15.11.1978
Efri deild: 14. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

38. mál, verðlag

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær vinsamlegu undirtektir sem málaleitan okkar fær hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. Í umr. um þetta mál í Nd. lagði ég á það áherslu, að nú þegar yrði hafist handa við að tryggja að Verðlagsstofnunin eða Verðlagsskrifstofan, eins og hún heitir núna, verði fær um að yfirtaka þau verkefni sem hér er gert ráð fyrir.

Eins og mönnum er kunnugt er ætlast til þess í þeim lögum, sem við erum að leggja til að verði frestað um hríð, að til skjalanna komi sérhæfðari starfskraftar en áður hafa verið við Verðlagsskrifstofuna, og ég hef lagt á það áherslu nú við undirbúning fjárlagagerðarinnar, bæði við formann fjvn. og hæstv. fjmrh., að það verði þegar við frágang fjárl. fyrir árið 1979 að gera ráð fyrir auknum fjármunum til Verðlagsskrifstofunnar til þess að unnt verði að tryggja það, að hún geti með skaplegum hætti sinnt þeim verkefnum sem henni eru ætluð samkv. þessum lögum og samkv. þeim hugmyndum sem almennt eru uppi um vinnubrögð slíkra stofnana.

Ég vil einnig láta það koma hér fram, að eftir að ég varð viðskrh. hef ég rætt við forustumenn verslunarinnar: Kaupmannasamtakanna, Sambands ísl. samvinnufélaga, Verslunarráðs Íslands og fleiri aðila, um þessi mál, þannig að ég held að ég segi ekkert of mikið þegar ég segi að þessi mál eru í fullum gangi eða eins góðum gangi og þau geta verið af hálfu viðskrn.