16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil að fram komi í þskj. þær upplýsingar sem ég hef hér í höndum um fyrirgreiðslu Byggðasjóðs við togskipið Font.

Því var haldið fram, að Framkvæmdastofnun hefði stjórnað fjárrennslinu til þessa skips, og fullyrt, að skuldir á skipinu væru yfir 900 millj. kr. Vegna þessa skips hafa eftirtaldar lánafyrirgreiðslur átt sér stað úr Byggðasjóði: Til upphaflegra kaupa Suðurnesjamanna í vesturþýskum mörkum 96 þús. mörk. Til Þórshafnar, kaupalán 1976 24 millj. og viðgerðarlán 1978 57.2 millj., samtals 81.2 millj. úr Byggðasjóði.

Ég vil svo eftirláta formanni LÍÚ, sem gerþekkir þetta eftir því sem manni virðist, að upplýsa hvaðan afgangurinn, milli 8 og 9 hundruð millj. kr., er kominn. Hann verður að upplýsa þing sitt um það, því að hann hefur veitt þar rangar upplýsingar um þetta mál, eins og ég áðan nefndi.

Varðandi hraðfrystihúsið á Þórshöfn hefur Byggðasjóður veitt til fyrirgreiðslu 68 millj. kr. af 204 millj., þ, e. milli 30 og 40%. Enda þótt Byggðasjóður hafi yfirleitt haft að hámarki 25% viðbótarfyrirgreiðslu, þá var í þessu dæmi, vegna fátæktar staðarins og eins til þess að koma því í gagnið á góðum tíma, að Byggðasjóður hljóp sérstaklega undir bagga.

Þetta geta menn nú lagt saman, þessar tölur, og séð með hvaða hætti formaður LÍÚ hagaði máli sínu í gær, sem ég verð að segja að er bæði hörmulegt og með ólíkindum.

Sameinað þing, 23. fundur. Fimmtudaginn 16. nóv., að loknum 22. fundi. Niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna, þáltill. (þskj. 31). —Frh. einnar umr.