16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Þar kom fram skýrt og skorinort, að engin stefna hefur verið mótuð í þessu máli, og er e.t.v. ekki ástæða til að áfellast það sérstaklega, þar sem undirbúningur málsins er á því stigi. Hins vegar held ég að ástæða sé til að áfellast það, og mér sýnist það mjög slæmt, að ekki hefur verið unnið að þessu máli af hálfu menntmrn. í þá átt að vekja hér almenna umr. um málið. Það kom fram í máli ráðh., að þetta hefði verið sent ýmsum aðilum til umsagnar. Ég leyfi mér að efast um að þessir aðilar hafi haft í höndum upplýsingar og gögn sem væru nægjanleg til þess að byggja á skynsamlega skoðun á þessu máli. Raunar kom fram sömuleiðis hjá ráðh., að mjög fá svör hafa borist, miðað við þann langa lista sem hann las upp, og gefur það kannske til kynna að menn hafi ekki talið sig bæra til að kveða upp úr um þetta af eða á.

Sá er gallinn á gjöf Njarðar í sambandi við þróun þessa máls, að um það hafa eingöngu fjallað embættismenn og tæknimenn fram að þessu. Það er áreiðanlega kominn tími til og raunar brýn nauðsyn að þetta mál sé rætt á pólitískum vettvangi og einnig að vakin sé umræða meðal almennings um það. Það sýnist t.d. ekki fjarri lagi að menntmrn. gengist fyrir ráðstefnu til að kynna hvernig þetta mál er vaxið, hvers eðlis það er o.s.frv.

Ég held að afstaða manna til þessa máls hafi töluvert einkennst af hleypidómum, oft hleypidómum sjálfskipaðra menningarvita sem telja að allt afþreyingar- og skemmtiefni sé af hinu illa eingöngu. Menn skyldu nefnilega vara sig á því að vanmeta hlutverk þessa fjölmiðils, sjónvarpsins, sem afþreyingartækis, sérstaklega í þjóðfélagi þar sem of langur vinnudagur og streita er regla fremur en undantekning.

Annar er sá flötur á þessu máli, sem aðeins var vikið að hér áðan, sem er býsna mikilvægur fyrir okkur Íslendinga og ég held að sé vert að hv. alþm. gefi sérstakan gaum. Hér hefur á hverju þingi á eftir öðru löngum stundum verið rætt um að koma sjónvarpi til íslenskra fiskiskipa á miðunum hér við land og nefndar feiknalega háar tölur í því sambandi, jafnvel hærri tölur eða viðlíka og stofnkostnaðarhluti okkar í slíku norrænu sjónvarpskerfi yrði. Komist slíkt gervihnattasjónvarp á er það mál leyst, og jafnframt fyrir velflesta afskekkta staði hér á landi sem njóta ekki þegar sjónvarps. Þess vegna held ég að það skipti verulega miklu máli fyrir okkur að fylgjast með þessu.

Það er deginum ljósara, að fram undan eru gífurlegar framfarir á sviði fjarskiptatækni, og það, sem blasir við okkur núna, er kannske að gera það upp við okkur, hvort við viljum taka þátt í þessu norræna samstarfi núna eða hvort við viljum bíða þess að aðrar þjóðir stærri og voldugri taki að beina hingað sjónvarpsefni án þess að við verðum um það spurð, því um það verðum við ekki spurð. Það er ljóst að endurvarpshnöttur, sem verður fyrir Bretlandseyjar, mun hindrunarlaust ná a.m.k. til Suðaustur- og Austurlands, að því er sérfræðingar telja. Ég held að þó sumir vildu það kannske, þá sé ekki hægt að reisa menningarlegt járntjald í kringum Ísland. Sá möguleiki er hreint ekki fyrir hendi, þó ýmsir kannske kjósi það og telji það vera hið ákjósanlegasta í þessu efni. Tæknin gerir það að verkum, að járntjöld í þessum efnum verða næsta óvirk og lítils virði, enda sjálfsagt í andstöðu við það sem meiri hluti þessarar þjóðar óskar eftir.

Ég held að afar brýnt sé að umr. um þetta mál haldi áfram á pólitískum vettvangi og sem víðast um allt land, þannig að mönnum verði kynnt efni þess og fólk geti myndað sér skoðanir um hvað það er sem raunverulega er á ferðinni. Áreiðanlega verða skiptar skoðanir, en upplýsingar verða að vera fyrir hendi, nægar og greinargóðar, til þess að menn geti með skynsamlegum hætti myndað sér skoðun í málinu.