16.11.1978
Sameinað þing: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

35. mál, bundið slitlag á vegum

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það kom fram í máli flm., hv. 2. þm. Austurl., að hann velti þeirri spurningu fyrir sér, hvort tillögugerð sem þessi væri tímabær eða ekki vegna þeirra fjárhagsaðstæðna sem ríkja í þjóðfélagi okkar. Það er eðlilegt og sjálfsagt að slík spurning sé lögð fram og leitað svara við henni, en ég fyrir mitt leyti hlýt að svara því hiklaust játandi, að það er fullkomlega tímabært að taka til höndum svo um munar í byggingu vega með bundnu slitlagi.

Ég skal taka það fram, að ég er niðurskurðarmaður, eins og spennan er og verðbólgan í þjóðfélagi okkar. Ég er niðurskurðarmaður og aðhaldsmaður að undanteknum tveimur málaflokkum, og það eru orkumál og samgöngumál. Ég tel að auðvelt sé að sýna fram á að skynsamlegar framkvæmdir í þeim málum muni skila sér aftur í þjóðarbúið margfalt óðar en líður. Að þessu er áreiðanlega hægt að færa gild rök. Raunar hef ég og mínir flokksmenn — að undanförnu unnið að gagnasöfnun sem mun færa sönnur á þetta mál.

Á undanförnum missirum hefur Sjálfstfl. unnið að áætlanagerð um byggingu vega með bundnu slitlagi til allra þéttbýlisstaða í landinu og hann kunngjörði á s.l. vori þessa stefnumörkun sína í allítarlegu formi. Nú frá því að þing hófst hefur verið að því unnið að fella stefnuna saman og móta hana ítarlega. Ég geri ráð fyrir því, að innan tíðar muni hún verða lögð hér fram í ályktunarformi með svipuðum hætti og vegáætlanir eru gerðar, með áskorun um að hún verði felld að hinni almennu vegáætlun sem verður lögð fyrir Alþ. sem nú situr, þar sem hin gamla er úr sögunni eða hennar tímabil liðið. Þess vegna er það, að þessi þáltill. er góðra gjalda verð að því leyti, að þar kemur í ljós að Framsfl. — ég leyfi mér að líta svo á þar sem þetta er borið fram af fimm hv. þm. hans — hefur fallist í meginatriðum á þessa stefnumörkun Sjálfstfl. Fagna ég því að sjálfsögðu og ætti þá framgangur málsins að vera tryggur, því að ég býst ekki við að okkur þurfi að skilja í milli í svo veigamiklum atriðum að ekki náist samkomulag um framkvæmdahraða og annað sem að þessu lýtur, ef við erum sammála um heildarstefnumörkunina.

Ég geri hins vegar ráð fyrir því og vænti þess, að þann veg verði málið unnið af okkur sjálfstæðismönnum að þessi till. sé í sjálfu sér óþörf. Hér er gerð till. eða áskorun, sem með leyfi hæstv. forseta hljóðar svo í upphafinu: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að gera áætlun um að leggja bundið slitlag á hringveginn umhverfis landið til Vestfjarða og um Snæfellsnes og um fjáröflun til þeirra framkvæmda.“ — Ég á von á því, að mjög innan tíðar, innan viku eða svo, muni okkur í Sjálfstfl. hafa tekist að leggja fram till. þar sem þessi vinna hefur verið framkvæmd sem hér er ákveðið að fela ríkisstj. að vinna. Ég er þess fullviss að hv. 1. flm., hv. 2. þm. Austurl., muni varpa öndinni léttar þegar hann sér hvílíkur tímasparnaður verði í því fólginn. Þess vegna er það, að ég fagna þessari till., því að hún flytur okkur það eitt, sem er auðvitað mikilsverðast, að Framsfl. vill fallast á þessa stefnumótun Sjálfstfl. Samtals hafa þeir flokkar 32 þm. og þetta kemur til afgreiðslu í Sþ., þannig að málið er tryggt. Ég geri ráð fyrir því, eins og fjölmenni hefur mjög farið minnkandi í þeim flokki, að við þurfum ekki að óttast að menn hlaupi þar út undan sér, þeir fáu sem eftir eru. Það er þá von í krata og krata sem fylgismanni við þetta mikla nauðsynjamál, og maður skyldi halda að einhverjir úr flokki hæstv. samgrh. mundu ljá þessu fylgi sitt, svo að ég kvíði engu um framhaldið.

En ég vil aðeins víkja að því í örfáum orðum, hvers eðlis áætlanagerð okkar er. Hér er að vísu undirboð um að þetta skuli framkvæmt á 10 árum. Ég fagna því innilega, ef rannsóknir og athuganir í málinu skyldu horfa til þess að við gætum náð að vinna verkið á 10 árum. Raunar mun till. okkar fela í sér áskorun um að það verði athugað sérstaklega, hvort ekki megi stytta það framkvæmdatímabil, sem við leggjum til að verði 15 ár, þrjú fimm ára framkvæmdatímabil, eins og er í okkar tillögu.

Í allra stærstu dráttum er áætlun okkar sú, að á fyrstu fimm árunum verði vegur lagður úr Kollafirði til Akureyrar og Húsavíkur og til Dalvíkur og frá Þjórsá að Vík í Mýrdal, — þetta eru stærstu áfangarnir, — síðan eru smærri vegalagningar eins og milli Hellissands og Ólafsvíkur, milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og Súðavíkur og enn fremur milli Egilsstaða, Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Enn mætti nefna önnur smærri verkefni. Auðvitað er nauðsynlegt að ekki gleymist, að á fyrsta framkvæmdatímabili yrði Akranes tengt við aðalhringveginn.

Á öðru fimm ára tímabilinu er gert ráð fyrir tengingu þéttbýliskjarna Snæfellsness og þéttbýliskjarna innan Vestfjarða, vegi frá Blönduósi til Skagastrandar, frá Sauðárkróki til Siglufjarðar. Fyrir austan yrði tengingin frá Fáskrúðsfirði suður á Höfn í Hornafirði og Biskupstungnavegur, Skeiðavegur og aðrar framkvæmdir sem of langt mál yrði upp að telja.

Á síðasta framkvæmdatímabili yrði hringveginum lokið frá Vík í Mýrdal að Höfn í Hornafirði og yfir fjöllin nyrðra. Ég skýt því líka inn í, af því að hratt er yfir sögu farið, að á öðru framkvæmdatímabili er gert ráð fyrir vegi úr Aðaldal í Reynihlíð. (VH: Þetta passar eiginlega allt saman.) Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson les upp, að þetta passi allt saman. Þetta passar við þá stefnumörkun, sem sjálfstæðismenn birtu í Morgunblaðinu og hann hefur greinilega lesið vandlega og „nóterað“ hjá sér, svo að allt fellur þetta eins og flís við rass. Við getum svo sannarlega fagnað yfir því, að við höfum þá ærlega náð höndum saman í einhverju mesta hagsmunamáli þjóðarinnar sem nú bíður okkar að vinna sem kappsamlegast að.

Ég vil, áður en ég vík að fjármögnuninni, víkja að ýmsum verkefnum sem við álitum að beri brýna nauðsyn til að ljúka, vil þar fyrsta og frægasta telja Borgarfjarðarbrú, svo að við ungir sjálfstæðismenn fáum nú eitthvert bákn frá hið fyrsta, veg yfir Botnsvog, Leirurnar í Eyjafirði, göng í gegnum efsta hluta Breiðadalsheiðar yfir í Önundarfjörð frá Ísafirði, og enn fleiri verkefni mætti telja. Til þess arna munum við leggja til að tekið verði fé að láni erlendis, svo að hraða megi þessum framkvæmdum.

Um fjármögnun er það að segja, að við munum leggja fram ákveðnar till. í því efni, sem fram komu í yfirlýsingu okkar frá því á s.l. vori.

Það er í fyrsta lagi, sem Alþ. hefur tekið formlega afstöðu til, sala happdrættisskuldabréfa. Það hafa verið sett lög um það efni hér á Alþ., og raunar er nú flutt nýtt frv. um það efni af hv. þm. Eyjólfi Konráð. Með því móti er gert ráð fyrir að aflað verði 2 milljarða til þessa verkefnis.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að Byggðasjóður leggi fram af ráðstöfunarfé sínu 1 milljarð. Ekki þurfa menn héðan af að fíkjast í það, eftir að hæstv. núv. ríkisstj. hefur gripið til þess bragðs í áformum sínum að skerða ráðstöfunarfé Byggðasjóðs á næsta ári um 1130 millj. kr. Ég er því sannfærður um að ekki mun það verða okkur að fótakefli í sameiginlegu átaki sem við ætlum að standa að um fjárveitinguna úr Byggðasjóði.

Og svo er í þriðja lagi að 2 millj. renni til þessara vegaframkvæmda af umframtekjum vegaumferðarinnar. Má ætla, að þær verði á þessu ári 2.2 milljarðar. Samkv. löngum útreikningum frá umliðnum árum benda áætlanir til, að umframtekjurnar muni aukast um 10% á ári. Þess vegna er það, að á 5 ára tímabili er svo ráð fyrir gert að þessi fjármögnun skili verulegu umfram 2 milljarða á ári. Þegar ég tala um þessar fjárhæðir er átt við að upphæðirnar haldi raungildi sínu. En þetta, sem ég hef nú upptalið, er aðeins miðað við verðgildi eins og það er í dag.

Aftur á móti viljum við viðhalda gamla Vegasjóðnum eins og hann er. Við viljum beita honum aðallega til þess að byggja vegi upp úr snjó innan héraðanna. Þó verður enn fremur í þessari ályktunartillögu okkar sérkafli um byggingu vega upp úr snjó, það eru tengivegir heilla landshluta e.t.v., eins og Þorskafjarðarheiðarvegur, eða á milli ýmissa þéttbýlisstaða, eins og á Sléttu norður, svo að ég nefni stærri verkefni sem þarf að hraða. En á hinn bóginn yrði gamla Vegasjóðnum beitt til þess að byggja vegi innan sveitanna upp úr snjó.

Þannig eru í stærstu dráttum hugmyndir okkar, sem munu sjá dagsins ljós hér innan tíðar.

Hv. 2. þm. Austurl. rakti í stuttu máli hvað till. hans og þeirra félaga fæli í sér, hvað kosta mundi arðgjöfin af þessu, hvernig að því yrði staðið, fjármögnun o.s.frv. En eins og hann heyrir, mun hann fá þetta allt upp í hendurnar áður en líður, þannig að þeirri vinnu, sem hér þyrfti að grúfa sig yfir í hæstv. ríkisstj. og henni falið að vinna, er allri saman lokið og svör munu gefast við því, sem hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson taldi hér upp að nauðsyn væri að rannsaka áður en hafist væri handa.

Hv. flm. taldi að flutningur þessarar till. væri í beinu framhaldi af umsvifum, skildist mér, fyrrv. samgrh., Halldórs E. Sigurðssonar. Það kann að vera að einhverju leyti, en hún er nú aðallega í framhaldi af stefnumörkun okkar sjálfstæðismanna frá því í vor. Og það verður ekki sagt, eins og hann gat um, að oft sé það svo, að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. þessu máli er það ekki, því að við hægri höndin vitum vel hvað sú vinstri er að sýsla með, og þeir til vinstri hafa aflað sér upplýsinga um hvað við erum að bardúsa hægra megin. Það sýnir sig, að þetta fellur eins og flís að rassi.

Það væri ástæða til þess í svo áhugaverðu máli sem þessu að setja á lengri tölur. Ég vil aðeins minna á eitt gamalt áhugamál mitt, sem ég hef flutt a.m.k. tvisvar sinnum hér á Alþ., og það er þáltill. þar sem skorað var á ríkisstj. að athuga það sérstaklega, hvort ekki væri fært að nýta rafmagn okkar til að knýja bifreiðar landsins Japanir hafa náð langt í þessu og Svisslendingar — og hversu hröð framþróun á sér stað í þessum efnum. Mig dreymir auðvitað um — og ég tel það engan dagdraum — að þegar við erum búnir að binda vegi okkar með slitlagi, þá leggjum við auðvitað rafmagn meðfram þeim öllum og drögum allan þungavöruflutning okkar, alla þungavöru eftir vegunum með rafmagni. Þetta eru engir draumórar, eins og ég segi, en það vill verða svo hér á hinu háa Alþ.,till. eins og ég hef t.a.m. gert um fiskrækt æ ofan í æ og í þessu máli og öðrum slíkum málum eru menn drumbs um. Þeir mega helst ekki vera að því, eins og ég sagði fyrr í dag, að líta upp úr efnahagsgrautnum sem allir eru skyldugir til þess að grúfa sig yfir ef þeir vilja ekki teljast óábyrgir menn. Og þeir hirða eyrinn og kasta krónunni ef menn álíta að lagning bundins slitlags á vegakerfið í landinu sé ekki eitthvert það arðbærasta sem við getum ráðist í og einn af þáttunum til þess að leysa efnahagsvandamál okkar, einnig í gjaldeyrismálum, því að ekkert getur sparað okkur gjaldeyri til jafns við það, það sýna útreikningar, bæði í orkunotkun og í sliti á bifreiðum. Ef menn ætla að þetta sé ekki einn veigamikill þáttur í að finna lausn á efnahagsvanda okkar, þá er það misskilningur þeirra, þá er það af því að þeir hafa ekki gefið sér tíma til þess að huga að þessum málum fyrir endalausu yfirboðstali og yfirþyrmandi um verðbólgu og vexti og hvað það nú allt heitir og ég á vissulega að kunna, ef ég get talist ábyrgur maður.