15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

86. mál, útvarpslög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður um þetta frv., en þó þótti mér rétt og sjálfsagt að taka undir þá meginstefnu sem felst í þessu frv. Ég hef áður á hv. Alþ. í sambandi við mál af svipuðu tagi, þ.e.a.s. þegar Guðmundur H. Garðarsson flutti frv. sitt um frjálsan útvarpsrekstur einhvern tíma á síðasta kjörtímabili, látið í ljós álit mitt á því efni. Ég andmælti þá tillögum Guðmundar H. Garðarssonar um frjálsan útvarpsrekstur, en minntist á hitt, að mér fyndist eðlilegt að Ríkisútvarpið hefði forgöngu um að koma upp útvarpsstöðvum víðar um land en í Reykjavík þar sem hægt væri að útvarpa beint og sinna sérstökum þörfum þeirra staða sem útvarpið á að ná til. Nú sýnist mér að þetta frv. hv. þm. Ellerts B. Schram miði einmitt að þessu, að koma upp staðbundnum útvarpsstöðvum á vegum Ríkisútvarpsins að verulegu leyti. Ég get því tekið undir það, að þetta mál fái eðlilega athugun hér í þn., og mun stuðla að því, að svo verði, enda á ég sæti í þeirri n. sem kemur til með, trúi ég, að fjalla um þetta mál.

Ég skal nú ekki fara langt út í það að ræða um útvarpsrekstur yfirleitt. Við Íslendingar höfum fengið mjög góða reynslu í rekstri ríkisútvarps allt frá árinu 1930 eða svo, þegar Ríkisútvarpið tók til starfa, og í þeirri stofnun hefur vissulega orðið mikil og á margan hátt mjög ánægjuleg þróun. Eigi að síður hefur mér fundist að orðið hafi á því nokkur dráttur að nýta þá möguleika sem vissulega eru fyrir hendi til þess að Ríkisútvarpið sé ekki svo einskorðað við Reykjavík sem er í reynd. Auðvitað er það rétt, að Ríkisútvarpið sinnir landsbyggðinni allvel og hefur áreiðanlega ekki dregið úr því. Samt sem áður eru möguleikar til landshlutaútvarps það miklir, að mér finnst alveg sjálfsagt að reyna að nýta þá til fullnustu.

Þessi mál hafa nú alllegni verið á döfinni og verið mikið rædd. T.d. get ég sagt frá því, að í mínum heimabæ norður á Akureyri hefur þetta mál alltaf af og til skotið upp kollinum, m.a. í bæjarstjórn Akureyrar, og þar hafa jafnvel verið fluttar ákveðnar tillögur í þessa átt, en aldrei orðið neitt úr framkvæmdum þegar til kastanna kom, enda held ég og vona að ég fari þar ekki rangt með, — að ekki hafi gætt neinnar sérstakrar hvatningar af hálfu Ríkisútvarpsins í Reykjavík varðandi þetta mál, nema síður sé.

Ég ætla ekki að fara að gagnrýna yfirstjórn Ríkisútvarpsins á neinn hátt í þessum efnum í löngu máli við þetta tækifæri, en þó er það svo, að mér finnst að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hafi stundum verið nokkuð svifasein og jafnvel ekki alveg laus við vanrækslusyndir í sambandi við sumar endurvarpsstöðvarnar, eins og endurvarpsstöðina í Skjaldarvík norðan við Akureyri. Það kemur iðulega fyrir þegar rafmagnslaust verður fyrir norðan, sem stundum verður vegna veðra og af öðrum ástæðum, að þessi stöð dettur algerlega út og þeir Akureyringar og reyndar þeir mörgu Norðlendingar aðrir, sem nota endurvarpsstöðina í Skjaldarvík, eru algerlega útvarpslausir þegar þannig háttar. Auðvitað hefði verið eðlilegt að hafa þessa stöð betur búna. Þetta sýnir að mínum dómi að Ríkisútvarpið hefur ekki verið nógu vakandi í málefnum endurvarpsstöðvanna og fyrir þörfum þeirra sem búa úti um landsbyggðina og eru háðir endurvarpsstöðvunum, hvað þá um svo stórt og viðamikið mál eins og þetta kannske er, að koma upp sérstakri útvarpsstarfsemi fyrir einstaka landshluta.

En sem sagt, ég endurtek það, að ég tek undir meginstefnu þessa frv. og ég tel að þarna sé hreyft mjög merku máli, sem sjálfsagt er að Alþ. láti sig skipta og ræði eins vel og kostur er. Ég hygg að þetta mál muni eiga vinsældum að fagna víða um land.