16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mun takmarka svar mitt við afskipti núv. ríkisstj. af atvinnumálum á Þórshöfn, en að sjálfsögðu væri hægt að líta lengra aftur í tímann og hafa söguna lengri. Svar mitt verður þá svo hljóðandi:

Á fundi ríkisstj. 14. sept. s.l. var lögð fram skýrsla um fund í sjútvrn. 13. 9. 1978 um rekstrarvandamál Hraðfrystihúss Þórshafnar hf., Útgerðarfélags Þórshafnar hf. og atvinnuvandamál á Þórshöfn. Ákvað ríkisstj. að fela Framkvæmdastofnun ríkisins málið til athugunar með tilmælum um að hún gerði með skjótum hætti tillögur um úrlausn þess. Jafnframt huguðu félmrh. og sjútvrh. einnig að málinu sérstaklega. Má nú skjóta því inn í, að Framkvæmdastofnuninni var þetta mál ekki með öllu ókunnugt frá fyrri tíð.

3. okt. var í ríkisstj. lögð fram grg. frá Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðadeild, um rekstrarvandamál Útgerðarfélags Þórshafnar. Var málið síðan tekið til athugunar hjá ríkisstj. og átti ég ásamt öðrum ráðh. m.a. viðræður við fulltrúa frá Þórshöfn. Ríkisstj. ákvað 17. okt. að beita sér fyrir því að allt að 10 millj. kr. yrðu útvegaðar að láni til að koma í veg fyrir stöðvun frystihússins á Þórshöfn. Veit ég ekki annað en frá því máli hafi verið gengið.

Á ríkisstjórnarfundi 24. okt. var lögð fram grg. frá byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins er hafði að geyma leiðir til lausnar vanda útgerðar á Þórshöfn. Þessa grg. hef ég hér með, en hún er of löng til þess að rekja hana. En í þessari grg. segir m.a.:

„Í meginatriðum hafa menn komið auga á tvær leiðir til að afla hráefnis fyrir hraðfrystihúsið á Þórshöfn, annars vegar að stefna áfram, eins og tvö s.l. ár, að því, að togaraútgerð verði meginuppistaða hráefnisöflunarinnar, hins vegar kemur til álita að hverfa aftur að bátaútgerð eingöngu. Einnig hefur verið bent á þann möguleika að reyna að tryggja hráefnisöflun að hluta á móti bátunum með því að kaupa togarafisk annars staðar frá. Er það m.a. aðallega hugsað til að fylla upp í árstíðabundnar eyður er kunna að myndast í bátaaflanum, t.d. um háveturinn.“

Ég get þess um leið, að í þessari grg. Framkvæmdastofnunarinnar voru tölur um bátaafla á tilteknu árabili og hvað mundi þurfa til þess að brúa það bil, hvernig bátaafli hafði breyst frá því að vera um skeið allgóður, en dróst svo saman, en virðist nú allra síðast vera að glæðast. Út í það fer ég ekki nánar.

Að loknum þessum atmenna inngangi gerir Framkvæmdastofnun ríkisins grein fyrir þeim möguleikum, sem hún telur vera fyrir hendi. Þann 31. okt. var á fundi ríkisstj. samþykkt sú hugmynd byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, að skuttogarinn Fontur yrði seldur frá Þórshöfn og væri ekki annar kostur en að útgerðarfyrirtækið þar yrði lýst gjaldþrota, en Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu síldarverksmiðjuna á staðnum. Þá yrði lögð höfuðáhersla á bátaútgerð frá Þórshöfn, en leitað eftir samningum við aðra aðila um löndun á fiski a.m.k. í des., jan., febr. og mars. Var ákveðið að ræða við eiganda skuttogarans Dagnýjar á Siglufirði um það, hvort hann vildi láta skip sitt landa afla á Þórshöfn, enda fengi það þorskveiðileyfi áfram, en það var útrunnið þar sem eigandi hafði þá fengið nýtt skip.

8. nóv. s.l. var undirritaður samningur milli sjútvrn. og Togskips h.f. á Siglufirði, sem er eigandi skuttogarans Dagnýjar. Samkv, honum er Dagný heimilað að stunda þorskveiðar, enda hefji togarinn landanir hjá Hraðfrystistöð Þórshafnar svo fljótt sem auðið er eftir að ráðin hefur verið skipshöfn, og haldi þeim áfram út marsmánuð n. k. Jafnframt skuldbindur Togskip hf. sig til að landa afla hjá Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. frá því um miðjan nóv. 1979 til marsloka 1980. Loks er í þessum samningi lýst velvilja gagnvart því, að Dagný landi þriðja tímabilið á Þórshöfn, þ.e. í lok 1980 og fyrstu mánuði ársins 1981.

Þannig hefur ríkisstj. staðið að þessu máli og hefur viðleitni hennar í stuttu máli miðast við að koma í veg fyrir stöðvun atvinnulífs á Þórshöfn. Það má segja að af hennar hálfu hafi verið mótuð ákveðin stefna í málinu, en að sjálfsögðu er svo framkvæmd þeirrar stefnu, hefur verið og verður í höndum félmrh. og sjútvrh. fyrst og fremst, þannig að þeir hafa farið mest með þessi málefni og koma til með að gera það að sjálfsögðu í samráði við fjmrh. ef um fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs er að ræða. Ég sé nú því miður, að hvorugur þessara ráðh., sem ég nefni er viðstaddur, ef þeir hefðu viljað gefa hér fyllri upplýsingar.

Þetta var sem sagt eins konar annáll um afskipti ríkisstj. af þessu máli eins og liggur nú fyrir í skjölum málsins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða mál þessi almennt hér. Það er að vísu rétt, að þau hafa komist á dagskrá nú nýlega með sérstökum hætti. Ég hygg að þar hafi nú verið farið með tölur sem eru nokkuð villandi. T.d. veit ég ekki betur en það sé svo, að eftir þessum skýrslum, sem fyrir liggja, sé togarinn Fontur bókfærður í reikningum Útgerðarfélagsins á Þórshöfn á 444 millj. kr. Bjartsýnustu menn nefndu fyrst, að hugsanlegt söluverð á honum gæti verið um 360 millj., og skal ég ekki dæma um, hvort slíkt verð gæti fengist eða hvernig það tekst. Hvað sem um það er, þá er um mjög miklar skuldir að ræða á Útgerðarfélaginu og fram úr þeim vanda virðist ekki verða ráðið. En aðalatriðið er að koma í veg fyrir stöðvun hraðfrystihússins, og það væri hægt að styrkja hag þess og þá útgerðarinnar með þeim hætti, að hægt væri að koma við sölu á verksmiðjunni sem er á staðnum. Þá hafa Síldarverksmiðjur ríkisins verið hafðar þar í huga og hefur verið unnið að því af hálfu þeirra ráðh. sérstaklega, sem ég nefndi, að athuga þann möguleika.

Ég skal, herra forseti, ekki orðlengja frekar um þetta.