20.11.1978
Efri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

63. mál, tollskrá

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka flm. þessa frv. fyrir að hafa lagt það fram og hv. þm. Alexander Stefánssyni sérstaklega fyrir góða framsöguræðu hans með frv, og þá hugvekju sem hann flutti okkur hér varðandi þörfina á aðstoð við fatlað fólk og þó fyrst og fremst um skilning á vandamálum þess. Ég tel að meginefni frv., sem lýtur að fjölgun bifreiða innfluttra árlega fyrir bæklað fólk og aukna eftirgjöf á aðflutningsgjöldum til þess að gera þessar bifreiðar ódýrari, muni vera ákaflega nærri því lagi sem unnt ætti að vera að gera í þessum málum nú, enda þótt ég sé þeirrar skoðunar að við þurfum að gera mun betur til að sjá fyrir þörfum sumra hinna föttuðu fyrir bifreiðar, til þess að gera þeim kleift að eignast bíla við sitt hæfi og reka þá.

Ég get einnig tekið undir það sem hv. þm. Helgi Seljan sagði um þann lið þessa frv. sem við höfum fjallað um fyrr í þessari d., er við höfum þrisvar flutt frv. sem lýtur að því að felld verði niður aðflutningsgjöld af talstöðvum í bifreiðar fyrir fatlað fólk og að efni til smíði slíkra talstöðva. Í því máli rákum við okkur á hið íslenska skrifstofuveldi, þar sem Póstur og sími annars vegar og Tryggingastofnun ríkisins hins vegar fóru að kasta þessu máli á milli sín. En við umr. og könnun á þessu máli komumst við flm. að þeirri niðurstöðu, að e.t.v. væri hægt að leysa þann vanda, sem lýtur að því að útvega talstöðvar í bifreiðar fatlaðra, á enn annan og auðveldari hátt en við höfum gert ráð fyrir meðan við treystum eingöngu á upplýsingar þess aðila sem fjallar um fjarskipti á Íslandi, þ.e.a.s. Pósts og síma, og mun ég víkja aðeins nánar að því í lok ræðu minnar.

Ég held að ákvæðið í síðustu mgr. 1. gr. frv. um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum og söluskatti af innfluttum gervilimum kunni að reynast óþarft, því að eftir því sem ég best veit sér Tryggingastofnun ríkisins og sjá almannatryggingar fötluðu fólki fyrir því fé sem til þess þarf að kaupa nauðsynlega gervilimi, hvort sem þeir eru framleiddir innanlands eða utan, og þó að vísu ekki eftirtölulaust, sem ég mun enn fremur víkja að síðar í máli mínu.

Það er rétt, sem að hefur verið vikið, alveg efalaust, að á liðnum árum hefur borið allmjög á því að misnotuð væri heimildin til þess að fella niður aðflutningsgjöld og tolla af bifreiðum fyrir fatlað fólk. Á tímabili, þegar verst gekk að selja Austur-Evrópubílana hér á landi, var þannig staðið að eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum handa fötluðu fólki að þeir, sem lítils háttar voru fatlaðir, fengu að kaupa sér austur-evrópskan bíl, en þeir, sem meira voru taldir fatlaðir, þ.e.a.s. 75% öryrkjar eða meira, fengu að velja sér bíl til innflutnings að ósk sinni. Þetta fór þannig að innflutningsleyfum á Austur-Evrópubílunum var úthlutað mjög frjálsmannlega til svonefndra fötlunarsjúkdóma, þannig að fólk með minni háttar heilsugalla, sem kom í ljós við útivist í kulda eða vosbúð, fékk eftirgefin aðflutningsgjöld af slíkum bifreiðum. T.d. ef roði sótti í prúða fótleggi á þeim árum þegar síðbuxur voru ekki komnar í tísku hjá konum okkar, þá voru gefin eftir innflutningsgjöld af bifreiðum til slíkra kvenna. Og furðulega margt var til tínt á þeim árum sem nægði til þess að menn fengju eftirgjöf á innflutningsgjöldum af slíkum bifreiðum. Samtímis þessu var haldið í algeru lágmarki innflutningi á hinum dýrari og eftirsóttari vestrænu bifreiðum handa þeim sem þó sannanlega þurftu slíkra bíla með, vegna þess að engin vandkvæði voru á því að koma slíkum bílum út og þar vísir peningar í ríkiskassann. Ég er þó þeirrar skoðunar, að eins og þessum málum er nú fyrir komið, með aukinni aðild samtaka öryrkja að úthlutun bílanna og með traustri aðstoð ábyrgra lækna hafi dregið mjög svo úr þessari misnotkun að ég óttast ekki, eins og málunum er nú fyrirkomið, að þeir aðilar, sem eftirlit hafa með úthlutuninni og annast hana, muni ekki gæta þess eins og sjáaldurs auga síns að misnotkun eigi sér ekki stað. Það verður aldrei fyllilega loku fyrir það skotið, að einstök tilfelli um misnotkun geti ekki átt sér stað, en ég tel að eins og nú er að þessu staðið af hálfu öryrkjasamtakanna með aðstoð hæfra lækna séu líkurnar fyrir því í algeru lágmarki.

Í 2. mgr. 1. gr. þessa frv. þar sem kveðið er á um algera niðurfellingu gjalda af 25 bifreiðum árlega fyrir þá sem mestir eru öryrkjar, en geta þó sjálfir ekið sérstaklega útbúnum bifreiðum, er komið inn á miklu erfiðara atriði fyrir þá sem úthluta eiga þessum bifreiðum, þessum 25 bifreiðum, heldur en virðast kann í fljótu bragði. Það er spurningin um örorku eða öllu fremur fötlun. Fötlun manna verður e.t.v. ekki metin auðveldlega samkv. meginreglum, því að það sem einum er mikil fötlun er öðrum lítil. Ég vil nefna sem dæmi, að maður er metinn 75% öryrki, t.d. maður sem misst hefur fót fyrir ofan hné. Ef hann er gæddur góðri heilsu að öðru leyti, býr við sæmilegar félagslegar aðstæður og hefur fyrir heppni eða góðvild manna sloppið stóráfallalaust gegnum lífið, þannig að kjark hefur ekki brostið, er hann sáralítið fatlaður þótt metinn sé 75% öryrki. Annar maður, sem orðið hefur fyrir e.t.v. miklu minna áfalli líkamlega, en hefur e.t.v. ekki jafngóða heilsu, hefur ekki notið eins góðrar félagslegrar aðstöðu, ekki verið jafnheppinn, kann að vera miklu verr á vegi staddur, eiga miklu erfiðara með að bjarga sér og njóta lífsins.

Ég man eftir því, þegar rætt var frv. okkar hv. þm. Helga Seljans í fyrsta sinn í þessari deild, að hv. þm. Oddur Ólafsson vakti í glöggri ræðu eins reyndasta þm. í umfjöllunarmálefnum fatlaðra athygli á því, hvílík höfuðnauðsyn það getur verið brjóstholssjúklingum, hjartasjúklingum, lungnasjúklingum, sem virðast á að líta vera við fulla heilsu og vissulega lítið fatlaðir við sæmilegar aðstæður, — hvílík höfuðnauðsyn, lífsnauðsyn þeim getur verið á því að njóta sams konar fyrirgreiðslu og lömunar- og aflimunarsjúklingar njóta í sambandi við útvegun bifreiða og talstöðva í bíla. Margt af því fólki, sem hlotið hefur þess háttar innri líffæraörkuml, má ekki koma út í frost, má ekki verða fyrir snöggri líkamlegri áreynstu og er e.t.v. enn þá fremur bjargarvana en lömunarsjúklingarnir og aflimunarsjúklingarnir ef út í það fer að þurfa að bera sig um úti í köldu veðri eða sitja fastur í köldum bíl í skafli.

Ég vil í sambandi við ákvæði frv. um niðurfellingu gjalda af talstöðvum í þær 25 bifreiðar, sem eru ætlaðar þeim sem mestir eru öryrkjarnir, geta þess, að í ljós kom þegar kannað var við flutning þessa frv. okkar öðru sinni með hvaða hætti væri e.t.v. auðveldast að leysa úr þörf öryrkja fyrir slíkar talstöðvar í bifreiðar sínar, að langsamlega ódýrast og auðveldast yrði að kaupa í bílana stuttbylgjutæki, svokölluð CBS-tæki, sem nú eru almennt notuð í bíla vestanhafs og austan og munu nú vera í 9000 bílum á Íslandi og hægt er að fá fyrir tiltölulega lágt verð. Eini annmarkinn á því að setja slík tæki í bíla öryrkja á landi hér, — tæki sem nú mun vera hægt að fá fyrir um það bil 40 þús. kr., — eini annmarkinn á því var sá, að Landssími Íslands synjaði og synjar enn þverlega fyrir það að láta hlustverði frá símstöðvunum og þ. á m. í Gufunesi hlusta á þeirri bylgjulengd sem almennt er notuð af eigendum þessara stuttbylgjutækja, synjaði algerlega fyrir það að hlustað væri eftir þessum tækjum og að annast afgreiðslu á samtölum um slík tæki.

Hér er á ferðinni mál sem ég hygg að við þm. verðum að taka upp sérstaklega í öðru sambandi, því að sannleikurinn mun vera sá, að vart geti á landi hér fullkomnari öryggisþjónustu heldur en þá sem bifreiðaeigendur, sem eiga slík tæki í bílum sínum, láta í té á vegum úti. Þeir munu vera fáir, dagarnir og jafnvel næturnar, þegar bílfært er á vegum landsins, að ekki séu opnir tugir slíkra stöðva og upplýsingum og hjálparbeiðnum komið á framfæri. Ég er þeirrar skoðunar, að ef við gætum knúið fram að Landssími Íslands, að sjálfsögðu gegn gjaldi frá eigendum þessara stöðva til þess að standa straum af kostnaði, annaðist hlustun á neyðarbylgju þessara CBS-stöðva, eins og hann gerir nú á bylgju þeirra stöðva er hann sjálfur selur, þá værum við komnir hér með ákaflega fullkomið öryggiskerfi, samtímis því sem hinn mikli fjöldi stöðva í almenningsbílum á Íslandi gæti tryggt að hjálp bærist með undraskjótum hætti til fatlaðra manna sem sætu í biluðum eða föstum bíl sínum úti á vegum. Þetta atriði vildi ég aðeins koma inn á hér og mælast til þess, að hv. þm. þessarar d. mynduðu með sér samtök um að knýja á um að Landssíminn sjái nú að sér og gangi til samstarfs við eigendur þessara stuttbylgjustöðva sem gætu gert geysilega mikið gagn, fyrst og fremst fyrir fatlaða, sem bjargarþurfi kunna að verða þá og þegar í bílum sínum úti á vegum og götum, en einnig fyrir alla landsmenn.

Þá vil ég víkja að ákvæðinu í lokamgr. 1. gr., þar sem fjallað er um eftirgjöf á gjöldum, þ. á m. söluskatti af innfluttum gervilimum, sem ekki verða gerðir hér á landi, svo og af áhöldum og hjálpartækjum sem sérstaklega eru gerð með tilliti til þarfa fatlaðs fólks samkv. læknisvottorði og henta ekki öðru fólki. Eins og ég sagði áðan, er ég þeirrar skoðunar, að Tryggingastofnuninni, almannatryggingum, beri að sjá fötluðu fólki fyrir þessum gervilimum og tækjum ókeypis — en vel að merkja, beri að gera það.

Þá komum við að dæmi sem hv. þm. Alexander Stefánsson nefndi í framsöguræðu sinni, sem ég hygg að ég hafi enn ekki fullþakkað honum, um sjómann þann vestur á Snæfellsnesi sem missti hönd og fót í slysi og fluttist úr byggðarlagi sínu í byggðarlag hér við Faxaflóa og hefur háð þar sína baráttu einhentur og fótarvana. Þennan mann þekki ég líka og þekki til viðureignar hans við þá forsjá sem hefur ekki reynst honum beinlínis guðleg í náð sinni þennan tíma, þar sem er íslenskt samfélag. Ég á útskorinn grip eftir þennan einhenta mann sem hefur ekki getað fengið einu sinni að halda starfi við símavörslu, þó hvorki skorti hann orðfærið, róminn né greindina til að annast þess háttar starf sem hann hefði burði til.

Og þá komum við að atriði sem gerir það að verkum, að enda þótt ég telji ugglaust að almannatryggingar eigi að sjá fötluðu fólki fyrir hjálpartækjum og gervilimum, tel ég þessa síðustu málsgr, þegar til kastanna kemur ekki óþarfa. Þessi fatlaði maður, sem hv. þm. Alexander Stefánsson gat um og ég hirði ekki að nafngreina heldur, hefur orðið fremur fyrir félagslega aðstöðu og skapgerðarsakir miklu meira fatlaður en limamissir hans raunverulega segir til um, og þó kann e.t.v. mestu um að valda, að hann missti fótinn það ofarlega um lærið, að stúfurinn, sem hann hefur til þess að valda gervifæti, er í naumasta lagi, og hann hefur ekki getað enn í dag fengið þess háttar gervifót sem hann fái hamið almennilega á sér og ekki meiði hann dálítið. Þá kemur hitt, að af hálfu þeirra heilbrigðisstofnana, sem eiga að skila hinum fatlaða manni frá sér með sem bestri heilsu, hygg ég að tiltölulega lítið hafi verið gert til þess í fyrsta lagi að tjá fyrir honum raunverulega möguleika hans til að bjarga sér með gervilimum og að fá hann til að sætta sig við hina raunverulegu félagslegu og heilbrigðislegu stöðu sína eftir þetta slys.

Ég kynntist þessum manni ekki fyrr en fyrir þremur árum. Hann er allmiklu yngri en ég, og ég var búinn að ganga á gervifæti í 20 ár þegar hann varð fyrir slysi. Ég spurði hann að því, hvað læknarnir hefðu sagt við hann þegar hann kom til meðvitundar eftir að búið var að gera að meiðslum hans með þeim hætti sem það var gert. Hann sagði: „Það fyrsta, sem læknirinn sagði við mig, var það, að nú væru þeir farnir að framleiða svo góða gervifætur að menn gætu skautað og dansað á þeim, og svo góðar gervihendur, að menn gætu spilað á píanó með þeim.“ Þetta fannst mér tiltölulega lítil framför í orðtækni frá því að ég lifði þennan sama atburð, því að mér er það minnisstætt, að það fyrsta, sem hlutaðeigandi læknir á Landsspítalanum sagði mér, eftir að ég opnaði skjáinn eftir að af mér hafði verið tekinn fóturinn, var nákvæmlega þetta, með sömu orðunum: „Nú eru þeir farnir að framleiða svo góða gervifætur að þú getur skautað á þeim og dansað á þeim.“ Þetta fannst mér merkilegt og það gladdi mig mikið, því að raunar hafði ég hvorugt getað áður. Nú upphófst hin mikla leit að svona dásamlegum gervifæti, sem ég gæti skautað á og dansað, og það jók nokkuð óþolinmæði mína, þegar þessi leit bar ekki mikinn árangur.

Ef rétt hefði verið að málunum staðið gagnvart þessum þjáningabróður mínum og kunningja, þá hefði honum verið sagt satt um það, hvað hans biði, og honum hefði verið látin í té sú hjálp, sem ekki var hægt að ætlast til af þeim læknum sem aflimuðu bann og þurftu sjálfir að standa í því að ræða um þetta við hann á eftir, heldur átti að láta þá hjálp í té af öðrum aðilum, sérstaklega til þess þjálfuðum, fá hann til að sætta sig við þessa stöðu sína og telja í hann þann mjúka kjark sem gerði honum kleift að sætta sig við það djöfullega, sem orðið var, og gera hið besta úr því. En það var ekki gert. Og eins og Job brúkaði sinn synduga kjaft við Jahve, drottin allsherjar sem öllu réð, jafntrúaður og gamli maðurinn var, þangað til drottinn allsherjar gafst upp fyrir Job, af því að hann gat ekki svarað honum, og sagði um það er lauk í drottinlegri örvæntingu sinni: Og ég sem hef skapað bæði flóðhestinn og þig — og lét við þau svör sitja, — eins hefur þessi félagi okkar orðið að standa í því að skammast við þá forsjón sem hann hafði eina við að tala og veitti honum enga úrlausn í neyð hans.

Þá komum við að því, að sú stofnun, sem á að verða þeim til hjálpar sem fatlast á þennan hátt, hvort heldur er af slysi eða af heilsubresti, virðist vera þannig í stakk búin að ýmsir af forstöðumönnum hennar, sem ættu raunverulega að ganga til þessa fólks og bjóða aðstoð þeim sem sannanlega þurfa á henni að halda, virðast túlka hlutverk sitt á þá lund, að þeir eigi umfram alla muni að spara fyrir stofnunina og koma í veg fyrir að þessir menn, sem þurfa á að halda hjálpartæki eða gervilim eða sérsmíðuðum skóm, misnoti þetta.

Ég get sagt ykkur dæmi, hv. þm. um annan kunningja minn, vélstjóra sem missti hægri hönd um úlnlið fyrir 16 árum. Hann hafði kjarkinn og skaphörkuna og fór ekki í land, heldur lét hann smíða á sig krók, sem hentar til þess að sinna ýmsum störfum vélstjóra, og hefur haldið áfram á sjónum sem vélstjóri síðan. En af því að hann þarf að stunda átakavinnu slítur hann upp mörgum svona krókum á ári, 3–4 krókum á ári, þeir kosta talsvert fé og hann á rétt á að Tryggingastofnunin borgi þetta. Starfsmanni Tryggingastofnunarinnar, sem um þessi mál fjallar, blöskraði sá kostnaður sem Tryggingastofnunin hefði af þessu, kallaði fyrir sig konu vélstjórans, sem verður svo sem gjarnt er um sjómannskonur að standa í flestu þrefi fyrir heimili sitt og mann, og sagði við hana: „Maðurinn þinn verður að fara í land og fá sér aðra vinnu. Þetta nær ekki nokkurri átt. Hann slítur bara upp 4 krókum á ári.“

Hvers konar skilningur er þetta? Hvers konar afstaða er þetta hjá talsmanni Tryggingastofnunar ríkisins? Þetta er ekki einsdæmi. Ég vil ekki sveigja að neinum einstökum persónum í þessu sambandi. Ég sveigi hér að Tryggingastofnun ríkisins. Kannske gæti ég rakið sökina enn lengra. Kannske þyrftum við að fara út í það að hugleiða hvernig sú hv. stofnun, sem við nú eigum sæti í, býr að Tryggingastofnun ríkisins, stendur að fjárhag hennar. Það má vel vera.

En þessi afstaða af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins, sem ég nefndi nú í sambandi við mál vélstjórans, er ekki einsdæmi. Foreldrar barna með bæklaða fætur, sem leita þurfa til stofnunar í Reykjavík til þess að fá smíðaða á þessa fætur skó sem mega styrkja fæturna, gera þá nothæfa barninu í framtíðinni, hafa sömu sögur að segja um afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins eða starfsmanna hennar. Sjálfur gæti ég bætt því við af eigin reynslu rösk 30 ár, með hvaða hætti Tryggingastofnun ríkisins lítur á þörf manna fyrir gervilimi, með hvaða hætti hún eykur reisn þeirra þegna sem til hennar hafa þurft að leita eftir slíku. Þó er það ekki rétt, því að það fór að vísu ekki að bera á þessu fyrir alvöru fyrr en fyrir tiltölulega fáum árum. Í hvert sinn a.m.k. hin síðustu 5 árin sem ég hef þurft á því að halda að láta gera við gervifót af mér, þá verð ég að útvega mér nýtt læknisvottorð um það, að ekki hafi gróið á mér fótur síðan, því að annars er reikningurinn ekki greiddur af ótta við að þetta kunni að verða misnotað. Það eru rökin: Af ótta við að menn fari að útvega sér gervifætur til að græða á þeim eða hendur, að menn fari að láta gera við gervilim sinn að óþörfu.

Ég vil ítreka það, að e.t.v. gætum við, ef lítið er á málefni fatlaðra, komið mjög miklu góðu til leiðar fyrir þetta fólk ef við tækjum í hnakkadrambið á þeim mönnum sem ráða kannske ekki einir, en ráða þó í Tryggingastofnun ríkisins, og kæmum þeim í skilning um að tilgangur Tryggingastofnunar ríkisins er ekki fyrst og fremst að spara fjármuni sína gagnvart fötluðu fólki. Tilgangurinn, markmiðið á að vera að aðstoða þetta fólk og styrkja það, síðan vil ég gjarnan að komi áhersla á ráðdeild og varfærni gagnvart aðilum sem hugsanlega vilja misnota fjármuni stofnunarinnar. Mér er alveg ljóst, að það er rétt að ýmsir aðilar hafa reynt að misnota þetta. En það er ekki fatlað fólk. Það eru þeir einstaklingar sem hafa séð sér leið að græða á fötlun fólks, sérfræðingar sem hafa gert fötlun meðborgara sinna og örorku þeirra sér að féþúfu. En þá má Tryggingastofnun ríkisins undir engum kringumstæðum gera dæmin um slíkt, sem guði sé lof eru tiltölulega fá, að átyllu til þess að draga úr aðstoð sinni við fatlaða.

Ég leyfi mér að nefna það hér og vil gjarnan að það komist inn í þingskjöl, að hér í Reykjavík er rekin gervilimasmíðastofa, hjálpartækja- og smíðastofa fyrir skó á fatlaða fætur. Hún hefur verið rekin hér meira en hálfa öld og er nú rekin af þriðju kynslóð. Ég þekki mjög vel til rekstrar þessarar stofnunar, sem er í einkaeign, og ég veit býsna vel, að þar hefur verið veitt góð þjónusta og markmiðið hefur ekki verið auðsöfnun. En vegna þess að annars staðar hefur orðið vart við tilhneigingu til fjársvika hefur það verið látið bitna á þessari gömlu einkastofnun hér í Reykjavík.

Tryggingastofnun ríkisins verður að finna leiðir til þess að sneiða hjá því að svindlað sé á stofnuninni, að óprúttnir menn dragi sér af almannafé, eftir öðrum leiðum en þeim að skera við nögl eðlilega og nauðsynlega aðstoð við öryrkja og á þann hátt að ekki verði skert sjálfsvirðing þess fólks sem þykir sárt að þurfa að leita til almannastofnana um aðstoð í lífsbaráttu sinni.

Ég vil svo enn ítreka þakklæti mitt fyrir framlagningu þessa frv. og heita stuðningi mínum við það. En gjarnan vildi ég, sem ég raunar geri ráð fyrir að hljóti að verða, að sérstök áhersla verði lögð á það í n. að skilgreina og fá samtök öryrkja og trúnaðarmenn þeirra til að skilgreina hugtök sem m.a. lúta að stigi örorku, og einnig að sú hin sama n. athugi möguleika á því að fá leystan þann kerfishnút, sem einhvern veginn komst á þá símalínu sem um þurfa að fara skynsamleg samtöl varðandi talstöðvar í bifreiðar öryrkja — og hef ég svo lokið máli mínu.