18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson): Herra forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem þetta frv. hefur almennt fengið hjá hv. þm. Sérstaklega gleðst ég yfir yfirlýsingum frá hv. þm. Einari Ágústsyni um það, að nú sé kominn tími til þess, eftir að hann hefur setið á Alþ. á annan áratug, að fara að ræða stjórnarskrármál og taka þau til gagngerðrar endurskoðunar. Ég get trúað því, að Reykvíkingar fagni þessari yfirlýsingu, því að misréttið í kosningamálunum varðandi kosningarréttinn hefur farið sívaxandi, þannig að það er nú á bilinu 1:5 ef tekin eru kjördæmin Vestfirðir gagnvart Reykjavík og Reykjanesi.

Ég vil enn ítreka það og láta vonir mínar í ljós um það, að stjórnarskrárnefndin, sem nú tekur til starfa, verði virkari en fyrri nefndir sem hafa fjallað um þessi mál. Eigi að síður tel ég ástæðu til þess, að hv. þm. gleymi því ekki, að það er mál þingsins að fjalla um stjórnarskrármál og þar geta engir þm. falið sig á bak við stjórnarskrárnefnd eða aðra nefndarskipan af einu eða öðru tagi.

Þrátt fyrir það að stjórnarskrárnefnd sitji að störfum mun ég eftir bestu getu reyna að nýta þann tíma og þá aðstöðu sem ég hef til þess að vinna að því, að kosningarréttur í landinu verði jafn þannig að Reykjavík og Reykjanes þurfi ekki að bera þar skertan hlut frá borði. Þetta er mannréttindamál og það er skylda Alþingis að taka á því föstum tökum svo fljótt sem auðið verður.