15.11.1978
Efri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

68. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Þetta frv. á sér langan aðdraganda, eins og fram kemur í grg., og ég er ekki ein um þá skoðun, að æskilegt sé að setja lög um þetta efni. En ég er sannfærð um að sú löggjöf er mjög vandasöm. Það segja líka höfundar þessa frv. Á þessu stigi get ég hvorki tjáð mig fyllilega með frv. né fyllilega á móti því, eins og það liggur fyrir, en ég vil aðeins leyfa mér að benda á nokkur atriði. Þetta mál hefur verið svo lengi til umfjöllunar, að mikill tími hefur gefist til umhugsunar, en nokkur atriði sýnast mér enn vera óljós. E.t.v. mun sú n., sem málið fær til athugunar, athuga dálitið þau atriði sem bent verður á í þessum umr.

Frv. veitir fyrst og fremst rétt til að ganga að upplýsingum. Það segir hins vegar minna um hvaða skyldur þeim eru lagðar á herðar sem notfæra sér þessi réttindi. Það eru almenn ákvæði um leiðbeiningaskyldu og refsi- og bótaákvæði ef misnotkunar á upplýsingaskyldunni verður vart. En ákvæði um það í gildandi lögum hafa því miður reynst gagnslítil og frv. þyrfti að leysa úr þeim vanda ellegar þá að jafnframt þyrfti að breyta öðrum lögum, sem um það gætu gilt, þ.e.a.s. um misnotkun á réttindum til notkunar upplýsinga.

Þá eru ýmis atriði frv. svo óljós, að það gæti valdið deilum. T.d. virðist að starfsmenn almannastofnana þurfi ekki að leiðbeina fólki um það, hvar upplýsingar sé að finna og hvort þær séu yfirleitt nokkrar til í stofnun þeirra. Um þetta fjalla niðurlagsorðin um 6. gr. í grg. á bls. 11. Sá sem vill fá aðgang að upplýsingum þarf að vita um mál sem hefur verið til meðferðar. En þá vaknar sú spurning: Hvað er mál í þessu sambandi? Dálítið óljóst er hvað það orð, eins og fleira í þessu frv., merkir. T.d. þarf að vera enn ljósara en þar er hvað almannastofnun er í merkingu frv. Það er að vísu nokkuð skýrt í 1. gr. En hvað væri t.d. um stofnanir eins og Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands? Eru það almannastofnanir í skilningi frv.? Um fleiri stofnanir gætu verið vafi. Og hvenær á að ákveða, hvort skjöl falla undir undanþáguna í 3. og 4. gr. Á að ákveða það strax þegar skjölin eru samin eða þegar þau berast almannastofnununum? Nægir t.d. að stimpla skjal trúnaðarmál, eða á að stimpla skjöl sem mismunandi mikil trúnaðarmál? Við þekkjum það, sem stundum er haldið fram, að sjaldan sé öruggara, að skjöl verði athuguð, en ef þau eru stimpluð sem trúnaðarmál, ég tala nú ekki um ef þau eru stimplað algert trúnaðarmál, þá er ljóst að eitthvað forvitnilegt hlýtur að felast í skjalinu. Því er stundum haldið fram, að þetta geti einmitt sett í hættu þá leynd sem ætti að hvíla yfir málinu sem skjalið fjallar um, og sú hætta ætti að vera mun ljósari ef höfð eru í huga þau orð, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lét falla úti í salnum áðan, að allir brjóta sum lög og sumir brjóta öll. Þetta atriði er því ekki einhlítt. En hvernig er ef ein almannastofnun sendir annarri almannastofnun bréf? Hvor stofnunin á þá að ákveða hvort um trúnaðarmál sé að ræða? Á forstöðumaður annarrar stofnunarinnar að geta gefið forstöðumanni hinnar fyrirmæli, eða á sérviska annars forstöðumannsins að ráða? Og hvort á maður úti í bæ að snúa sér til stofnunarinnar, sem við getum kallað A, eða stofnunarinnar B.

Það eru fleiri orð í þessu frv. óljós en orðið almannastofnun. Hvað merkir orðið einkahagir? Í fyrri tölul. 3. gr. frv. er fjallað um það, og höfundar frv. segja sínar skoðanir á því, hvað séu einkahagir. Það eru t.d. hjúskaparmál, ættleiðingar, framfærsla, ætterni og heilsufar. Og skjölin, sem hér koma til greina, eru t.d. læknisvottorð, skrár og dagbækur sjúkrahúsa, sakavottorð, skattframtöl o.fl. þess háttar. Hvað er þá t.d. um það sem finna má í embættisbókum um faðerni óskilgetinna barna, um það t.d. hvort fólk sé gift eða ógift o.s.frv.? Og hvernig samrýmist þetta um einkahagina þeirri ráðagerð, sem fram kemur í 4. gr., að skjöl um rannsóknir á meintum lagabrotum verði öllum frjálst að skoða eftir að rannsókn lýkur? Og hvað um einkahagi og próf í skólum, sem virðast eftir 8. tölul. 4. gr. eiga að vera aðgengileg öllum að prófi loknu, jafnt úrlausnir einstakra nemenda sem athugasemdir þeirra sem sjá um verkefnin? Allt þetta geta verið fullkomin vafaatriði þegar fjallað er um svo viðkvæm atriði sem einkahagi manna.

Í 9. gr. frv. er talað um aðila máls og reynt að afmarka það hugtak í skýringum á bls. 6 og bls. 12. E.t.v. er ekki hægt að orða þetta nákvæmar, en um þetta getur leikið nokkur vafi. Hvað er t.d. um atriði, sem er töluvert algengt, hvort foreldri t.d. er aðili máls, ef leyft er að framkvæma einhvers konar þjóðfélagskönnun á þann hátt að spyrja börn um einkamál þeirra og foreldra þeirra í skólatímanum gegn vilja foreldris eða að því fornspurðu?

Í almennum ákvæðum í III. kafla frv. eru einnig ákvæði sem gott hefði verið að hafa dálítið gleggri. Eftir hvaða sjónarmiðum á t.d. að ákveða, hvort aðili máls fær eða fær ekki ljósrit af skjali, sbr. 12. gr.? Má kæra það samkv. 13. gr., ef ekki er tekin ákvörðun um það efni eða ekki er svarað? Og hvers vegna stendur ekki í frv., að máli megi skjóta til dómstóla? Virðist á grg. að orð 13. gr. beri ekki að skilja svo, að höfundar frv. hafi ætlast til að það ætti að takmarka heimild til þess í samræmi við almennar reglur.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að fara nánar út í þetta mál. Við erum farin að venjast því hér á Alþ. að sjá mál á borðum okkar og telja að um afar sérfræðileg atriði sé að ræða. En sannleikurinn er sá, að þetta mál fjallar um atriði sem snerta afar marga borgara þjóðfélagsins.

Eitt atriði er vert að minna á í þessu sambandi almennt, og það er að á sama tíma og víða um lönd er unnið að því að gera upplýsingar hjá almannastofnunum sem allra aðgengilegastar og sem flestum frjálsar erum við að reyna að vinna að því, að slíkum upplýsingum sé haldið leyndum. Þar á ég við löggjöf um vernd gegn upplýsingamiðlun um menn úr tölvuskrám sem víða eru í ríkiskerfinu, svo sem í sjúkrahúsum, í menatakerfinu og á miklu fleiri stöðum. Löggjöf um þau efni, sem miðar að því að vernda einkahagsmuni manna, gengur í mörgum löndum gegn málinu sem við erum nú að fjalla um. Það hefur orðið töluvert vandamál sums staðar, að þessi tvenns konar lög hafa rekist á. Þetta er atriði sem e.t.v. þarf að hafa í huga við setningu þessara laga.