16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Árna Gunnarssyni fyrir að bera fram þessa fsp. varðandi atvinnumálin á Þórshöfn og óska honum til hamingju með það, með hvaða hætti fremur lítill sérfræðingur um málefni þeirra Þórshafnarbúa gerði tilefnið enn þá brýnna í fjölmiðlum ríkisins í gær.

Það er óþarft að rekja það hér, með hvaða hætti Þórshafnarbúum varð það lífsnauðsyn við fiskþrot á Þistilfirði að fá togskip til þess að afla hráefnis í nýtt og mjög myndarlegt frystihús sem þeir höfðu reist. Þessa þörf bar upp á þeim tíma þegar stjórnarvöld höfðu skotið loku fyrir smíði á nýjum togskipum eða kaupum á þeim. Ekki hirði ég heldur um að rekja með hvaða hætti Þórshafnarbúar voru til knúnir að kaupa fyrir 300 millj. kr. skip af „fallítt“ LÍÚ-mönnum hér við Faxaflóa, nýkomið úr átta ára klössun sem reyndist hafa verið fölsuð, með hvaða hætti þetta skip reyndist þeim Þórshafnarbúum eftir efnum ákaflega illa þannig að þeir standa nú uppi með áhvílandi skuldir eftir þennan tíma sem nema röskum 400 millj. kr. á skipinu, auk þess sem óhæfileg skuldabyrði hefur hlaðist á fiskiðjuver þeirra vegna þess að útgerð þessa skips fór svo hörmulega.

Ég lagði fram síðari hluta vetrar í fyrra lagafrv, að beiðni þeirra Þórshafnarbúa, sem höfðu gengið bónleiðir til búðar biðjandi þess að af þeim yrði létt eign á síldarmjölsverksmiðju á staðnum, sem þeir höfðu keypt af Ríkisábyrgðasjóði eftir að sjóðurinn hafði tekið við þessari verksmiðju á sínum tíma af „fallítt“ LÍÚ-mönnum, og hef borið þetta frv. fram öðru sinni.

Ég vil ekki fetta fingur út í það, þótt Kristján Ragnarsson, forustumaður þeirra LIÚ-manna, flytti fundi félagsskapar síns persónulegar skoðanir á málefnum þeirra Þórshafnarbúa. Hann má flytja þeim mönnum persónulegar skoðanir sínar á málefnum hvaða staðar sem er á jarðkringlunni. Ég vil aftur á móti vita það, að fréttastofur Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, skyldu gera þess háttar mann að aðalheimildarmanni sínum í fræðslu um málefni þeirra Þórshafnarbúa, og vil vænta þess, að forstöðumenn fréttastofa Ríkisútvarpsins sjái sóma sinn í því að afla örlítið réttari upplýsinga um nauðþurftarmál þeirra á Þórshöfn heldur en fram komu í fréttatíma þessara stofnana í gærkvöld.