15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að eyða mörgum orðum að þessu frv. sem hér er lagt fram og er nú til umr., vegna þess að af mörgum furðulegum till. og frv., sem borin hafa verið fram á þessu þingi, held ég að þetta sé það vitlausasta og fráleitasta sem sést hefur. Í þessu frv. er sem sagt lagt til að alþm. sé bannað að hafa aðrar tekjur en eingöngu þingfararkaupið, og flm. er svo hógvær í grg. að taka fram, að honum þyki ekki rétt að hefta þm. frá þátttöku í atvinnulífinu. Þetta er hófsamlega til orða tekið og er mikið lagt undir þegar verið er að velta fyrir sér þeim hugsanlega möguleika að banna þm. að taka þátt í atvinnulífi eða atvinnurekstri.

Þetta frv. minnir á að í langan tíma hafa farið fram ítarlegar umr. um stöðu þm., kjör þeirra og hlutverk þeirra almennt talað, og það er enn í fersku minni margra þegar fróðlegar umr. fóru fram um þessi mál og þar deildu tveir þingskörungar á sínum tíma, hv. þm. Bjarni Benediktsson og Eysteinn Jónsson. Þar komu fram þau meginsjónarmið annars vegar hjá hv. þáv. þm. Eysteini Jónssyni, að leggja skyldi áherslu á að þingstarfið væri fullt starf og því ætti að borga það vel og gera ráð fyrir því að menn sinntu því alfarið. Hins vegar lagði Bjarni Benediktsson áherslu á að þm. skyldu sem mest vera í snertingu við atvinnulíf og aðrar athafnir utan þings og það þyrfti að sækjast eftir því að á þing veldust menn sem hefðu nána þekkingu á atvinnulífi og umsvifum í þjóðfélaginu. Þessar umr. voru fróðlegar á sínum tíma og eru engan veginn útkljáðar enn þá. Þó hef ég lítið svo á að þegar sú ákvörðun var tekin fyrir tæplega 10 árum að hækka verulega þingfararkaupið, þá hafi það verið staðfesting þingsins á því, að þingmennskan væri það viðamikið starf að greiða þyrfti það eins og um fullt starf væri að ræða.

Ég er sammála því og hef reyndar bæði í ræðu og riti tjáð mig um það, að mjög sé áríðandi fyrir þingið sem slíkt að þm. sinntu þessu starfi af alhug og hefðu það að fullu aðalstarfi. Það sjónarmið mín byggist fyrst og fremst á því, að þjóðþingið á í seinni tíð mjög í vök að verjast gagnvart framkvæmdavaldinu og stjórnsýslunni, og með því að þjóðfélagið verður sífellt flóknara og yfirgripsmeira er auðvitað nauðsynlegt fyrir þm. að geta sinnt þingstarfinu svo að þeir geti sett sig inn í mál mjög ítarlega og hafi full tök á því að meta hvert mál sem berst sjálfstætt og án þess að vera teymdir beinlínis af framkvæmdavaldinu og rn.

Ég hef jafnframt verið talsmaður fyrir því, að þingfararkaupið ætti að vera gott, það ætti að launa þingstörfin og þingmennskuna vel til þess að menn þyrftu ekki að sækja í önnur störf vegna lélegra tekna á þingi. Þm. þurfa að vera efnalega sjálfstæðir, það er rétt, sem fram kemur í máli frsm. fyrir þessu frv. og þeir eiga undir venjulegum kringumstæðum að geta lifað mannsæmandi lífi að þingfararkaupinu og þurfa ekki að þiggja laun eða greiðslur frá aðilum úti í bæ og verða kannske að því leyti undir vissum kringumstæðum að einhverju leyti háðir þeim sömu aðilum. Það breytir hins vegar ekki hinu, að hverjum manni í þessu þjóðfélagi hlýtur að vera frjálst að taka að sér margvísleg störf, ef viðkomandi hefur tíma og starfskrafta til þess og hefur aðrar aðstæður til þess að sinna öðrum störfum. Sú meginregla hefur gilt á Íslandi, að mönnum sé ekki meinað að afla sér tekna ef þeir hafa til þess vilja og kraft, og auðvitað á það að gilda um þm. eins og aðra.

Þingmennskan er ársstarf og það er mikill misskilningur, sem fram kemur í grg. með þessu frv., að gera ráð fyrir að yfir sumartímann geti þm., af því að þingmennskan skapi þá ekki eins mikið annríki, farið að stunda önnur störf þann tíma. Ef menn sinna þingmennskunni vel eru þeir auðvitað að sinna sínum umbjóðendum, gæta hagsmuna þeirra og sinna sínu þingstarfi allan ársins hring og er ekkert lát á því. Ég geri ráð fyrir að nýir þm. muni fljótt kynnast því, að enda þótt þingfundir séu ekki haldnir í nokkra mánuði á ári, þá dregur lítið sem ekkert úr nauðsyn þess að sinna þessu starfi og þá á meðal kjósenda.

Ég átta mig ekki á því, hvernig hv. flm. þessa frv. hefur hugsað sér að koma í veg fyrir að alþm. taki laun hjá t.d. einkaatvinnufyrirtækjum eða einstaklingum á meðan á Alþ. stendur. Hvað t.d. með þá sem reka sjálfstæðan atvinnurekstur? Hvað með bændur? Hvað með ýmis nefndarstörf utan þings, sem þm. taka að sér og eru allajafna launuð? Og stendur ekki mjög misjafnlega á hjá þm? Þeir geta verið með stórar fjölskyldur, eiginkonur þeirra hafa kannske ekki aðstöðu til þess að vinna fyrir tekjum, og þeir þurfa e.t.v. að afla sér meiri tekna en þingmannslaunin eru á hverjum tíma, og vitaskuld á þeim að vera það frjálst, ef þeir vilja leggja það á sig.

Ég get hins vegar hugsanlega fallist á það, að undir vissum kringumstæðum sé hægt að setja þá reglu, af ef þm. eru í störfum hjá hinu opinbera verði einhver skerðing á launum að því leyti til, enda sé þá um að ræða fastar stöður hjá ríkisfyrirtæki. Viðkomandi ríkisstofnun verður auðvitað að gera ráð fyrir að starfi þar sé sinnt, og auðvitað hlýtur það að koma niður á því starfi eða þá þingmennskunni ef sami þm. sinnir þessum tveim störfum. Allt annað mál er það ef þm. er á launum hjá einkafyrirtæki. Þá er auðvitað háð vilja og samþykki þess fyrirtækis, hvort það vill sjá af þessum starfsmanni vegna þingstarfa einhvern tíma og draga úr störfum hans, og þá er það mál þm. og fyrirtækisins, hvort dregið er af launum hans eða ekki. En auðvitað á ekki að setja nein lagaákvæði þar að lútandi.

Jafnframt finnst mér að það sé rétt að athuga hvort ráðh. eigi að þiggja þingfararkaup jafnframt ráðherralaunum. Ég held að rétt sé að ráðh. tjái sig um það sjálfir eða þeir sem hafa sinnt þeim embættum. Mér sýnist þó að það að taka að sér ráðherrastarf jafnframt þingmennsku sé nánast að taka að sér tvöfalt starf, og ég held að það sé ekkert ofgert við þá menn, sem ráðherradóm taka að sér, að þeir fái aukin laun fyrir þessa tvöföldu vinnu. Hins vegar er það sjónarmið stundum sett fram, að þegar þm. taka að sér ráðherradóm eigi varamenn að koma inn í þeirra stað og sinna þeirra þingstörfum, en það er vitanlega allt annað mál sem ekki er fjallað um í þessu frv.

Ég minnist þess, að í sumar var haft viðtal við hv. þm. Gunnlaug Stefánsson í einhverju blaði þar sem hann lýsti því yfir, að hann teldi það vera sjálfsagt mál að þm. færu á sjóinn yfir sumartímann. Ég er algerlega sammála því, að það er um að gera að senda þm. á sjóinn og út í atvinnulífið. En ætlast þá þessi sami þm. til þess, að þm. séu í sjálfboðaliðavinnu á togurunum yfir sumartímann? Eða hvernig fer það saman að flytja þetta frv. og banna mönnum að hafa laun h já öðrum? (GSt: Lestu frv.) Ég er búinn að lesa frv. Það er alveg ljóst hvað hér stendur. Ég skal lesa það fyrir flm., ef hann hefur ekki lesið það sjálfur eða ef hann skilur það ekki nægilega vel. Í 3. mgr. 1. gr. þessa frv. segir svo með leyfi forseta:

Alþm., sem ekki eru jafnframt ráðh., má ekki hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana, einkaatvinnufyrirtækja eða fyrir einstaklinga meðan Alþ. stendur yfir utan laun fyrir alþingisstörf úr ríkissjóði.“

Ef það er hugsun þm. að menn megi taka laun yfir sumartímann af því að Alþ. standi þá ekki, þá er ég búinn að gera grein fyrir því, að á því er auðvitað enginn munur og þessi tillaga stenst auðvitað ekki.

Mér finnst þetta vera í sjálfu sér mál sem þurfi ekki mikillar umr. við. Það er fráleitt að þurfa að setja í lög að banna mönnum að þiggja laun með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Ég held að það sé best að þingið, einstakir þm., geri það upp við sig sjálfir, hvað þeir vilja leggja mikið á sig varðandi vinnu, og það sé síðan kjósenda sjálfra að taka ákvörðun um það, hvort þessi þm. sé hæfur til þess að sitja á þingi enda þótt hann sinni einhverjum öðrum störfum en þingmennskunni einni.