21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

327. mál, launakjör og fríðindi bankastjóra ríkisbankanna

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki þörf langrar grg. fyrir spurningunni. Nú þegar rætt er um launakjör á landi hér almennt hygg ég að nauðsyn beri til að fá einskonar „stikkprufu“ af því, hversu háttað er kjörum þeirra embættismanna sem einna best er gert við af opinberri hálfu. Til þessa og án þess að gefa á nokkurn hátt í skyn að ég telji að launakjör bankastjóra ríkisbankanna séu of góð, þá valdi ég þá úr til þess arna og spyr hér:

„1. Hver eru laun bankastjóra ríkisbankanna? Hvaða hlunninda njóta þeir annarra? Hver ákveður kjör bankastjóranna, risnu þeirra og hlunnindi og á hvaða forsendum er byggt?

2. Hverjar voru risnugreiðslur ríkisbankanna og í hvaða mynd árið 1977? Hver er bílakostur hinna einstöku ríkisbanka og til hvers er hann notaður?“

Ég bar að vísu fram á síðasta þingi svipaða fsp., en svörin, sem ég fékk þá, voru ekki til þess fallin að upplýsa þetta mál.