18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég er ekki á sama máli og hv. þm. Einar Ágústsson, að við höfum ekki góðan tíma til þess að ræða svo alvarlegt mál sem þetta og einnig í léttum dúr ef svo ber undir. Ég var kominn með í prentun fsp. um riðuveikina þegar ég sá að útbýtt var hér fsp. um það efni, svo að ég hætti við, en kannske tökum við upp hinn siðinn, að láta prenta í belg og byðu hver upp eftir öðrum eins og hér eru dæmi um.

Það var athyglisvert, að hv. 1. þm. Austurl. varð mikið um þegar ungi maðurinn, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, upplýsti að auðvitað hefði Alþb. enga forustu haft um þetta mál og ekki fyrr en maður úr framliðnum flokki kom og dró þá að landi með því að endurprenta frv. unga mannsins, hv. þm. Ólafur Ragnar. Að hinu leytinu þarf hv. 1. þm. Austurl. ekki að taka þetta illa upp fyrir ungum manni sem sýnist vera að uppgötva nýtt, því að hann er hvort sem er sjálfur nýkominn í heiminn og það er ekkert undarlegt þó að honum bregði við og til nýjunganna. Ég vil aðeins segja það, að hann á eftir að öðlast þroska og aldur, hv. 1. flm. þessa frv., ef vinnubrögð stjórnarskrárnefndar verða með svipuðum hætti og verið hefur að undanförnu, áður en þetta verður að veruleika sem hann leggur til í frv. Og mér er það satt að segja alveg hulin ráðgáta að menn skuli kinnroðalaust geta talað um stjórnarskrárnefndina fyrrverandi hér á hinu háa Alþingi, eins og vinnubrögð hennar hafa verið.

Ég minnist þess, að hér var því lýst yfir að formaður n., fyrrv. alþm. Hannibal Valdimarsson, hefði lýst því yfir að hann mundi kalla hana saman — þetta var í fyrrahaust — áður en þingi lyki, en hann gat þess ekki hvaða þingi. Þetta þótti ekki mikið sagt, enda kom þetta allt á daginn, að hann hafði ekkert fullyrt meira en hann gat staðið við.

Ég lýsi yfir fylgi við þetta frv., þótt ég hafi fyrirvara um það að almanaksárið skuli ráða, en ekki afmælisdagur. Ég veit að margur hefur veitt því athygli, að ýmsir fyrirmenn hafa sett á langar tölur og ábúðarmiklar um nauðsyn þess að endurskoða stjórnarskrána. Að vísu höfum við þurft að endurskoða hana varðandi kosningalögin æ ofan í æ, og mönnum sýnist — og ég er einnig þeirrar skoðunar — að dragi til þess nú. En ég er nefnilega á hinn bóginn þeirrar skoðunar, að við búum við góða stjórnarskrá svona yfirleitt og hún hafi verið heldur vel úr garði gerð og sé mesti misskilningur, sem ýmsir stjórnmálamenn eru að reyna að telja þjóðinni trú um, að við búum við gerómögulega stjórnarskrá enda þótt við höfum rekið okkur á að í ýmsum atriðum varðandi kosningalög þurfi hún og hafi þurft örari breytinga við en e.t.v. hefði mátt ætla, vegna örra breytinga á þjóðfélagsháttum okkar og búsetu í landinu.

Ég legg áherslu á það, að það er mín skoðun eftir að hafa kynnt mér málið, að við búum við allgóða stjórnarskrá og allar breiðar tölur um það, að lífsspursmál sé að endurskoða hana út í hörgul, það sé ekki mikið upp úr þeim leggjandi. Menn eru frekar að slá um sig með stórum orðum um nauðsyn þessa, vegna þess að þetta er mikilvægt mál, heldur en þar liggi brýnt verkefni fyrir höndum. En úr því sem ákveðið var að endurskoða hana rækilega í heild, þá er auðvitað með öllu ólíðanlegt hvernig tekist hefur til með það starf. Og að því leyti verður hið háa Alþingi að taka sig verulega á.