20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 47 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 4 frá 6. mars 1964, um þingfararkaup, en þau lög hafa svo síðar verið endurskoðuð og m.a. voru þau endurskoðuð á þinginu 1970–1971. Atvikin höguðu því svo til, að þá sat ég í þfkn. Var ég því einn af þeim, sem voru til þess kjörnir, og tók þátt í því að endurskoða lögin um þingfararkaup. Það verk okkar eru gildandi lög um kjör þm.

Þegar komið var til fundar þeirra aðila, sem þar sátu að störfum, voru þar m.a. tveir forsetar þingsins, forseti Sþ., sem þá var Birgir Finnsson, og þáv. forseti þessarar hv. d., sem þá var og er enn hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen. Ég hafði fyrir þennan fund tekið saman á blað tölur sem voru hugmyndir að því, hvað mér hafði dottið í hug um kjör þm. miðað við mánaðarlaun. En fyrsta atriðið, sem var rætt á þessum fundi, var það, hvort Alþ. eða Kjaradómur ætti að fjalla um kaup þm. Við vorum tveir, sem fylgdum því, að Kjaradómur úrskurðaði kaup og kjör þm., en ekki Alþ. sjálft. Auk mín var Björn Jónsson, sem þá var hér á þingi og ætti að vera einnig nú, fylgjandi þessu. Aðrir þm. og sérstaklega forsetarnir tóku þetta alveg af og vildu ekki að þingið sleppti þessu starfi sínu. Ég hef ekki skipt um skoðun á þessu, og þegar Gylfi Þ. Gíslason var eitt sinn með þetta mál hér í þinginu, þá talaði ég og lýsti skoðun minni á nýjan leik og greiddi frv. atkv, þegar það fór þá til n. Hins vegar mun ég ekki hafa verið viðstaddur þegar málið var hér í hv. d. á síðasta þingi.

Ég minnist þess að þeir forsetarnir voru mjög fastir á því, að þingið mætti ekki setja yfir sig neinn aðila, því að það væri æðsta stofnun þessarar þjóðar og ef einhver stofnun önnur úti í bæ, eins og þeir orðuðu það, ættu að fara að ákveða laun þm., þá væri verið að sleppa þar valdi sem þingið ætti ekki að sleppa. Þrátt fyrir þetta hef ég sömu skoðun og ég hafði þá, að þessu valdi ætti þingið að sleppa í hendur þeirra sem ákveða laun, eins og Kjaradómur gerir. Hann er t.d. látinn ákveða laun ríkisstj. og dómara Hæstaréttar, sem er ein af veigamestu stofnunum þessarar þjóðar, og hann er einnig nú farinn að ákveða laun ráðuneytisstjóra samkv. eigin ósk þeirra. Ég man nú ekki um fleiri aðila, þó e.t.v. geti þeir verið, en ég tel að þetta eigi að gera.

Ég verð að segja þá sögu, og ætla þó ekki að segja hana nákvæmlega, að tölurnar um launakjör þm. sem ég var með á blaðinu, sýndi ég aldrei. Ég hefði þá orðið mér til mikillar minnkunar, því að þeir, sem höfðu þar orð fyrir okkur, voru með mun hærri laun en ég gat hugsað mér í það skipti. Ég mun því ekki reyna að fjalla um slíka hluti oftar.

Hins vegar vil ég segja það í sambandi við þetta frv., að ég er sammála kjarna málsins, aðalatriðinu, að Kjaradómur fái málið til meðferðar og hann ákveði kjör þm. Ég get vel fellt mig við þá hugmynd, sem ég heyrði frá einum flokksbróður hv. 1. flm., 7. þm. Reykv., að grundvöllinn að því, sem Kjaradómur ætti að úrskurða, ákvæði þfkn., hvað það væri sem ætti að koma til úrskurðar, bæði um bifreiðanotkun og fæðispeninga og annað því um líkt, eða sem sagt hvaða flokkar það væru sem Kjaradómur ætti að fjalla um. Þetta getur vel verið rétt og væri ekki nema eðlilegt að skoða það mál í meðförum n., sem um þetta mál fjallar.

Ég verð að segja það, að ég er ekki sammála ýmsu, sem fram kemur í grg, frv., og finnst að þar sé skotið nokkuð yfir markið. Ég veit ósköp vel, að þetta mál hefur verið notað til þess að gera þm. tortryggilega á marga vegu. Ég hef lítið á þetta sem tilraunir þeirra manna, sem stóðu fyrir utan Alþ., en langaði til að komast inn fyrir dyrnar, þetta væri ein tilraun þeirra til þess að finna leið að dyrunum og yfir þröskuld alþingishússins. Út af fyrir sig er það eðlilegt. Menn hafa ýmsar leiðir til þess að ná því takmarki sem þeir ætla sér, og við því er að sjálfsögðu ekkert að segja innan vissra marka.

Nú finnst mér það ekki rétt, að hér hafi verið um pukursmál að ræða í þinginu, og minni þá á að hv. 3. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, ræddi þetta mál með meiri myndarskap en áður hefur verið gert hér á hv. Alþ. þau 24 þing sem ég hef setið — nú er það 25. Það var rétt aðferð. Það var rétt, sem hann sagði, að greint hefði verið frá þessu í öllum þingflokkum og aldrei neinn verið beðinn að hafa hljótt um þetta. Möguleikar til þess að skýra frá þessu voru því hjá hverjum sem vildi það gera.

En ég held að það sé rangt orðað, að nefna fríðindi þingmönnum til handa þær greiðslur sem þeir fá. Ég þykist kunna skil á venjulegum launasamningum, að ef menn fara til vinnu út af því svæði, sem tilheyrir þeirra heimili, þá eigi að greiða þeim fæðispeninga. T.d. tel ég mig hafa heyrt það, er ég hef komið nálægt kjarasamningum hér í Reykjavík, að hér innan borgarinnar er lækur sem heitir Fúlilækur. Þær reglur eru þar um, að ef menn ynnu fyrir austan Fúlalæk, þá bæri að greiða þeim fæðispeninga, en ef þeir áttu heima fyrir vestan Fúlalæk, þá áttu þeir ekki að njóta þess arna. Mér er ekki kunnugt um annað en að svo sé enn, þó að ég hafi lítil afskipti haft af því að hafa menn í vinnu. Þó hefur það komið fyrir smávegis. Þeir menn voru komnir út af heimili sínu og ég varð að sjá þeim fyrir fæði á hóteli skammt þar frá sem vinnustaðurinn var. Það var ekkert um annað að ræða.

Þetta átti ég að greiða, en ekki þeir. Þetta eru engar tekjur fyrir mennina. Mér dettur ekki í hug að fara að telja þeim þetta til tekna, því að þeir hafa engar tekjur af því.

Ég hef af þessu góða reynslu. Ég sat í 15 ár á þingi án þess að fjölskylda mín væri hér. Ég segi ykkur það alveg rétt, og tel mig þó ekki vera neinn óhófsmann í eyðslu, hvorki um fæði né annað sem því getur fylgt, en fæðisúthaldið á mér einum var eins og hjá fjölskyldu minni uppi í Borgarnesi. Og hvaða ástæða var til að ég færi að greiða þetta sérstaklega? Ef ég hefði greitt þetta á mínum fyrstu þingárum, þá hefðu þingmannslaunin tæplega nægt. Ég hef svo mikla reynslu af þessu, að því fer fjarri, að þetta hafi verið fríðindi, enda var það ekki, því að þetta var útlagður kostnaður sem fylgdi því að ég gegndi þessu starfi. Ég verð líka að segja það um skattframtöl í þessu sambandi, að ég hef alltaf sett á mína skattskýrslu allt sem ég hef fengið frá atvinnurekendum mínum af slíku. En eins og hv. 3. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, gerði grein fyrir um daginn, hefur verið kveðinn upp um þetta úrskurður hjá ríkisskattanefnd, þar sem hv. þm. leitaði eftir því, og honum var ekki gert að telja þetta fram.

Þegar ég var ráðh. komu stundum frá ríkisbókhaldinu greiðslur sem ég hafði fengið vegna ferðalaga, og ég setti þær á skattskýrsluna báðum megin. Það var ekki talið að ég hefði haft af þessu tekjur, heldur fór þetta um mínar hendur vegna þess ferðakostnaðar sem ég varð að greiða. Þess vegna er fjarri öllu lagi að hér sé um að ræða nokkur fríðindi. Það er verið að greiða kostnað sem þm. verða fyrir vegna starfs síns, eins og það var fyrir verkamanninn, sem vann austur í bæ, en átti heima vestur í bænum. Hann gat ekki farið heim til sín í hádeginu til þess að njóta fæðis og varð þess vegna að borða annars staðar, og á þessu byggðist þetta samningsatriði.

Nú skal ég ekki fara að þreyta hv. þm. með því að ræða þessi atriði, því að ég er sammála meginkjarna málsins og hann skiptir auðvitað alltaf meginmáli. Ég held mig líka við þá skoðun mína, að menn hafi notað þetta mál sem tilraun til að finna leið inn á Alþ. En til þess hafa aðrir notað aðrar leiðir — ég og aðrir — til að komast þangað af því að við ætluðum okkur það. Við því er heldur ekkert að segja.

Kjarni málsin er sá, að það verður alltaf nóg til þess að deila á alþm. fyrir og það þarf enginn að láta sér detta í hug, að þó að þetta falli fyrir borð, þá finnist ekki nógu mörg atriði til þess að deila á alþm. fyrir, þeir séu óhæfir til sinna starfa o.s.frv. Það fylgir Alþ. Hitt finnst mér, að þegar við alþm. erum sjálfir á þeirri skoðun, að þetta geti rýrt gildi Alþingis í augum þjóðarinnar, þá eigum við ekki að vera að fylgja úreltum reglum. Þess vegna eigum við að breyta þeim. Ég er reiðubúinn til að taka þátt í því, að þetta frv, verði skoðað á þann veg að það sé hægt að losa sig við annmarkana í þessu máli og fara inn á þetta svið um ákvarðanatökuna og bæta ýmsum atriðum við, sem mér fyndist að þyrfti að gera, ef við tökum þetta frv. á þann veg, að það yrði heildarlög um launakjör alþm.