16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því, að þakka hæstv. forsrh. hans ágætu svör. Sú fsp., sem hér er til umr., er fyrir alllöngu komin fram hér á þingi og kom fram þegar viðkomandi mál, sem hér er til umr., virtist komið í strand. Ég vildi kannske vekja sérstaka athygli á þessu máli vegna þess að bernska mín í þingsölum leyfir mér nokkra óþolinmæði, og þar sem ég hafði fylgst með þessu máli allt frá því að ég kom hingað inn á þing, þá þótti mér það ganga nokkuð hægt í meðferð yfirvalda og þess vegna vildi ég að það kæmi fram sem ég hef hér spurt um.

Ég vil líka láta það koma skýrt fram í þessari umr., að ég tel að stjórnvöld hafi meiri skyldum að gegna gagnvart þessum tiltekna stað en flestum öðrum. Ástæðurnar fyrir því hafa að nokkru komið fram í þessum umr. hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni og er fyllsta ástæða til að leggja þunga áherslu á þær.

Ég vil einnig, eins og hv. þm. Eiður Guðnason og sem gamall fréttamaður, leggja á það áherslu, að það er ekki ástæða til þess að gagnrýna fjölmiðla fyrir það að láta menn standa ábyrga fyrir ummælum sínum í ríkisfjölmiðlum.