16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 5. landsk. þm. þakka fyrir það, að þetta mál kom hér til umr. og að hv. 3. þm. Vesturl. skyldi bera fram þessa fsp. Það komu fram miklar upplýsingar í svari hæstv. ráðh. þó að margt sé enn óupplýst í þessu máli. Það er eitt atriði sérstaklega sem mig langar til að vek ja athygli á í þessu sambandi og biðja hv. þm. að hugleiða, hvort ekki sé ástæða til þess að vera á verði varðandi eitt atriði sem getur haft mikla menningarpólitíska þýðingu.

Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að rætt hefði verið á ráðstefnunni í Genf árið 1977 hvernig og hvert þær þjóðir, sem hyggjast senda á loft sjónvarpshnetti, beina geisla þessara hnatta. Þarna tel ég vera um mjög mikilvægt atriði að ræða sem ástæða er til að taka pólitíska afstöðu til. Það er ekki komið undir sérfræðilegu mati eins eða neins, hvort sú ákvörðun er tekin t.d. að biðja við skulum segja Frakka eða Þjóðverja eða einhverja aðra þjóð að gæta þess að beina ekki sjónvarpsgeislanum yfir tiltekið svæði eða t.d. yfir það svæði sem Ísland liggur á. Ég tel einmitt að það sé mjög mikið hagsmunamál, ekki síst fyrir Íslendinga, að þessir möguleikar séu nýttir til fulls.

Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að vitað sé að innan fárra ára muni Vestur-Þjóðverjar senda á loft sjónvarpshnött. Það mun líka svo kunna að fara um Frakka, að innan eins og hálfs árs muni þeir senda á loft sjónvarpshnött. Svona er þróunin hröð í þessu efni. Og að því er þá möguleika varðar að geta séð dagskrár frá þessum löndum t.d., þá tel ég þar vera um svo mikilsvert menningarmál að ræða, að stjórnvöld geti ekki veitt sérfræðingum umboð til þess að setja fram óskir um það, að geislum frá t.d. slíkum hnöttum væri ekki beint til okkar. Mér hefur skilist á þeim sem fróðir eru um þessi mál, að það muni ekki vera dýrara fyrir þær þjóðir, sem setja upp sjónvarpshnetti, að haga þeim útbúnaði þannig, að hægt sé að hafa hreyfanlegan geisla. Það væri hugsanlegt að senda dagskrár kannske einu sinni, tvisvar eða þrisvar í viku yfir eitthvert annað svæði en gert er aðra hluta vikunnar. Á þessu sviði eru möguleikar sem Íslendingar hafa ekki verið nægilega vakandi yfir.

Þetta vildi ég sérstaklega draga fram, en aftur á móti ekki á þessu stigi blanda mér inn í þær miklu og flóknu umr. sem vissulega þurfa enn að fara fram um norrænan sjónvarpshnött, einungis þó láta það koma fram, að ég tel þar vera um mjög mikilvægt atriði að ræða og sérstaklega að við náum sem fyrst beinum útsendingum frá hinum einstöku löndum. Hins vegar tel ég mjög vafasamt að við ættum að styðja þá stefnu, að einungis yrði ein allsherjar ritstýrð norræn dagskrá. Ég held að við ættum einmitt að vera vakandi yfir þeim möguleikum sem við höfum á stórauknu valfrelsi á menningarsviði.