20.11.1978
Efri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka það skilmerkilega fram, að þau fáu atriði sem ég geri að umtalsefni í sambandi við frv. sem hér liggur fyrir til umr., ber ekki að skoða sem stefnu flokks míns viðvíkjandi þessu máli. Þau atriði, sem koma fram í máli mínu, eru eingöngu persónuleg skoðun mín í sambandi við þetta mál. Þetta þykir mér, herra forseti, rétt að taka fram þegar í upphafi máls míns til þess að koma í veg fyrir hugsanlegan misskilning.

Hér er til umr. frv. til l. um félagsmálaskóla alþýðu. Þetta er allviðamikill bálkur, og ég held að við getum öll verið sammála um að það væri ekki óeðlilegt að verkalýðshreyfingin og launþegasamtökin sem slík telji æskilegt að viðhalda víðtækri fræðslu innan sinna vébanda. En þá kemur að mínu mati til athugunar hvað felst í hugtakinu alþýða. Í frv. er ekkert ákvæði sem skilgreinir það, hvað átt sé við með þessu orði: „alþýða“. Og ég held að það geti vafist fyrir mörgum að gefa endanlega fullnægjandi skýringu á því, hvað sé átt við með þessu hugtaki.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil a.m.k. ekki undir öllum kringumstæðum búa við það, að slíkt hugtak sé algerlega háð hugsanaferli þeirra mörgu aðila, sem á hinum pólitíska vettvangi hafa gert sér að sérstöku áhugamáli og atvinnu að nudda sér utan í eitthvað, sem þeir kalla alþýðu manna, og beita því hugtaki til þess að geta notað þennan fjölmenna hóp sér til framdráttar í hinni pólitísku baráttu. Áður en lengra er haldið, á meðan ekki liggur fyrir skilmerkileg og skýlaust viðtekin útskýring á því, hvað er alþýða, finnst mér persónulega að mjög sé erfitt að setja löggjöf um skóla eins og frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., gerir ráð fyrir að verði. Mér finnst mörg ákvæði greinanna í þessu frv. vera mjög losaraleg, og vil ég til stuðnings þessari fullyrðingu minni taka nokkur dæmi úr frv.

Í 1. gr. stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hlutverk skólans er að mennta og þjálfa fólk úr alþýðusamtökum með það fyrir augum að efla sjálfstraust þess, þroska og hæfni til að vinna sameiginlega að bættum lífskjörum og frelsi alþýðustéttanna.“ (StJ: Veit þm. ekki einu sinni hvað frelsi þeirra er?) Þm. veit furðanlega mikið um það hvað frelsi er, hann er nokkurn veginn jafnoki hv. framtakanda um það. En ég vil spyrja í sambandi við þetta atriði þessarar greinar, við hvað sé átt í þessu sambandi. Ríkir eitthvert ófrelsi einhverrar stéttar í þessu þjóðfélagi? Ég spyr? Mér persónulega er ekki kunnugt um annað en að það sé mjög vel verndað stjórnarskrárákvæði sem veitir mönnum frjálsræði til þess að tjá sig eða réttara sagt til athafna, orðs og æðis. Ég hef ekki heyrt talað um alvarlegan misbrest á framkvæmd þeirra ákvæða stjskr. í okkar þjóðfélagi, og ég get ekki séð hvað er áfátt um frelsi eins eða neins í sambandi við a.m.k. þá félagshyggju sem liggur að baki þessa frv. sem hér er um að ræða. Það væri miklu nær að tala um ófrelsi gagnvart einstaklingnum í þjóðfélaginu til þess að mega starfa og vinna eins og hann æskir. Það er ekkert skylt því sem liggur á bak við þá hugsun sem þetta frv. byggist á.

Í 2. gr. segir: „Félagsmálaskóli alþýðu skal veita fræðslu um sögu, starf og stjórn stéttarfélaga, baráttu þeirra fyrir bættum lífskjörum alþýðustéttanna, um hagsmunasamtök atvinnurekenda, starfshætti þeirra og markmið, svo og um almenna þjóðfélagsfræði og meginatriði íslenskrar félagsmálalöggjafar.“ Það á að kenna allt um hagsmunasamtök atvinnurekenda og annað, en þeir aðilar eiga ekki að eiga neinn þátt í stjórn þessa skóla. Það á ekki að leita neitt til þeirra í sambandi við þetta. Venjan hefur þó verið sú í samskiptum atvinnurekenda og launþega, að það hefur verið reynt að mætast, og oftast á þeim vettvangi, sem fjallaði um þessi mál, að báðir aðilar ættu fulltrúa við borðið.

Í 3. gr. eru svo ýmsar hugleiðingar um það, hvernig þessi skóli á að starfa. En það er hvergi minnst á það, hvar þessi skóli á að vera. Hann þarf að eiga heimili.

Í 4. gr. er komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Skilyrði fyrir skólavist eru þau, að nemendur séu fullra 17 ára og séu félagar í stéttarfélagi.

Heimilt er að setja það skilyrði fyrir þátttöku í námskeiði, að nemandi hafi lokið þátttöku í öðru nánar tilteknu námskeiði í skólanum.“

Ég verð nú að segja það, að mér finnst persónulega þetta ákvæði um 17 ára aldur alleinkennilegt. Ég held að inntökuskilyrði í verkalýðsfélög eða launþegafélög séu miðað við 16 ára aldur, og 16 ára unglingur má ráðstafa eigin fjármagni. Ég get ekki séð af hverju slíkur aðili er ekki gjaldgengur til þess að setjast á skólabekk og njóta fræðslu um þau málefni sem snerta þann félagsskap sem hann hefur haslað sér völl í.

Í 5. gr. frv. er þannig komist að orði, með leyfi forseta: „Ráðh. skipar tvo skólanefndarmenn eftir sameiginlegri tilnefningu Menningar- og fræðslusambands alþýðu og Alþýðusambands Íslands og einn án tilnefningar, og er hann jafnframt formaður skólanefndar. Varamenn skal skipa með sama hætti.

Skólanefnd skal skipuð til fjögurra ára í senn. Hún ræður skólastjóra og kennara í samráði við hann.“ Með þessum ákvæðum er verið að marka nýja braut í sambandi við stjórn skóla. Samkv. frv., sem hér er til umr., á ríkið að greiða allan kostnað við rekstur skólans og væntanlegar byggingar, sem þarf að reisa vegna starfsemi skólans. En ríkið hefur ekki yfirstjórn skólans með höndum, það er aðeins aðili að stjórn skólans. Satt best að segja hefði manni ekki fundist óeðlilegt um skóla, sem á að starfa á jafnvíðfeðmum félagsmálalegum grundvelli og þessi félagsmálaskóli alþýðu, að hinn aðilinn, atvinnurekendur, hefði átt fulltrúa í stjórn slíks skóla, ekki síst þar sem gert er beinlínis ráð fyrir því í lagasetningu um stofnun skólans, að skólinn skuli veita fræðslu um starfsemi atvinnurekenda.

Mér láðist að geta síðustu mgr. í 2. gr., sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Nánari ákvæði um námsefni skulu sett í reglum, sem skólanefnd og skólastjóri setja í samráði við kennara skólans og félmrh. staðfestir.“ Félmrh., sem á nú að vera æðsti maður stofnunarinnar, á ekki að setja þetta að fengnum till. skólanefndar og skólastjóra, heldur eiga þessir aðilar að búa til reglugerðina og svo getur hæstv. félmrh. skrifað undir. Hann hefur ekkert meira um það að segja.

Í 7. gr. stendur svo, með leyfi forseta:

„Allur kostnaður við Félagsmálaskóla alþýðu, þar með talinn byggingarkostnaður skólahúss, greiðist úr ríkissjóði.“

Ég er þeirrar skoðunar, að þar sem svo er ástatt eins og er um hugsað skipulag þessa skóla, að ríkið á alls ekki að hafa yfirstjórn með höndum, á aðeins að vera einn aðili af þremur um stjórn skólans, þá væri ekki óeðlilegt að kostnaður við rekstur skólans og byggingar verði að einhverju leyti borinn af þeim samtökum, sem standa að honum, og þá á ég við sjóði verkalýðsfélaga. Sem betur fer blasir sú staðreynd við, að sérstaklega á síðari árum er sjóðamyndun verkalýðsfélaganna að verða allveruleg, sem betur fer, segi ég. Ég harma það ekki. Ég tel það mjög gott, að verkalýðsfélögunum hefur tekist að koma sér þannig fyrir að þau eru búin að byggja upp mjög vel fjármálalega starfsemi sína og sum þeirra hafa haft gífurlegar tekjur og eru orðin efnuð.

Herra forseti. Mér finnst það frv., sem hér liggur fyrir, vera allt losaralegt og það þurfi mjög mikillar athugunar við áður en lengra er haldið. Og ýmislegt er það, sem kemur fram í grg. frv., sem mér finnst vera allt of mikill einhliða áróður. Mér skilst, herra forseti, að fundartími d. sé kominn að lokum, svo að ég verð því miður að stytta mál mitt, (StJ: Hv. þm. ætti fyrir alla muni að halda áfram.) Ég vildi gjarnan segja meira í sambandi við þessi mál. (ÓRG: Ég legg eindregið til að þm. geri það.) Ég skal verða við óskum hv. 3. landsk. þm. og taka til að mynda eitt dæmi úr grg. Það er á bls. 3, 4. mgr. að neðan, ef ég mætti komast svo að orði. Mér verður þægilegra að telja þannig í þetta skipti. Þar stendur svo, með leyfi forseta:

„Margt bendir þó til þess, að torveldara muni reynast að veita uppvaxandi kynslóð næga fræðslu og þekkingu á félagslegum málum sínum að þeirri leið, sem brautryðjendum og áhugamönnum hefur verið fær í þeim efnum.“

Lái mér hver sem vill, en svona ummæli koma mér dálítið á óvart. Ég hélt satt að segja að alþýða manna, svo að ég taki mér það orð í munn eins og ég þekkti það í uppvexti, hefði átt miklu erfiðara að afla sér fræðslu og þekkingar á málum heldur en unga kynslóðin í dag. Skoðun mín er sú, að alþýða manna hefur á öllum tímum sýnt einstaka natni og hæfileika og dugnað við að afla sér fræðslu við hin erfiðustu skilyrði. Að mínu mati er ólíku saman að jafna um möguleika almennings til náms og fræðslu nú eða var á frumdögum verkalýðshreyfingarinnar hér á þessu landi.

Út af ákvæðum 5. gr. um stjórn þessa væntanlega skóla má það gjarnan koma fram hér, að mér finnst reynsla okkar af stjórn verkalýðsfélaganna, launþegasamtakanna í landinu, ekki vera á þann veg að hægt sé að treysta því, að það verði ekki pólitísk misnotkun á stjórn slíks skóla, miðað við þá reynslu sem við höfum af því, hvernig launþegasamtökunum hefur verið og er í dag stjórnað í þessu landi. Þau hafa verið stórkostlega misnotuð og beitt fyrir hagsmunavagn ákveðinna pólitískra flokka, og þar á flokkur hv. framítakanda, 3. landsk., langversta sögu að baki. Væri hægt að vísa til ummæla margra samstarfsmanna hv. þm. í núv, ríkisstj., sem þeir viðhöfðu í síðustu kosningum um það, hvaða álit þeir hefðu á hátterni flokksbræðra hv. 3. landsk. þm. sem hafa yfirleitt misbeitt valdi sínu í launþegasamtökunum flokki sínum til framdráttar. Af því höfðu frambjóðendur Alþfl. mjög miklar áhyggjur í síðustu alþingiskosningum.

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að styðja við bakið á launþegasamtökunum til að þau geti haldið við fræðslustarfsemi innan sinna vébanda. En mér er mjög til efs að það sé rétt leið sem stefnt er að í þessu frv. Ég held að við eigum að flýta okkur hægt við að búa til skólabákn sem algerlega yrði kostað af almannafé. Ég bið velvirðingar á því, að þar er ég kannske ekki nógu dómbær um, en mér finnst skólamál þjóðarinnar og skipulag þeirra almennt vera orðið slíkt myrkviði, að rík ástæða sé til að reyna að bæta þar verulega úr áður en farið verður að bæta við nýju víðfeðmu skólabákni, eins og ég hef grun um að muni myndast við samþykkt og framkvæmd þessa frv.