16.11.1978
Sameinað þing: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

35. mál, bundið slitlag á vegum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um 10 ára áætlun um bundið slitlag á vegum, flutt af hv. 2. þm. Austurl. o.fl. Till. felur það í sér, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að gera áætlun um að leggja bundið slitlag á vegi landsins.

Tillögumaður, hv. 1. flm., er hressilegur í tillöguflutningi og grg. að vanda. Manni dettur bara helst í hug hressilegur skáldskapur, svo sem hinn alkunna vísa: „Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur, víða trúi ég hann svamli“ o.s.frv., því að hann fer út af hringveginum og nefnir þó Snæfellsnes og Vestfirði. Er það út af fyrir sig góðra gjalda vert og mjög ánægjulegt. Þá er rætt hér um fjáröflun, svo sem vera ber í þessu sambandi. Ég verð nú að segja það, að mér finnst ekki til mikils mælst þó að komi ögn af bundnu slitlagi á vegi Snæfellsness, þegar rætt er um að leggja bundið slitlag á Mývatns- og Möðrudalsöræfi t.d. Þetta verk á að vinna á 10 árum. Þó er sá galli á gjöf Njarðar að þetta er aðeins till. um áætlun sem á að leggja fyrir Alþ. eftir eitt ár.

Það er um þessa till. að segja, að hún er fyrst og fremst að mínum dómi viljayfirlýsing þessara ágætu manna. Það hafa komið fram ótal viljayfirlýsingar um þessi efni að undanförnu, sem hnigið hafa í svipaða eða sömu átt, svo sem till. frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda. Það hefur verið gerð grein fyrir tillögum sjálfstæðismanna, hugmyndum og fyrirætlunum í þessum efnum, þannig að ég hygg að ekki sé um mikinn ágreining að ræða í þessum málum meðal þm. Það er gleðilegt að við getum flestir sagt sem svo í þessum málum: Við viljum gera sem mest, við viljum stefna nokkurn veginn að sama marki. Þá ætti okkur ekki að vera skotaskuld úr því að koma einhverju fram.

Á undanförnum árum og mánuðum hefur verið rætt mikið um þessi mál. Það hafa verið uppi tvær skoðanir, sem margt hefur verið sagt um: annars vegar að byggja vegi upp úr snjó út um byggðir landsins og hins vegar að leggja bundið slitlag á fjölfarna vegi. Báðar eiga þessar hugmyndir og tillögugerðir fullan rétt á sér. Vitanlega viljum við svo endurbyggja gamlar brýr og gera nýjar brýr þar sem þær hafa ekki áður verið byggðar.

Það er vikið að því í grg., að hér á landi hafi geisað mikil verðbólga að undanförnu og sé því þörf aðhaldssamrar stefnu í efnahagsmálum. Vitanlega er þetta hverju orði sannara. En ég er á sama máli og hv. 1. flm., að þó að verðbólguvandinn sé ærinn, það sé mikið mál að leysa, þá megum við ekki alveg stinga höfðinu í sandinn og hætta að horfa til framtíðarinnar og hætta að huga að miklum málum, sem við þurfum að takast á við á næstu árum. Þess vegna er ég honum fyllilega sammála um það, að í þessum greinum þurfum við að undirbúa og undirbyggja ákveðnar till. til framkvæmda, og þar er ég á því máli, að bætt þjónusta í samgöngumálum úti um byggðir landsins sé mál númer eitt næst á eftir lausn hinnar miklu glímu við verðbólguvandann.

Það er rétt hjá hv. 1. flm., að á undanförnum árum hefur verið réttur nokkuð hlutur sýsluvega og þéttbýlisvega, en þó er þar æðimargur vandi óleystur. Það er gleðilegt mjög að heyra, að margar hendur eru á lofti og mikill vilji og áhugi þm. í þessum málum. Sá áhugi ætti að nægja til þess að geta þrýst á stóraðgerðir í þessum málum í þá átt sem allir vilja stefna að og horfir að því verkefni, eins og segir í niðurlagi grg., að flýta lagningu bundins slitlags á aðalvegi og auka svigrúm til annarra framkvæmda í vegamálum.