20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

10. mál, þingsköp Alþingis

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingar á þingsköpum Alþ., gefur óneitanlega tilefni til þess að ræða um ýmsa þætti þeirra mála sem snerta störf Alþ. og þingnefnda, en ég skal þó ekki að þessu sinni fara langt út í þá sálma.

Ég held að það sé alveg ljóst, eins og hv. 1. þm. Austurl. benti raunar á í ræðu sinni áðan, að þingnefndir geta að óbreyttum lögum undirbúið frv. eða þáltill., tekið þær upp hjá sjálfum sér, og þess eru dæmi að þingnefndir hafi gert slíkt. Hins vegar býst ég við eða ég lít þannig á, að að óbreyttum þingskapalögum verði að gera ráð fyrir því, að mál, sem þingnefnd fjallar þannig um, eigi annaðhvort uppruna sinn eða endi, ef svo má segja, inni í þinginu sjálfu, þó með þeim fyrirvara að vissulega gæti þingnefnd tekið fyrir eitthvert mál, sem hún að lítt athuguðu máli teldi ástæðu til að flytja inn í þingið, en kæmist síðan að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki ástæða til þess. Ég held að að óbreyttum lögum hljóti að verða að líta þannig á, að það sé eðlilegt að annaðhvort hafi mál komið frá þinginu sjálfu eða þd. til n. ellegar þá að n. sé að hugsa sér a.m.k. að undirbúa þingmál þegar hún er að fjalla um slíka hluti. En ef ætti að breyta þessu verulega, eins og hv, flm. þessa frv. leggja til, þá hygg ég að ný löggjöf þurfi að koma til.

Um þetta frv. í sjálfu sér mætti ýmislegt segja, en ég skal ekki gera það. Það er rétt, sem bent hefur verið á, að þegar er til, ekki aðeins í þingskapalögum, heldur í sjálfri stjórnarskránni, ákvæði sem heimilar Alþ. sérstaklega að setja á stofn rannsóknarnefndir með þar tilteknu valdi. Ég vil í því sambandi aðeins varpa því fram, að ég tel að næst þegar stjórnarskrárbreyting verður gerð sé ástæða til að gera þá breytingu a.m.k. á þessu ákvæði 39. gr. stjskr., að það séu ekki aðeins deildir, sem eigi rétt á því að skipa rannsóknarnefndir, heldur sé það einnig og ekki síður á valdi Sþ. að gera slíkt, því að óneitanlega hlýtur að verða að líta þannig á að það vegi þyngra og sé í sjálfu sér áhrifameira að Sþ. kjósi slíka n. eða ákveði að kjósa slíka n. í einhverju tilteknu stórmáli heldur en t.a.m. deild, sem aðeins þriðjungur þm. skipar, geri það.

En það, sem kom mér sérstaklega til þess að standa upp, er að þetta er ekki eina atriðið sem ástæða væri til að taka til athugunar í þingskapalögum okkar, enda þótt þau séu á margan hátt ágæt. Það er eitt og annað fleira sem full ástæða er til að taka nú til endurskoðunar, og með tilliti til þess hefur orðið samkomulag um það meðal forseta Alþingis og formanna þingflokka, að flutt verði þáltill. um að Alþ. kjósi nefnd alþm., t.a m. tveggja þm. frá hverjum þingflokki, til að endurskoða þingskapalögin í heild sinni, og slík till. verður flutt nú einhvern næstu daga.

Það er ekki ýkjalangt síðan heildarendurskoðun fór fram á þingskapalögunum. Til þess að endurskoða lögin um þingsköp var kosin mþn. árið 1966. Hún starfaði þá og einhver næstu ár og lagði till. sínar fyrir Alþingi, en ný þingskapalög voru samþ. 1972 — þau lög sem við búum við nú.

Ég tel ástæðu til að endurskoðun sem þessi fari nú fram. Það er eitt og annað sem ástæða er til að kanna sérstaklega, og ég nefni aðeins tvö dæmi í því sambandi. Hið fyrra er hvort ekki eigi að lögfesta í þingskapalögunum ákvæði um umr. utan dagskrár. Slík ákvæði eru engin til í lögunum nú. Einnig og ekki síður tel ég mikilvægt að tekin verði til rækilegrar endurskoðunar öll ákvæði um samskipti Alþ. og ríkisfjölmiðlanna, þ.e..a.s. hljóðvarpsins og sjónvarpsins. Þar um mætti eitt og annað segja, en ég læt það a.m.k. bíða þess, að umr. verði þá um þessi mál í heild sinni, þ.e.a.s. um hvort ekki sé orðið tímabært að láta fara fram heildarendurskoðun á þingskapalögunum, sem ég hygg að rétt sé að gera. Eftir sem áður er ekki nema góðra gjalda vert og æskilegt að fram fari fróðlegar umr. um þetta tiltekna mál sem hér er á drepið, hversu mikið valdsvið þingnefndir eiga að hafa á rannsóknarsviði, en eins og ég sagði skal ég ekki að þessu sinni fara lengra út í þá sálma.