15.11.1978
Efri deild: 14. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

38. mál, verðlag

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á því að hafa langa framsöguræðu fyrir þessu frv., sem hefur þegar verið til meðferðar í hv. Nd. Alþingis. Frv. gerir ráð fyrir því, að gildistökutíma laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem staðfest voru 16. maí s.l., verði frestað til 1. nóv. 1979, þannig að þau komi ekki til framkvæmda 16. nóv. 1978, 6 mánuðum eftir gildistöku, eins og gert var ráð fyrir í lögunum í vor.

Þegar frv. að þessum lögum var undirbúið af hæstv. fyrrv. ríkisstj., var gert ráð fyrir því í upphaflegum drögum frv., að frv. tæki ekki gildi fyrr en einu ári eftir að það hefði verið samþ. og afgreitt á Alþ. Ástæðurnar fyrir þessu voru þær, að í lögum þessum er gert ráð fyrir nýjum stjórnvöldum í verðlagsmálum, og undirbúningur og breyting í þá átt, að þessi nýju stjórnvöld geti rækt skyldur sínar, eru tímafrek og kosta mjög verulega fjármuni. Þau nýju stjórnvöld, sem hér er um að ræða, eru Verðlagsstofnun, og við hana yrði starfandi sérstök neytendamáladeild og meiningin var að koma á fót víðtækari neytendaþjónustu við almenning á vegum opinberra aðila en nokkru sinni hefur áður verið til hér á landi.

Í annan stað gerðu lögin og gera ráð fyrir því, að sett verði á stofn sérstök samkeppnisnefnd til þess að fylgjast með markaðsráðandi fyrirtækjum og hættum á samkeppnishömlum. Fráfarandi hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir því í byrjun, að undirbúningur að því að koma þessu á laggirnar, þannig að skaplegt væri, tæki eitt ár, en síðan var þessu breytt í hálft ár.

Nú gerðist það, eins og allir vita, s.l. sumar, að hér varð mikið umrót í stjórnmálum. Hafði það m.a. í för með sér, að ekki var undirbúið sem skyldi að þau lög tækju gildi sem hér er um að ræða, þannig að Verðlagsskrifstofan, sem verður í raun og veru stofn þeirrar stofnunar sem gert er ráð fyrir, er algerlega óundirbúin að yfirtaka þá nýju þætti, sem lögin gera ráð fyrir, þannig að skaplegt sé. Ég tel þess vegna nauðsynlegt af hreinum tæknilegum ástæðum, til þess að Verðlagsskrifstofan og viðskrn. geti undirbúið sig betur, að lengja gildistökutímann og fresta gildistöku til 1. nóv. 1979, og á það sjónarmið féllst hv. Nd. Alþingis.

Ég hef þessi orð ekki fleiri að sinni, en legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.