15.11.1978
Efri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

68. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Dómsmrh.(Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend aðeins upp til að þakka hv. þm. fyrir þær umr. sem hér hafa farið fram. Ég ætla ekki að svara einstökum ábendingum eða hugmyndum sem hefur verið hreyft. Ég hygg að sumt af því sé sæmilega skýrt í frv. þegar það er betur skoðað. Ég vil t.d. lýsa þeirri skoðun minni, að ég held að fyrirtæki eins og Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands falli tvímælalaust undir almannastofnanir, eins og tilgreint er í grg. með frv. Ég tel einnig að fram komi sæmilega í frv. sú málsmeðferð sem þarna er nauðsynleg, t.d. að skjóta meginmáli til ráðh. og þá að sjálfsögðu ef viðkomandi finnst óeðlileg töf orðin á því að fá svar, og vitanlega er öllum frjálst að skjóta máli til dómstóla ef þeir telja lög á sér brotin.

En fyrst og fremst stóð ég upp til að geta þess hér, að frv. um aðgang að tölvuskrám er til meðferðar í dómsmrn. Það mál var lagt fram á síðasta þingi. Hins vegar hafa orðið mjög örar breytingar í slíkum málum í nágrannalöndum okkar, þar sem sums staðar hefur slík löggjöf verið sett, er annars staðar í undirbúningi. Einn af þeim nefndarmönnum, sem unnu að því máli, hefur haft sérstaka aðstöðu til að kynnast því erlendis, hann er starfandi erlendis. Ég ákvað því að bíða heimkomu hans, m.a. vegna ýmiss konar ábendinga sem fram hafa komið. Það frv. mun verða lagt fram er þing kemur saman að nýju eftir áramót. Mér finnst eðlilegt að þau mál verði athuguð að einhverju leyti saman, enda lagði ég í framsöguræðu minni enga áherslu á að þessu máli yrði hraðað svo að það gæti ekki orðið, og ég tek undir ábendingar hv. þm. um að þarna þarf samræmi að vera.

Ég ætla ekki að fara út í fræðilegar afleiðingar af þessu frv. Ég hygg að margt af því, sem hv. 3 landsk. þm. sagði, eigi fullan rétt á sér. Ég tek undir það, að illt er að sjá mörg einkenni íslensks þjóðfélags hverfa. Þau hafa gert það, og við fáum ekki haldið þeim í þeirri þjóðfélagsbyltingu sem er. Margra þeirra söknum við eflaust. Ég held að löggjöf eins og þessi muni tvímælalaust leiða til þess, að sum einkenni íslensks þjóðfélags hverfi. Hér er um nokkra nýbreytni að ræða.

Ég vek hins vegar athygli á því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að hér er um mjög vandasama löggjöf að ræða, og reyndar kom það einnig fram hjá hv. 3. landsk. þm. Kannske er það kjarni málsins. Hér er um mjög vandasama löggjöf að ræða, hvernig eigi að rata hinn gullna meðalveg á milli þess, að fullnægt verði þeirri kröfu, að almenningur fái sem bestan aðgang að upplýsingum, án þess þó að spilla bæði meðferð máls og kannske hagsmunum annarra einstaklinga. Þetta er vandasamt mál, ég hygg að við getum öll tekið undir það. Og það fannst mér vera grunntónninn í því sem hér kom fram. Ég hygg að athuga eigi málið í nefnd með þetta í huga.

Ég vil taka undir það, að vel kemur til greina að setja í frv. ákvæði um aðgang eftir ákveðinn tíma að öðrum opinberum upplýsingum en hér er opnað fyrir. Þá þarf eflaust að athuga hvort það er almennt eða takmarkað. Það er enn eitt vandasamt atriði.

Skoðun mín, eftir að ég kynnti mér þetta frv. betur nú í haust heldur en ég gerði í fyrra, var sú, að mjög vandvirkir menn hefðu unnið að þessu máli, hugleitt það mikið og unnið vel í því og því væri eðlilegast að leggja frv. fram óbreytt nú í byrjun þings, en biðja, eins og ég gerði í framsöguræðu minni, þingnefnd, sem um það fjallar, að skoða málið vandlega. Og ég mun verða til umr. hér í hv. Alþ. um þær hugmyndir sem þar kunna að koma fram.