþ., að þar sem er um að ræða breytingu á stjórnarskrá, þá þarf venjulega allvíðtækt samstarf á Alþ. til þess að koma slíkum breytingum fram, og er því unnið að slíkum málum með nokkuð öðrum hætti en í sambandi við flutning annarra almennra lagabreytinga. Það hefur ósköp lítið gildi að flytja í sífellu frv. um breytingu á stjórnarskrá þó að menn hafi yfirlýsta stefnu í einu máli, ef nálega engar kringumstæður eru til þess að fá samþykkt að taka upp endurskoðun á stjórnarskrárákvæðum. Nú vill svo vel til að það var gert samkomulag á síðasta þingi, á síðasta kjörtímabili, á milli allra flokka um að endurskoðun á stjórnarskránni skyldi fara fram. Og það er bundið samkomulagi, að slík nefnd eigi að hefja störf nú alveg á næstunni. Mér er kunnugt um að flokkarnir hafa allir fengið tilkynningu um að þeir séu beðnir að tilnefna menn í slíka endurskoðunarnefnd, og ég geri því ráð fyrir, að hún hefji störf mjög fljótlega. Þetta mál eins og önnur, sem koma inn í endurskoðun stjórnarskrárinnar, verður því að sjálfsögðu tekið upp í þeirri n. Ég tel alveg sjálfsagt að þar verði einmitt um þetta atriði fjallað og það verði með í þeim till. sem ég vænti að komi frá þeirri n. til breytinga varðandi bæði kjördæmaskipun, kosningalög og önnur mikilvæg atriði sem varða kosningar til Alþingis eða almennar kosningar í landinu.

Sem sagt, ég ítreka það, að við Alþbl.-menn erum nú eins og áður fylgjandi því atriði sem þetta frv. fjallar um. Við munum styðja það, að það nái fram að ganga, og höfum engan hug á því að metast um það við einn eða neinn, hver hafi verið fyrstur eða hvernig hafi verið að þessu staðið. Aðalatriðið er að ná þessu mikilvæga máli fram. Það hefur dregist allt of lengi, eins og hv. 1. flm. frv. sagði. Undir það tek ég. Og ég vænti þess fastlega að sú n., sem flokkarnir hafa samþykkt að eigi að hefja störf og fjalla um breytingar á stjórnarskránni, taki einmitt undir það efni sem felst í þessu frv.