15.11.1978
Efri deild: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

38. mál, verðlag

Frsm. minni hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Eins og nál. minni hl. ber með sér, mun hann ekki torvelda framgang málsins hér í dag, heldur þvert á móti greiða atkv. með afbrigðum, en síðan sitja hjá við endanlega afgreiðslu þessa máls. Mig langar til þess að fá að eyða örfáum mínútum í að ræða nokkuð efnislega um þetta stóra mál, en skal þó reyna að stikla einungis á stóru.

Það er alkunna, að á Íslandi hafa verið um fjögurra áratuga skeið mjög ströng verðlagsákvæði, yfirleitt hámarksálagningarákvæði. Þetta hefur að vísu ekki verið nákvæmlega í sama horfi allan þennan tíma, en ætíð mjög ströng verðlagsákvæði. Aðrar vestrænar þjóðir afléttu slíkum hömlum skömmu eftir styrjöldina. Það var mikið haftatímabil í Evrópu á fyrstu árum eftir styrjöldina, en þar var þá mjög erfitt efnahagsástand, en það var samdóma álit, held ég, nokkurn veginn allra, hvar í flokki sem þeir stóðu, að það kerfi mundi ekki verða líklegt til að örva framþróun og bæta lífskjör. Þess vegna hurfu allar aðrar þjóðir en við Íslendingar hér í okkar heimshluta frá þessu kerfi. Við höfum hins vegar búið við það fram á þennan dag.

Nú kynnu menn að halda — og vafalaust margir sem hafa haldið það og halda sumir enn — að þetta kerfi væri líklegt til þess að halda niðri verðlagi. Reynslan er hins vegar sú, að verðbólga er hvergi meiri í þessum heimshluta en einmitt hér hjá okkur. Kannske er það ekki fullgild sönnun fyrir því, að þetta verðlagskerfi sé óhæft. Auðvitað eru fleiri þættir sem þar koma til álita. Hitt er þó ljóst og um það verður ekki deilt, að þetta kerfi sem slíkt hefur ekki við okkar aðstæður megnað að halda niðri verðlagi. Þvert á móti, eins og ég sagði, er verðbólguþróun hér örari og uggvænlegri en annars staðar í okkar heimshluta. Skoðun mín er sú, að þetta kerfi hafi skaðað íslensku þjóðina gífurlega. Ég held að það verði ekki talið í tugum milljarða, heldur hundruðum milljarða, hvað viðskiptakjör hafa verið lakari fyrir það, að ekki var örvuð frjáls samkeppni og verslun gerð öflugri til þess að geta verslað í stærri stíl en gert er og gert hagkvæmari innkaup en ella. Þetta eru allt saman margrakin rök og gagnrökin líka og ég skal ekki fara ýkjalangt út í þá sálma

Þetta er, eins og ég sagði, skoðun mín og sannfæring, að fátt hafi verkað meir til að halda niðri lífskjörum á Íslandi og skaða þjóðarhagsmuni en einmitt þær hömlur og þau höft og þau vitlausu verðlagsákvæði sem hér hafa gilt, þar sem hafa verið sérstakir hagsmunir að gera sem óhagstæðust innkaup fyrir þjóðarheildina. Hafa viðsemjendur okkar vitað að íslenskur innflytjandi hagnaðist þeim mun meir sem innkaup hans voru óhagstæðari, og allir geta hugsað sér þá samningsaðstöðu sem maður er í erlendis, hversu gjarnan sem hann vildi koma verðlagi niður, þegar viðsemjandi hans veit að hann er að skaða sjálfan sig, ef hann leggur á sig erfiði til að koma innkaupsverði niður. Við vitum öll, að það hefur verið mikið „kommissionkerfi“, eins og það er kallað, og að miklir fjármunir hafa farið forgörðum af þessum sökum. Lengra skal ég ekki fara út í þá sálma.

Það gerðist svo árið 1969, að allvíðtæk samstaða náðist með hagsmunasamtökum í landi okkar — mjög mörgum hagsmunasamtökum — um framlagningu frv. til verðlagslaga, sem gekk undir nafninu „Sonnefrumvarpið“, en Sonne þessi er danskur sérfræðingur í verðlagsmálum, sem hafði hjálpað til við undirbúning og samningu þessa lagafrv. Það frv. var fellt í þessari hv. d., að mig minnir með jöfnum atkv., eftir að það hafði verið samþ. í Nd. Alþingis. Það var sem sagt rúmur helmingur alþm., sem fylgdi framgangi frv., en það féll — ég held ég fari rétt með það — á jöfnum atkv. við síðustu umr. í þessari d. Það hefur orðið til þess, að við höfum enn um nærri því eins áratugs skeið búið við þetta óhæfa kerfi í verðlagsmálum.

Svo gerðist það aftur á síðasta þingi, að loks náðist samstaða þáv. stjórnarflokka, en andstaða stjórnarandstöðunnar, um að fá samþykkt frv. mjög í anda þessa „Sonnefrv.“ og raunar að miklu leyti eftir því sniðið, en þó aðlagað breytingum eins og þær hafa orðið erlendis, í okkar nágrannalöndum, og höfð reynsla af framkvæmd sambærilegra eða svipaðra laga þar. Þetta var mér mikið gleðiefni og mörgum öðrum, þeim sem trúa á að frjálsræði og samkeppni muni leiða til aukinna hagsbóta fyrir þjóðina alla, þjóðarheildina og hvern einstakling.

Nú hefur það hins vegar gerst, að gildistöku þessara laga skal fresta um eins árs skeið. Út af fyrir sig má segja að við getum lifað í eitt ár í viðbót við þau 40 ár eða hvað þau nú eru mörg sem þessi vitleysa hefur haldist. En ég leyfi mér meira að segja að fagna því, að núv. hæstv. ríkisstj. skuli þó ekki ganga lengra en að fresta gildistöku laganna, hún skuli ekki gera tilraun til þeirrar stefnubreytingar sem maður hefði getað óttast að vissu marki vegna sumra af stjórnarflokkunum og þeirrar stefnu sem þeir hafa fylgt, að það yrði gerð tilraun til þess að kollvarpa þessum lögum með öllu, ekki einungis að fresta gildistöku þeirra, heldur að koma þeim fyrir kattarnef. Ég hlýt að fagna því, að svo langt er ekki gengið, og einnig því, að því ákvæði í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. að snúa sér sérstaklega að 8. gr. laganna er ekki framfylgt, en þar segir, eins og allir vita, að samkeppni skuli vera frjáls til að tryggja æskilega verðmyndun þegar samkeppni er nægileg. Þess vegna er það fagnaðarefni út að fyrir sig, að einungis skuli vera um frestun á gildistökunni að ræða.

Ég vil raunar segja líka, að þessi lög mundu naumast hafa náð tilgangi sínum við aðstæður í dag, og ég hef ekki trú á því, að núv. hæstv. ríkisstj. mundi hafa framkvæmt þau með þeim hætti, að þau hefðu náð tilætluðum árangri, því að vissulega er það framkvæmdin ekki síður en lagabókstafurinn sem hefur meginþýðingu í þessu efni. Það þarf að sjálfsögðu mjög traust stjórnarfar til þess að lög eins og þessi nái tilætluðum árangri, eins og ég skal víkja að örfáum orðum nokkru síðar. Og fólkið verður auðvitað að hafa trú á því, að hugmyndin sé að framkvæma frjálsræði en ekki að það sé sýndarmennska.

Eitt af því, sem þyrfti að gera í sambandi við frjálsræði í verslun, sérstaklega innflutningsversluninni, væri að mínu mati að leyfa ótakmarkaðar heimildir til að taka erlend vörukaupalán, þ.e.a.s. innflytjendur mættu, ef viðsemjendur þeirra erlendis vilja lána þeim á hagstæðum kjörum, nota sér það. Til viðbótar væri eðlilegt að tollur af innfluttum vörum væri með einhverjum greiðslufresti, þannig að vörurnar lægju ekki allar á hafnarbökkunum og væru ekki til afgreiðslu, heldur að samkeppni skapaðist vegna þess að nýtt fjármagn væri í versluninni og það væri kappsmál þeirra, sem hefðu fengið vörurnar í sínar vöruskemmur og sínar verslanir, að losna við þær og það væri kappsmál þeirra að lækka verðið, og nánast allir þeir, sem við sæmileg efni búa, gætu tekið þátt í þeirri samkeppni. Auðvitað yrði niðurstaðan ekki sú, að aðilum í versluninni fjölgaði, þeim mundi áreiðanlega stórfækka, vegna þess að stærri einingar yrðu keyptar og þeir, sem stæðust hina hörðu samkeppni sem þá mundi vera, héldu velli, en hinir ekki, því að í rauninni má segja um ýmsa innflytjendur, gömul og gróin fyrirtæki, að þetta sé orðin nokkurs konar embættismennska, menn uni glaðir við sitt. Þeir hafa ákveðið fjármagn sem þeir nota til ákveðinna kaupa á ákveðnum vörumerkjum sem nokkurn veginn er öruggt að seljist hvað sem þau kosta. Þetta getur verið þægilegt, að hafa sín föstu, öruggu árslaun, en um samkeppni er ekki að ræða nema í mjög takmörkuðum mæli, og það er fyrst og fremst auðvitað þessu fornaldarkerfi að kenna sem við höfum búið við einir lýðfrjálsra þjóða um langan aldur.

Ég fagna því sérstaklega, að hæstv. ráðh. lýsti yfir að það yrðu auknir fjármunir á fjárlögum 1979 til að vinna að undirbúningi að framkvæmd þessara laga, og efast ég ekki um að hann muni standa við þær yfirlýsingar, og ég þakka fyrir þær.

En það eru ýmis ákvæði í þessum lögum önnur en beinlínis þetta meginákvæði 8. gr., sem vissulega eru geysilega mikilvæg ef þau væru framkvæmd. Það á auðvitað bæði við kaflann um óréttmæta viðskiptahætti, neytendaverndina, en auðvitað fyrst og síðast kannske um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlurnar. T.d. er það efni 21. gr., að allir samningar, samþykktir og samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu séu óheimil þegar verðlagning er frjáls. Við vitum að hér eru meiri og minni samtök um verðlagningu. Opinberlega samþykkja þessi og hin samtök að þau skuli fara svona eða svona að, þau skuli hafa svona og svona mikla vexti á sínum víxlum, svona og svona skamman eða langan greiðslufrest o.s.frv. Þetta á allt að banna. Það á að vera heilbrigð samkeppni og allt fyrir opnum tjöldum. (StJ: Þeir munu brjóta þau lög eins og þeir brjóta reglugerðirnar núna.) Brjóta þeir þau lög? (StJ: Já, ef þeim er látið haldast það uppi.) Fyrst þyrfti að leyfa lögum að öðlast gildi, áður en væri hægt að fullyrða að þeir mundu brjóta þau. Í 22. gr. laganna segir að samþykktir og samráð um tilboðsgerð t.d. séu líka óheimil. Þetta eru ekki óalgeng ákvæði í vestrænum löndum. Þar sem heilbrigð samkeppni ríkir eru yfirleitt slík lagaákvæði. Við vitum það allir, að menn eru mismunandi löghlýðnir, og sumir halda, að allir brjóti öll lög, en sem betur fer er það ekki svo. (StJ: Sumir brjóta þau, en aðrir brjóta þau ekki.) Já, hvernig var þetta með að halda mann af sér? Fleiri ákvæði eru í þessum dúr í þessum kafla, sem er einn merkasti kafli þessara laga, en frestast nú því miður líka.

Það hefði að sumu leyti verið æskilegt að reyna á það, — það er orðið um seinan og skal ég alveg eins ásaka mig og aðra fyrir að láta mér ekki detta það í hug, — að reyna á það í samstarfi milli stjórnarandstöðu og stjórnarflokkanna að einhverjir liðir þessa frv. tækju þegar gildi. T.d. er eitt, sem hefði verið sjálfsagt að fella niður, og það eru öll úreltu lögin í 54. gr., vegna þess að eitt af því merkasta við framlagningu þessa frv., það sem vakti hvað mesta athygli, var að þarna tekur Alþ. sig allt í einu til og fellir úr gildi eina 10 lagabálka, sem hafa hangið árum og áratugum saman í lagasafninu, vegna þess að sannleikurinn er sá, og þar tala ég sem lögfræðingur, að ég held að það yrði til mikilla bóta að strika út svo sem þriðjunginn af lagasafninu. Það mundi auðvelda mjög t.d. nám í háskólanum, þótt ekkert væri annað, og auðvelda fólki að átta sig á því, hvað væru lög í landi, ef menn gengju nú í það að strika meira og minna út öll þessi tilgangslausu lög og lög sem aldrei eru framkvæmd og enginn veit af.

Ég lofaði því, herra forseti, að vera hér ekki langorður, enda hugmyndin að reyna að afgreiða þetta mál og kannske fleiri nú á örfáum mínútum sem eftir eru þar til fundartími þingflokkanna byrjar, en ég mátti til með að koma þó að örlitlum aths. efnislega um þetta frv.