20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

10. mál, þingsköp Alþingis

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég er einn í hópi þeirra þm. sem telja þetta frv. orka mjög tvímælis eins og það er sett hér fram. Ég held að það muni hafa í för með sér aukinn rugling milli þrískiptingar ríkisvaldsins: framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds, og að með því sé stefnt um of inn á þá braut, að Alþ. eða nefndir þingsins verði eins konar yfirdómstóll í landinu.

En það var ekki þetta atriði sem ég ætlaði að ræða hér, heldur kom hv. 1. flm. þessa frv. inn á atriði sem ég taldi ástæðu til að minnast á. Hann talaði um eftirlitsstarf þingnefnda, og þá fyrst og fremst eftirlit þingnefnda með fjármálum ríkisins, og ræddi það mál eins og slíkt væri ekki um að tefla í dag. Hér er um grundvallarmisskilning að ræða hjá hv. flm. Þetta eftirlitsstarf með fjármálum hinna ýmsu ríkisstofnana og ríkiskerfisins er í höndum fjvn. og undirnefndar fjvn., sem sett var á laggir — að ég hygg — á viðreisnarárunum og hefur síðan starfað milli þinga. Að vísu er ekki á þessa n. minnst í þingsköpum, en það er orðin löng þinghefð að þessi n. starfi. Hún tekur frumkvæði í því að fá til sín hina ýmsu forstjóra ríkisfyrirtækja, ráðuneytisstjóra og aðra slíka, sem hafa með framkvæmd fjármála ríkisins að gera og ræðir að eigin frumkvæði um fjárreiður þessara stofnana. M.a. fer hún mjög nákvæmlega yfir heimildir ríkisstofnana til þess að ráða nýja starfsmenn eða fer yfir þær stöður sem þessir menn hafa tekið sér bessaleyfi að ráða menn í, þ.e.a.s. óheimilaðar stöður.

Þetta starf er unnið og hefur verið unnið um allmörg ár, eins og ég sagði, allt frá viðreisnarárunum. Hins vegar má um þetta starf fjvn. og undirnefndar hennar segja, að það mætti gjarnan vera fastara í formi og það mætti gjarnan vera skýrar kveðið á um það í þingsköpum, að undirnefnd fjvn. starfaði í þessum dúr. En þó hygg ég að það sé alveg sérstakt umhugsunarefni, og það vildi ég sérstaklega benda á í sambandi við þetta mál, þegar verið er að ræða um eftirlitsstarf þingnefnda, að það er mjög óhöndugt að mínu mati, að fjvn. er kosin einvörðungu til eins árs, þ.e.a.s. hún er kosin á hverju þingi, í raun má deila um það, hvort hún hafi umboð til þess að vinna á sumrin, hvað þá undirnefnd fjvn., sem hvergi er getið um í þingsköpum. Um þetta má deila. Hins vegar held ég að ef þetta mál yrði skoðað niður í kjölinn, þá yrði þinghefð látin ráða.

Þetta tel ég að mætti færa til betra horfs og kveða skýrar á um, og ég er sammála því, að á þessi störf fjvn. þarf að leggja meiri áherslu en gert hefur verið. Á hinn bóginn væri farið út á mjög vafasama braut ef einstakar þingnefndir aðrar hugsuðu sér að hafa á hendi eftirlit með fjárreiðum ríkisstofnana vegna þess að fjvn. fjallar um fjárlagagerðina og það er eðlilegt að hún hafi þá á hendi eftirlit með því, að fjárlögum sé framfylgt.

Því miður hefur það verið svo, að þegar um fjáraukalög hefur verið fjallað á hinu háa Alþ., þá hefur oft ekki verið farið ofan í saumana á því hvers vegna einstakir fjárlagaliðir hafi farið fram úr áætlun fjárlaga. Þetta starf tek ég undir að eigi að efla. En til þess að það verði eflt, bæði þetta eftirlitsstarf fjvn. og nauðsynleg áætlunargerð fram í tímann um einstaka fjárlagaliði, tel ég æskilegt að í þingsköpum væri gert ráð fyrir að fjvn. yrði kosin til kjörtímabils og þar yrði skýrt kveðið á um að undirnefnd fjvn. skuli starfa, í henni eigi sæti einn þm. í fjvn. frá hverjum þingflokki, og að skýrt sé kveðið á um verksvið beggja þessara n., bæði fjvn. og undirnefndar.