16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að því nokkrum orðum, að ég held að brýnt sé að haga vinnubrögðum hér á þann veg, að fsp. sé hægt að svara fyrr en gert er. Margar fsp. eru eðli málsins samkv. tímabundnar og þess vegna brýnt að þeim sé svarað fljótlega. Sú fsp., sem hér um ræðir, er að vísu ekki sérstaklega tímabundin, en henni var dreift hér 19. okt. s.l. og er nú bráðum mánuður liðinn síðan.

Á þskj. 28 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til menntmrh. um samstarf Norðurlandanna á sviði sjónvarpsmála. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver er stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart aðild að fyrirhuguðu samstarfi Norðurlanda um fjarskiptahnött fyrir sjónvarp (Nordsat)?“

Því er um þetta spurt, að hér er um að ræða mikilvægt mál sem lengi hefur verið á döfinni á vettvangi norrænnar samvinnu, en ég minnist þess hins vegar ekki að hafa heyrt það nokkru sinni hver sé stefna íslenskra stjórnvalda í þessu máli. Umræða um þessa fyrirhuguðu samvinnu hefur verið sáralítil, nánast engin hér á landi, ef frá eru skilin nokkur brot úr sjónvarpsþáttum þar sem þetta mál hefur lítillega borið á góma.

Ítarlegar skýrslur um þetta mál voru lagðar fram á fundi norrænu menntmrh. á Húsavík í júní 1977. Þar kom m.a. fram, að tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að koma upp norrænu sjónvarpskerfi með gervihnetti er flutt gæti allar sjónvarpsdagskrár og raunar útvarpsdagskrár einnig frá öllum Norðurlöndunum til allra Norðurlandanna. Á þessum fundi menntmrh. norður á Húsavík var einnig til þess hvatt, að fram færi sem víðtækust umr. um þetta mál, en það virðist enn sem komið er hafa farið harla lítið fyrir henni hér á landi. Hér er sannarlega um stórmál að ræða menningarpólitísks eðlis, sem örugglega er töluverður ágreiningur um, og ekki síst þess vegna er nauðsynlegt að hvetja og vekja upp umr. um þetta mál hér. Samvinna Norðurlanda á þessu sviði, ef af verður, yrði einstök í sinni röð í veröldinni og með henni yrði sjálfsagt stigið stærra skref en nokkru sinni fyrr til aukinnar menningarsamvinnu þessara landa. Því er um það spurt, hver sé stefna íslenskra stjórnvalda að því er þetta mál varðar.