15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég lýsti þeirri skoðun minni áðan, að ég teldi þetta vera eitt fráleitasta frv. sem hér hefur verið lagt fram. Meginefni þess er að banna þm. að þiggja laun annars staðar frá, og ég tel að þetta meginatriði í frv. sé þess eðlis, að útilokað og fráleitt sé að samþykkja það. Það getur verið að ég hafi tekið þannig til orða, að ég hafi talið þetta vitlausasta frv. sem lagt hefur verið fram, og ég skal þá játa að ég gáði ekki að því í staflanum hvort hv. þm. Páll Pétursson hefði flutt frv., en ég skal endurskoða þessa fullyrðingu mína ef það kemur í ljós. En ég hef lúmskan grun um að honum hafi ekki unnist tími til þess enn þá að flytja hér margar tillögur, en það kemur þá til athugunar hvort það stenst þennan samanburð.

Það kom fram í máli hv. þm. Finns Torfa Stefánssonar, að tilgangur þessa frv. er að tryggja það að þm. sinni þingstörfum, ég held að ég hafi tekið rétt eftir því. Ætlar nú þingið að fara að taka það að sér að tryggja að menn sinni þingstörfum? Á þingið sem slíkt að fara að leggja dóm á það og fara að skylda menn til þess að sinna störfum eftir einhverri ákveðinni formúlu? Hvernig á að mæla þetta? Á að mæla þetta eftir því, hvað menn flytja hér mörg mál eða hvað menn halda margar ræður eða hversu langar ræður þeir halda eða hversu lengi þeir sitja hér inni undir umr. — eða hvaða mælikvarða á að leggja á það, hvort menn sinni þingstörfum sínum eða ekki? Ég hef vissu fyrir því, að hér sitja inni og eru á þingi fjölmargir menn sem eru ekki alltaf blaðskellandi upp í ræðustól eða flytjandi mál í sífellu, en eru þó hinir nýtustu þm. vegna þess að þeir vinna störf sín í kyrrþey og vinna vel þannig, hafa áhrif með öðrum hætti en tala og flytja mál. Sannleikurinn er sá, sem við uppgötvuðum sem vorum hér á síðasta kjörtímabili, að þeir hafa ekki alltaf mestu áhrifin sem hæst tala.

Ég vil fullyrða það, að þetta frv. mundi leiða til þess að við kæmum hér upp atvinnustjórnmálamönnum. Niðurstaðan af þessu máli yrði sú, að hér yrði sveit atvinnustjórnmálamanna. Eru menn tilbúnir að samþykkja það? Ég er því andvígur. Ég held t.d. að þó að menn fyrir tilviljun eða fyrir röð af tilviljunum fljóti hingað inn á þing, menn sem stunda búrekstur norður í Húnaþingi, væri mikill skaði að því og væri ákaflega ósanngjarnt gagnvart þeim að banna þeim að hafa tekjur af búrekstrinum eða þeim fáu skjátum sem þeir hefðu þar sér til afþreyingar. (Gripið fram í.) Ég kem að þessu með afþreyingarnar síðar.

Hvað ætla menn að gera við atvinnurekandann sem velst til framboðs fyrir einhvern stjórnmálaflokk og sest á þing? Á að skipa honum að leggja niður fyrirtækið og banna honum að hafa tekjur af því, ef hann sinnir þessu fyrirtæki sínu á kvöldin eða á öðrum tímum, þegar hann hefur aðstöðu til? Hvað á að gera við forsvarsmann og forustumann í verkalýðshreyfingunni, eins og t.d. hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, sem nú er nýsestur á þing og hefur, að ég best veit laun hjá Dagsbrún? Á hann að endursenda launaumslagið. (GJG: Ég var tekinn af launaskrá í gær.) Tekinn af launaskrá í gær, það er mjög virðingarvert ef það er gert. (Gripið fram í.) Þá er það mál Dagsbrúnar og þessa starfsmanns hvort svo sé gert eða ekki. En þingið á ekkert að fara að setja lög um það að hann megi ekki þiggja þessi laun.

Ég segi fyrir mig, að ég eyði miklum tíma í félagsmálastörf fyrir íþróttahreyfinguna. Að vísu þigg ég engin laun fyrir það, en það fer mikill tími í það, bæði um helgar og á kvöldin og yfir sumartímann. Ég vildi ekki sitja undir því, að þingið bannaði mér að taka laun fyrir þennan mikla tíma og þá miklu vinnu sem fer í þetta, ef samkomulag væri um það milli mín og viðkomandi íþróttasamtaka.

Svona mætti áfram telja. Ég held sem sagt varðandi menn sem taka að sér hvort sem eru félagsmálastörf, nefndarstörf, blaðamennsku, hvað eina sem væri, að það væri fráleitt að fara að banna með lögum að þeir þægju einhverja greiðslu fyrir það, ef viðkomandi aðilum sýndist að það væri þess virði að greiða þeim laun og halda þessum starfskröftum. Og ég held að það væri gagnlegt fyrir þm. að geta verið í snertingu við slíka félagsmálastarfsemi og atvinnulífið með þeim hætti, enda þótt einhverjar greiðslur kæmu fyrir það.

Auðvitað komum við ekki í veg fyrir það, að þm. sækist eftir valdi, hvort sem þeir fá fleiri eða færri krónur fyrir þau störf sem þeir taka að sér. Menn eru auðvitað í pólitík til þess að hafa áhrif og þurfa að njóta ákveðinna valda. Það er mjög eðlilegt. Og enda þótt bannað sé að þeir þiggi laun fyrir einhver nefndarstörf, mundi það ekki draga hið minnsta úr því, að þeir sæktust eftir þessum nefndarstörfum ef því væri að skipta.

Ég get vel fallist á það, að meiningin sé nokkuð góð með þessu frv. Ég tók reyndar fram áðan að það sé út af fyrir sig nauðsynlegt að tryggja að menn séu efnalega sjálfstæðir, þurfi ekki að vera neinum öðrum háðir, og það á auðvitað að gera með því að hækka þingfararkaupið, borga svo vel hér að menn þurfi ekki að vera að ná sér í peninga og sækjast eftir vinnu annars staðar vegna teknanna. Það kemur fram í grg. með öðru frv. sem liggur fyrir þessu þingi, að kollegar hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar í þingflokki Alþfl. eru þeirrar skoðunar, að þingfararkaupið hafi dregist mjög aftur úr á seinni árum. Ég er alveg sammála þessu. Ég held að það væri þess vegna nær fyrir okkur, ef við viljum eitthvað gera í þessu, að hafa þingfararkaupið þannig að menn geti lifað góðu lífi af því og sinnt starfi sínu alfarið hér á þingi. Þannig á að draga úr eftirsókn þm. eftir öðrum störfum ef við viljum á annað borð draga úr henni. En kannske endar þetta allt saman með því, að hér verða sett lög um það nákvæmlega hvað við eigum að hafa miklar tekjur og hvað við eigum að gera, hvað við eigum að halda langar ræður, hvað við eigum að sitja lengi hér inni. Og kannske endar þetta með því, að við höfum svo góðan tíma, miklar tómstundir, að við getum stundað okkar kvennafar og okkar íþróttir af kappi, og er það út af fyrir sig vel.