20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. 1. flm. þessa frv. er hér ekki um að ræða nýtt frv., heldur endurflutning á frv. Í rauninni hefur þetta mál komið fyrir Alþ., bæði í umr. og í beinum flutningi, nokkrum sinnum áður. Ég hef því tekið afstöðu til þessa frv, áður. En afstaða mín er sú, að ég er algerlega á móti frv. Ég er fyrst og fremst á móti því vegna þess, að gert er ráð fyrir þeirri meginbreytingu á lögum um þingfararkaup að Kjaradómur ákveði laun alþm. Nú liggur það svo einfaldlega fyrir, að ég er algerlega á móti lögum um Kjaradóm og vil leggja hann niður. Ég hef verið á móti honum frá upphafi og styð þau fjölmennu launasamtök í landinu, sem halda sömu skoðun fram. Og af því að ég vil leggja Kjaradóm niður sem slíkan og trúi ekki á þá skipan, þá trúi ég ekki heldur á hana í þessu tilfelli.

Auk þessa segi ég svo það, að mér finnst í rauninni vera afskaplega smátt af Alþ. að gefast upp, að þora að taka ábyrgð á því að ákveða laun alþm. Ég er á þeirri skoðun, að Alþ. eigi að ákveða laun alþm., setja um þau lagareglur og hver og einn alþm. eigi að hafa kjark til þess að bera ábyrgð á þeirri lagasetningu eins og annarri og hann eigi ekkert að fela sig á bak við það að segja: Ég hef valið nokkra embættismenn til þess að ákveða hver launin ættu að vera hjá alþm.

Það hefur gjarnan komið fram í þessum umr., að allar líkur væru til þess, að þessir útvöldu embættismenn, sem eru í Kjaradómi, mundu ákveða hærri laun til alþm. en alþm. þora að ákveða sér sjálfir. Þetta þykir mér ekki mikil reisn. Ég álít að málið eigi að vera þannig, að Alþ. eigi sjálft að þora að fjalla um þetta mál, ákveða launin, verða þá að sætta sig við að hafa launin eitthvað lægri, ef þorið er ekki meira en svo. Nú um langan tíma hefur Alþ. haft þetta hlutverk, og ég sé ekki minnstu ástæðu til þess að hopa í þessum efnum og allra síst til að fara inn á þá ógæfusamlegu braut að velja fyrst nokkra embættismenn og láta þá síðan úrskurða um launin.

Það er skoðun mín, að þegar Alþ. setti síðast lög um laun alþm., þar sem gengið var út frá því að alþm. hefðu árslaun og það eftir mjög föstum reglum, hafi verið tekið stórt framfaraspor. Í þeim lögum voru þó nokkur ákvæði, sem ég var alltaf andvígur og er jafnandvígur enn, — atriði sem ég tel vera í rauninni hreint hneyksli og sérstaklega hve langan tíma þau eru búin að standa í lögum. Það vekur líka athygli mína, að þeir, sem flytja þetta frv. og hafa flutt það áður, hreyfa ekki við þessum hneykslisatriðum. Þau mega standa áfram. Ég tel orðin „laun alþm.“ eiga við full laun og hef haft um það þau orð æðioft, að ég teldi þau orðin góð laun. Maður verður víst að fara að endurskoða þá skoðun með samanburði við ýmsa nú orðið, hvort þau teljast það öllu lengur. Það var þó skoðun mín að laun alþm. hefðu verið ákveðin allgóð. En þó að búið væri að ákveða alþm. allgóð laun og árslaun, þá stendur það eigi að síður í lögum um kaup alþm., að séu þeir embættismenn hjá ríkinu, séu þeir á öðrum launum hjá sama aðila, ríkinu, eftir að þeir hafa fengið full laun sem alþm., þá skuli þeir halda 2/3 eða 60% af kaupi sínu sem embættismenn hjá ríkinu eigi að síður. Ég hef talið þetta vera algert hneyksli. Ég álít að þeir embættismenn, sem verða alþm., eigi að taka full laun sem alþm., fá laun alþm., en embættislaun þeirra eigi að falla niður um leið. Ég hef hins vegar verið á þeirri skoðun, að vernda ætti slíka embættismenn í sambandi við stöðu þeirra með því að settar væru reglur um að þeir gætu fengið að hverfa að sínu starfi aftur þegar þeir hættu að vera alþm., a.m.k. innan eðlilegs tíma, því að allt annað væri nokkuð hart fyrir þá sem kannske sitja á Alþ. skamman tíma.

Ég held að það viðhorf sé ríkjandi a.m.k. á yfirborðinu, að það sé ekki eðlilegt að ríkið borgi sama manninum tvenn embættislaun. Mundu menn t.d. fallast á það, að einn og sami maður væri t.d. bæði á prestslaunum og á læknislaunum eða hvaða annað embætti sem væri sem væri þannig tvígreitt? En svona er þessu fyrir komið.

Það, sem sérstaklega er athyglisvert. að mínum dómi, er að þeir, sem eru að flytja þetta frv. um að ákveða að Kjaradómur skuli ákveða laun alþm., eru sömu mennirnir og ekki mega heyra það nefnt að breyta reglunni um þessi sérlaun embættismanna. Ég hef flutt um þetta till. á Alþ. Svo oft sem frv, hefur komið fram hef ég flutt till. um að þessum lögum verði breytt þannig að þessi aukalaun embættismanna, sem taka full laun sem alþm., verði felld niður. Þessar till. mínar um að breyta þessu ákvæði hafa nægt til þess að málið hefur stöðvast, þá hafa menn ekki haft lengur áhuga á að leggja málið í vald Kjaradóms, ef embættismennirnir kynnu að missa 60% af prófessoralaunum sínum eða eitthvað annað slíkt, sem þeir hafa haft samhliða. Áhuginn hefur ekki náð lengra. Ég mun nú láta reyna á þetta enn einu sinni í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að það fái að koma hér fram hvort þeir, sem vilja breyta fyrirkomulaginu um ákvörðun á launum þm., vilja þá ekki fallast á till. mína um að breyta lögunum líka á þann hátt, að aftekið verði með öllu að menn verði á þennan hátt á tvennum launum hjá sama aðila, hjá ríkinu. (Gripið fram í.) Já, en ég vil líka taka það fram, að þetta á að mínum dómi við alla þá menn sem starfa hjá ríkinu. Ég vil að maður, sem er á launum hjá ríkinu sem alþm., leggi jafnframt niður alla aðra vinnu hjá ríkinu. Ég hef ekki treyst mér til þess að semja till. mína þannig, að alþm., sem hér er á fullum launum, sé beinlínis bannað að vinna hjá nokkrum öðrum aðila, því að þá værum við komnir með reglur gagnvart alþm. sem ekki gilda um neina aðra. Við bönnum t.d. ekki embættismanni að sinna einhverjum öðrum störfum til hliðar við sitt embætti. Það er ekki gert í dag. Það getur vel verið, að það væru einhver rök fyrir því að taka upp slíkt kerfi og reyna að binda menn þannig að eins við sitt fulllaunaða starf og banna þeim að standa í öðru, en ég sé ekki ástæðu til að banna alþm. það fremur en öðrum. Hitt tel ég óeðlilegt, ef við megum kalla það í þessu tilfelli, að sami vinnuveitandi — þ.e.a.s. ríkið sé að borga aðila, sem hann er búinn að borga full laun, önnur laun fyrir annað fast starf. Þetta hefur verið meginafstaða mín til þess skipulags sem felst í þessu.

Ég er á móti því að skorast á nokkurn hátt undan því að taka ábyrgð á mig af því að ákveða laun alþm., bera ábyrgð á þeim, ef þau þykja of há eða þá fá tilheyrandi þakklæti fyrir að hafa ákveðið launin of lág. Það vil ég að hvíli á herðum alþm. sjálfra eins og hingað til hefur verið, en ekki að þeir fari að velja einhverja sérstaka embættismenn, sem heita kannske kjaradómsmenn, til þess að ákveða sér laun. Ég er á móti því skipulagi og vil — eins og ég sagði — leggja Kjaradóm niður. Ég tel að um eigi að vera að ræða frjálsa samninga á milli aðila yfirleitt í sambandi við launamál, en ekki það skipulag sem kallað hefur fram Kjaradóm.

Það verður varla svo á þetta mál minnst, að ekki sé einnig komið aðeins að öllu umtalinu sem verið hefur um laun alþm. Það er alveg augljóst, að ýmsir menn hafa verið að reyna að slá sig til riddara með því að halda því fram, að alþm, væru jafnvel sérstakir skattsvikarar, þeir ákvæðu sér laun, einhverjar aukalaunabætur, sem þeir stælu síðan undan skatti. Þetta hafa menn bæði mátt heyra og lesa, þó að beinar sannanir séu um að þetta er uppspuni frá rótum. Þetta á enga sannleiksstoð, þó að það liggi fyrir að alþm. hafi talið fram þessar viðbótarlaunagreiðslur sem talað er um og hér á Alþ. hefur verið gerð grein fyrir, því að málið hefur meira að segja gengið til úrskurðar ríkisskattanefndar, sem hefur fellt úrskurð í málinu. Eigi að síður hafa menn lagst svo lágt að halda því fram opinberlega æ ofan í æ, að alþm. séu skattsvikarar. Það er auðvitað vægast sagt ómaklegt að standa þannig að málum.

Það er að sjálfsögðu hægt að deila um hvort þessar aukagreiðslur, þessar svonefndu hliðargreiðslur til alþm., eigi rétt á sér eða ekki. Sumar þessar greiðslur eru nokkru nýrri en aðrar, það er rétt, en flestar þeirra hafa staðið svo lengi sem elstu menn muna. Ég hef verið á Alþ. í 36 ár og allan þennan tíma hefur sá háttur verið á, að ferðakostnaður hefur verið greiddur fyrir alþm. fram og til baka og uppihaldskostnaður í Reykjavík. (Gripið fram á.) Já, kannske það séu 140 ár. Það hefur þá tíðkast talsvert lengur en aldur minn nær yfir. En hvað um það, allan þennan tíma var líka sá háttur á, að húsnæðiskostnaður var greiddur fyrir alþm. af Alþ. Það þótti sjálfsagt og var skylda að Alþ. sæi alþm. fyrir húsnæði hér. Ég hafði látið orð um það falla einhvern tíma til að undirstrika þetta og einnig til gamans, að á þennan hátt varð ég að þola það — ég hef orðað það þannig — að búa á Hótel Borg í 14 ár. Ég var alþm. á þessu tímabili og Alþ. vísaði mér á Hótel Borg og þar varð ég að vera, því að ég átti ekki húsnæði hér, og ég varð að þola það að búa þar í 14 ár. Þetta var vegna þess skipulags, sem var ríkjandi í þessum efnum. Það hafði verið svo frá upphafi, að sjálfsagt þótti að borga húsnæðiskostnað fyrir alþm. utan af landi meðan hann væri staddur á þingi.

Þegar þessi mál voru á þennan hátt skipulögð var mikið um það rætt hér á Alþ.,Alþ. byggði sérstakt húsnæði til þess að komast eitthvað léttar út úr þessu, að yrði byggður sérstakur þingmannabústaður. Það varð ekki úr því. Svo fóru mál að breytast þannig, að fleiri og fleiri þm. utan af landi eignuðust íbúðir hér á Reykjavíkursvæðinu, því að það er í rauninni ekki þægilegt fyrir þá, sem þurfa að vera á Alþ. í 6–7 mánuði á ári, jafnvel lengur, að þurfa að búa á hótelum.

Þegar það skipulag var tekið upp, að kjördæmin í landinu voru stækkuð til muna, stór hlutfallskjördæmi voru tekin upp, t.d. var á því svæði þar sem ég hef verið í framboði slengt saman fjórum kjördæmum, var upp úr því tekin upp sú regla að ætla alþm. í slíkum kjördæmum nokkra fjárhæð á hverju ári í ferðakostnað um kjördæmið. Lengi vel framan af var þetta þannig, að við, sem bjuggum við þetta, gáfum beinlínis reikning yfir hvert okkar ferðalag um kjördæmið, því að það var augljóst mál að þingmennskunni fylgdi geysilega mikill kostnaður af því að ferðast um þessi stóru kjördæmi og sinna umbjóðendum þar að lágmarki til. Þessi greiðsla helst enn, hefur verið allan þennan tíma, en hefur vitanlega breyst frá ári til árs nokkuð með kostnaðinn. Ég hef oft haldið því fram í mínum þingflokki, að ég teldi að algert lágmark til þess að þm. í kjördæmi sinnti sínu þingmannsstarfi sæmilega væri að hann ferðaðist um allt sitt kjördæmi enda á milli a.m.k. tvisvar á ári. Ég tel það algert lágmark, að þetta geri hver þm. Ég býst líka við því að margir þm. geri þetta, auk svo annarra ferðalaga um kjördæmið þarna til viðbótar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þær greiðslur, sem við þm. fáum upp í þennan lið, sem heitir ferðakostnaður um kjördæmi, dugir hvergi nærri fyrir útlögðum aksturskostnaði í þessum efnum.

Ég hef líka bent á að eftir gildandi skattalögum eiga menn rétt á því að draga frá sannanleg útgjöld við að afla sér tekna. Ég hef fengið upplýsingar þeirra sem þar þekkja best til. Þeir segja: Tvímælalaust munduð þið eiga rétt á því að draga frá meiri fjárhæð en sem nemur þessum styrk frá Alþ. af þessum ástæðum samkv. gildandi skattalögum. — En það mun vera rétt, að það hefur verið algengast að skattstjórar hafi farið þannig með þessa greiðslu, að þeir hafi látið þennan styrk, sem veittur hefur verið til ferðalaga um kjördæmið, ganga út og inn eða falla niður. Ekki ætla ég skattstjórum landsins, jafnvel þó einhverjir þm. hafi ekki talið þetta fram slík vinnubrögð, að þeir viti ekki um þetta, svo oft sem það hefur borið á góma. Þá bæri þeim að sjálfsögðu skylda til að telja þetta til tekna — og þá til gjalda eftir sínu mati.

Auðvitað vitum við að bæði embættismenn og starfsmenn ríkisins fá býsna miklar greiðslur í ferðakostnað. Ég hugsa t.d. að fréttamenn hjá útvarpi eða sjónvarpi og öðrum slíkum stofnunum hafi fengið ferðakostnað greiddan — býsna mikinn — ýmist innanlands eða utanlands og ekki verið talið til skattsvika þó þeir teldu hann ekki til launa sinna. Þess vegna er vitanlega engin ástæða til þess að hrópa hér að alþm., þó að þeir hafi fengið þennan ferðakostnað greiddan til og frá þingi eða innan síns kjördæmis eftir þeim reglum sem verið hafa.

Reglurnar um húsnæðiskostnað alþm. hafa að vísu tekið breytingum, eins og ég sagði, á þessum 140 árum sem þær munu hafa gilt, eins og hér hefur verið upplýst. Áður fyrr var það talin algjör skylda, að Alþ. greiddi þann kostnað, sem til félli í sambandi við húsnæði þm. á meðan hann er að þingstörfum. En nú er svo komið að allmargir alþm. — þá þekki ég suma hverja eða veit um þeirra hagi — verða að borga talsvert meiri kostnað af húsnæði sínu hér yfir þingtímann en þeir fá greitt frá þinginu. Að þessu leyti til er þetta lakara en þegar ég kom fyrst á þing. Mér er vel kunnugt um að svona er þetta t.d. í dag með samþingsmenn mína suma úr mínu kjördæmi, að þeir verða hreinlega að borga með sér fyrir húsnæði, fá minna greitt frá þinginu en það húsnæði kostar sem þeir hafa hér yfir þingtímann. En það er rétt, að nú er orðinn sá háttur, að þegar þm. utan af landi eiga orðið húsnæði í Reykjavík fá þeir einnig þessa sömu fastatölu upp í húsnæðiskostnað. Um það atriði má að sjálfsögðu deila, hvernig fara á með. Þeir hafa útvegað sér húsnæði sjálfir.

Það er líka rétt að á síðara stigi málsins var tekinn upp sá háttur að greiða utanbæjarþingmönnum nokkuð upp í dvalarkostnað þeirra hér á meðan á þingi stendur, nokkuð í þá átt sem minnst hefur verið á í þessum umr., upp í beinan kostnað þeirra, fæðiskostnað eða annað, á meðan þeir eru utanbæjarmenn. Þessar greiðslur eru lágar, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt. Mér er ljóst að fyrir þá alþm., sem ekki hafa heimilisaðstöðu hér, eru þessar greiðslur auðvitað langt undir því sem gildir hjá öðrum starfsmönnum, þeir verða að borga með sér. En fyrir þá utanbæjarþingmenn, sem raunverulega eru fluttir í bæinn að meira eða minna leyti, getur þetta verið fullnægjandi. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að stytta ræðu, hinir þingflokksformennirnir munu fara að ókyrrast hvað úr hverju.) Já, ég skil það mætavel og ég ætti að gera það sjálfur þegar ég er minntur á það.

Ég get lokið máli mínu. Ég hef í rauninni gert grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég er á móti því af þeim ástæðum, sem ég hef tilgreint um Kjaradóm, en mér fannst ekki óeðlilegt að ég viki hér nokkrum orðum að því, sem er kannske kveikjan að því að þetta frv. er flutt, en ég tel að þar hafi verið um óréttlátan málflutning að ræða sem ekki byggist á sannindum um það, hvernig þessum málum er fyrir komið.