16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

332. mál, málefni Landakotsspítala

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þeirri stefnu hefur verið fylgt um nokkuð langan aldur í landi voru, að íslenskir þegnar geti leitað sér lækninga án tillits til efnahags eða fjárhagslegrar stöðu. Þessi mál höfum við leyst á grundvelli félagslegrar samhjálpar með sjúkratryggingakerfi. Sjúkratryggingarnar eru án efa einn stærsti þátturinn í því, að við Íslendingar getum hrósað okkur af því að búa í velferðarríki.

Á allra síðustu árum hefur hins vegar orðið uggvænleg þróun í sjúkratryggingamálum. Það virðist vera að þetta kerfi félagslegrar samhjálpar sé að brotna niður og það gangi öllu fljótar að brjóta það niður en gekk að byggja það upp á sínum tíma. Fyrir aðeins örfáum árum námu útgjöld sjúkratrygginga um 1/3 hluta af útgjöldum lífeyristrygginga. Nú eru útgjöld sjúkratrygginga orðin næstum því jafnhá og útgjöld lífeyristrygginga. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1979 er þannig gert ráð fyrir að útgjöld sjúkratrygginga nemi 21.4 milljörðum kr., en útgjöld lífeyristrygginga nemi 25 milljörðum kr. Á milli ára frá fjárlögum 1978 til fjárlagafrv. 1979 hafa útgjöld sjúkratrygginganna hækkað um 8.2 milljarða, en útgjöld lífeyristrygginga aðeins um 5.3 milljarða kr. Hækkun sjúkratrygginga á milli þessara ára hefur því orðið næstum því þremur milljörðum kr. meiri en hækkun lífeyristrygginganna. Þar til viðbótar lesum við nú þær fréttir, að sjúkrahúsin þurfi a.m.k. 1 milljarð kr. í viðbót til þess að standa undir hallalausum rekstri á þessu ári. Ef þeirri fjárhæð yrði bætt hér ofan á væri hækkun sjúkratrygginganna milli ára næstum því tvöföld á við hækkun lífeyristrygginganna á sama tíma.

Þessi þróun hlýtur að hleypa nokkrum skelk í brjóst félagshyggjumanna, því að ef svo heldur fram sem horfir, þá er aðeins tímaspursmál hvenær þetta kerfi félagslegrar samhjálpar verður brotið á bak aftur, hvenær fólk á Íslandi nýtur þess ekki lengur að geta leitað sér læknishjálpar og sjúkrahúsvistar án tillits til efnahags. Því er rétt að huga að því, áður en það er orðið of seint, hvort einhverjir þeir gallar eru á sjúkrahúsa- og heilsugæslukerfi okkar, sem gera það að verkum að kostnaðurinn eykst svo hröðum skrefum, — gallar sem e.t.v. væri hægt að sníða af. Ef um óeðlilega kostnaðarliði er að ræða í heilsugæslunni erum við þar með skipulag sem hægt væri að breyta.

Landakotsspítali gegnir nokkurri sérstöðu meðal sjúkrahúsa á Íslandi. Hér er um að ræða stofnun sem breytt hefur verið í sjálfseignarstofnun, þegar ríkissjóður keypti spítalann fyrir fáum árum af þeim aðilum, sem rekið höfðu sjúkrahúsið með miklum dugnaði og mikilli útsjónarsemi. Eftir að ríkisvaldið hafði keypt þessa sjúkrastofnun og greitt talsvert fé úr ríkissjóði í því skyni var sjúkrahúsið Landakot gert að sjálfseignarstofnun, því var skipað fulltrúaráð og fulltrúaráðið kaus síðan stjórn spítalans sem annast rekstur hans án fjárhagslegrar áhættu, þ.e.a.s. þeir aðilar, sem skipa fulltrúaráð, og stjórn Landakotsspítala bera ekki fjárhagslega áhættu af rekstri hans. Eru sennilega ekki margar stofnanir með þessari þjóð þar sem svonefndir eigendur eða fulltrúar eigenda — þeir aðilar sem um fjármálin eiga að fjalla bera ekki jafnframt fjárhagslega ábyrgð gagnvart a.m.k. einhverjum aðilum.

Þá er skipulag læknamála á Landakoti, þessari sjálfseignarstofnun, með talsvert öðrum hætti en á öðrum spítölum landsins, án þess að ég felli nokkurn dóm þar um.

Það er vissulega rétt að menn reyni að gera sér grein fyrir því, hvort þessi tilraun, sem gerð var, hafi borið tilætlaðan og æskilegan árangur og hvort það fyrirkomulag á þjónustu Landakotsspítala, að spítalinn leggur fram húsnæði, vinnukraft og tæki til lækna sem síðan framkvæma aðgerðir eða rannsóknir og fá greitt fyrir úr sjóði Tryggingastofnunar ríkisins, en greiða svo spítalanum þóknun fyrir aðstöðuna, hafi reynst æskilegt eða ekki. g hef því leyft mér, herra forseti, að flytja á þskj. 58 svohljóðandi spurningar til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„1. Hve háum fjárhæðum námu hæstu greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins til lækna við Landakotsspítala á s.l. ári? Hvaða læknar fengu þessar greiðslur og hve mikið guldu þeir hver og einn til Landakotsspítala þar af í leigu fyrir starfsaðstöðu, tækjabúnað, aðstoðarfólk o.þ.h.?

2. Hverjir skipa fulltrúaráð Landakotsspítala, hvernig voru þeir valdir, hvert er kjörtímabil þeirra, hvernig fer fram endurnýjun á umboði þeirra til setu í fulltrúaráðinu og hvert er verksvið fulltrúaráðsins?

3. Hverjir sitja í stjórn spítalans, hvernig eru þeir kjörnir, til hve langs tíma, hvert er verksvið stjórnarinnar og hvaða þóknun fær hún fyrir störf sín, ef nokkra?

4. Telur heilbrrh. að það fyrirkomulag, sem viðhaft er í rekstri Landakotsspítala — þ.e.a.s. að spítalinn veiti læknum starfsaðstöðu gegn umsömdu gjaldi, en læknarnir fái beinar greiðslur til sín fyrir unnin verk samkv. gjaldskrá — hafi gefið góða laun og þá einnig þegar tekið er tillit til kostnaðar við spítalarekstur og til kostnaðar við heilsugæslu og heilsuvernd?“