18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er brýn þörf á að breyta stjórnarskránni í mörgum greinum. Þær stjórnarskrárnefndir, sem settar hafa verið frá því er lýðveldið var endurreist 1944, hafa því miður ekki borið gæfu til að ljúka störfum og skila tillögum og niðurstöðum.

Á s.l. vori var mjög rætt enn um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég átti þá hlut að því að samþykkt var að um leið og kosið yrði að nýju í stjórnarskrárnefnd yrðu nefndinni sett ákveðin tímamörk og Alþ. samþykkti að hún skyldi ljúka störfum og skila till. sínum innan tveggja ára. Ég vænti þess fastlega, að sú stjórnarskrárnefnd, sem nú verður skipuð, standi við þessi fyrirmæli Alþingis.

Hér liggja fyrir þingi nú þegar frv. um tvær breytingar á stjórnarskránni. Önnur breytingin er sú, að Alþ. verði gert að einni málstofu, hin breytingin, að kosningaaldur verði færður niður í 18 ár. Ég er fylgjandi báðum þessum breytingum. Ég tel að meðal þess, sem n. tekur einna fyrst til meðferðar, hljóti að verða þessi tvö mikilvægu mál, um leið og hún verður að sjálfsögðu að hefjast handa um að endurskoða stjórnarskrána í heild, en þar eru margar mikilvægar breytingar sem gera þarf.