21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

327. mál, launakjör og fríðindi bankastjóra ríkisbankanna

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þegar fsp. hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefáns Jónssonar, var lögð fram á Alþ. skrifaði viðskrn, ríkisbönkunum og hefur nú borist svar frá þeim öllum sem ég hyggst lesa. Svar Seðlabankans var á þessa leið:

„Með tilvísun til bréfs yðar, dags. 26. okt. s.l. og sem svar við fsp. Stefáns Jónssonar alþm. til viðskrh. skal eftirfarandi upplýst varðandi launakjör og fríðindi bankastjóra Seðlabankans o.fl.:

1. Í 31. gr. laga um Seðlabanka Íslands segir m.a. svo: „Ráðh. ákveður þóknun bankaráðsmanna. Um laun bankastjóra og annarra starfsmanna bankans svo og eftirlaun fer eftir ákvörðun bankaráðs“. Á fundi bankaráðs Seðlabankans 26. okt. 1975 og með samþykki viðskrh. 5. des. sama ár voru laun seðlabankastjóra ákveðin þau sömu og laun hæstaréttardómara og eru þau nú 652 815 kr. að viðbættum 10% til formanns bankastjórnar. Við ofangreind laun bankastjóra bætist þóknun fyrir setu í bankaráði, sem er hin sama og bankaráðsmanna. Breyting á þóknun bankaráðsmanna var síðast gerð með bréfi viðskrh., dags. 21. maí 1976, og hafa síðan bæst við hana verðlagsuppbætur eftir þeim reglum sem gilt hafa á hverjum tíma, og er hún nú kr. 27 170 á mánuði. Risna seðlabankastjóra hefur nokkur undanfarin ár verið 150 þús. kr. á ári, en var hækkuð á.síðasta ári í 200 þús. kr. Bifreiðahlunnindi hafa verið þau sömu og ráðh. að öðru leyti en því, að bankastjórar aka bifreiðum sínum alfarið sjálfir,“ stendur hér. „Ríkisbankarnir hafa allt frá árinu 1952 greitt öllu starfsfólki sínu árlega launauppbót, sem hefur jafngilt 1/12 árslauna eða desemberlaunum. Greiðslan gengur á móti þeirri yfirvinnu sem getur fallið til við að ljúka nauðsynlegum afgreiðslum og verkefnum dagsins.

2. Á kostnaðarreikning vegna gestamóttöku voru færðar 17.3 millj. kr. á árinu 1977. Er þar einkum um að ræða kostnað við móttöku erlendra nefnda og fulltrúa vegna samninga um lántökur fyrir bankann, ríkissjóð og aðra opinbera aðila, svo og við móttöku fulltrúa alþjóðastofnana auk annarra gesta bankans, innlendra og erlendra. Einnig er hér meðtalinn allur kostnaður vegna fundarhalda svo og ársfundar bankans og reglulegra funda með innlánsstofnunum.

Í eigu Seðlabankans eru í dag eftirgreindar þrjár bifreiðar: Chevrolet Impala, árgerð 1974, Volvo 244, árgerð 1976, Range Rover, árgerð 1978. Einn bifreiðastjóri er í þjónustu bankans og sinnir hann alhliða störfum við akstur. Jafnframt annast almennir starfsmenn sjálfir akstur bifreiðanna, sem einkum eru notaðar í þrennum tilgangi:

a. Til skoðunarferða bankaeftirlitsmanna í innlánsstofnanir víðs vegar um landið.

b. Til seðlaflutninga í hinar 18 seðlageymslur bankans utan Reykjavíkur og til eftirlitsferða endurskoðenda bankans, sem fylgjast með seðlabirgðum í þessum geymslum.

c. Til ýmissa snúninga fyrir bankann, fyrir bankastjórn og vegna gestamóttöku.

Virðingarfyllst,

Seðlabanki Íslands.

Björn Tryggvason.“

Svar Landsbanka Íslands var á þessa leið:

„Hér með sendist yður svar Landsbankans við fsp. Stefáns Jónssonar alþm. um launakjör og fríðindi bankastjóra ríkisbankanna o.

,fl., sbr. bréf yðar, dags. 26. okt. 1978.

1. Samkv. lögum nr. 11 frá 29. mars 1961, um Landsbanka Íslands, ákveður bankaráð laun bankastjóra. Við ákvörðun launa hefur verið tekið mið af ákvörðun Kjaradóms um laun hæstaréttardómara að frádregnum 20 þús. kr. á mánuði. Mánaðarlaun bankastjóra voru 1. nóv. s.l. 631 620 kr. Greidd eru tvöföld laun í des. Fyrir setu á fundum bankaráðs fengu bankastjórar greiddar fyrir nóvembermánuð kr. 27 170. Risna ársins 1978 hefur verið ákveðin 260 þús kr. Bifreiðakjör eru þau sömu og gilt hafa hjá ráðh. án þess þó að um sérstaka bifreiðarstjóra sé að ræða hjá hverjum bankastjóra.

2. Gestamóttaka í reikningum bankans nam árið 1977 22 millj. 282 þús. kr., þar af 16 millj. 789 þús. kr. í Reykjavík, eða sem svarar 0.85% af heildarkostnaði við rekstur bankans á því ári. Kostnaður þessi er í sambandi við móttöku erlendra aðila, sem hingað koma til fundarhalda og í ýmiss konar bankaerindum. Þá er einnig um að ræða kostnað vegna innlendrar gestamóttöku á vegum bankans.

Bílakostur bankans er 11 bifreiðar: R-64: Chevrolet, árgerð 1973, R-906: Peugeot, árgerð 1975, R-3361: Saab, árgerð 1977, R-4387: Volkswagen, rúgbrauð, árgerð 1975, R-30111: Range Rover, árgerð 1978, R5033: Volkswagen, rúgbrauð, árgerð 1978, R-4520: Peugeot, árgerð 1973, R-43112: Range Rover, árgerð 1978, R-2498: Passat, árgerð 1978, X-4223: Peugeot, árgerð 1977, X-3397: Scout, árgerð 1977, eða samtals 11 bílar.

Bifreiðin R–64 er notuð fyrir gesti bankans, og bifreiðin R-906 er notuð fyrir bankastjórn og að nokkru leyti til sendiferða. Aðrar bifreiðar bankans eru notaðar vegna fastra ferða milli afgreiðslustaða bankans í Reykjavík, vegna flutninga á skjölum milli Reykjavíkur, Grindavíkur, Keflavíkur og Sandgerðis, svo og milli Selfoss, Stokkseyrar, Eyrarbakka, Þorlákshafnar og Aratungu. Þá eru þessar bifreiðar, og þá einkum bílarnir R-30111 og R-43112 notaðar vegna afurðaeftirlits um land allt.

Virðingarfyllst,

Landsbanki Íslands.

Jónas H. Haralz.“

Svar Búnaðarbanka Íslands er á þessa leið:

„Rn. hefur óskað upplýsinga um launakjör bankastjóra o.fl. í tilefni fsp. Stefáns Jónssonar alþm. um þau efni á Alþingi. Samkv. því er rn. tjáð eftirfarandi:

1. Laun bankastjóra eru lögum samkv. ákveðin af bankaráði, og í samræmi við núgildandi lög um Búnaðarbanka Íslands frá 1976 þarf samþykki ráðh. Samkv. eldri lögum var mælt svo fyrir, að við ákvörðun launa bankastjóra Búnaðarbankans skyldi tekið mið af launakjörum bankastjóra Landsbanka Íslands. Hefur þeirri reglu jafnan verið fylgt. Í núgildandi lögum er engin slík viðmiðunarregla, en í reynd hafa launakjör bankastjóra ríkisviðskiptabankanna verið ákveðin með samráði við bankaráð þessara banka. Laun bankastjóra Búnaðarbankans í nóv. voru 631 620 kr., og enn fremur fá bankastjórar sömu þóknun og bankaráðsmenn fyrir setu á bankaráðsfundum. Nemur sú greiðsla nú 27 170 kr. á mánuði. Þá fá bankastjórar greitt risnufé, 150 000 kr. á ári, og hefur sú fjárhæð verið óbreytt í nokkur ár. Afnotagjald af síma er og greitt.

Um langt árabil hafa bankastjórar notið sömu kjara og - ráðh. varðandi bifreiðaafnot. Fyrir 1970 lagði bankinn hvorum bankastjóra til bifreið sem var í eigu bankans, en þegar nýjar reglur um bifreiðamál ríkisins voru settar árið 1970 og ríkið lagði ekki lengur ráðh. og ýmsum embættismönnum til ríkisbifreiðar var þess óskað af fjmrn., að hliðstæðar breytingar yrðu gerðar í ríkisbönkunum. Var þá ákveðið af bankaráðum ríkisbankanna að bankastjórar keyptu bifreiðar sínar sjálfir, en fengju greiddan rekstrarkostnað og þar með talda fyrningu, er miðaðist við að aðflutningsgjöld viðkomandi bifreiðar væru fyrnd á þremur árum.

2. Auk risnugreiðslu til bankastjóra og 80% af þeirri risnugreiðslu til aðstoðarbankastjóra nam heildarkostnaður Búnaðarbankans vegna risnu á árinu 1977 kr. 530 412 kr., er sundurliðast þannig: Tóbak 35 1213 kr., móttaka vegna Búnaðarþings 136 979 kr., vegna skákkeppni 10 530 kr, og ýmislegt annað 31 690 kr.

Bankinn á 4 bifreiðar sem notaðar eru til sendiferða milli aðalbanka, Seðlabanka, Reiknistofu, flutningastöðva og útibúa bankans í Reykjavík og á Suðurlandi.

Vonandi verða þessar upplýsingar taldar fullnægjandi.

Virðingarfyllst,

Búnaðarbanki Íslands.

Magnús Jónsson, Stefán Hilmarsson,

Þórhallur Tryggvason.“

Frá Útvegsbanka Íslands barst eftirfarandi svar:

„Í tilefni af fsp. Stefáns Jónssonar alþm. um launakjör og önnur fríðindi bankastjóra skal eftirfarandi upplýst:

1. Mánaðarlaun bankastjóra í dag eru 631 620 kr. auk launa fyrir setu á bankaráðsfundum, sem eru 27 170 kr. á mánuði. Um kaup og rekstur bifreiða gilda sömu reglur og um ráðh. Þá fá þeir og greiddan símakostnað. Í lögum um Útvegsbanka Íslands frá 1962, 13. gr., stendur að bankaráð ákveði laun bankastjóra. Við ákvörðun þessa hefur verið tekið mið af launum hæstaréttardómara að frádregnum 20 þús. kr. og síðan leitað samþykkis viðskrh. Risna fyrir árið 1978 hefur verið ákveðin 260 þús. kr.

2. Kostnaður við gestamóttöku, risnukostnaður, var 1 998 911 kr. árið 1977. Hér er aðallega um að ræða kostnað við móttöku gesta frá viðskiptabönkum erlendum, bankaráðsfundi o.s.frv.

Útvegsbankinn á tvær bifreiðar af gerðinni Volkswagen Golf 1977 og 1978 og eru þær notaðar til skjalaflutninga á milli aðalbanka og útibúa hans á Stór-Reykjavíkursvæðinu og Reiknistofu bankanna í Kópavogi. Þá eru þeir og notaðir í mynt- og seðlaflutninga og matarflutninga frá eldhúsi í aðalbanka til starfsmanna útibúanna.

Að lokum má geta þess, að þeir eru notaðir til eftirlits í útibúum, birgðaeftirlits o.fl.

Virðingarfyllst,

Útvegsbanki Íslands.

Reynir Jónasson.“

Þá hef ég lokið við að svara fsp. hv. þm., en vil taka það fram að lokum, að ég tel óhjákvæmilegt í ljósi þeirra upplýsinga, sem hér hafa komið fram, að öll þessi kjaramál bankastjóra og forvígismanna ríkisstofnana af því tagi verði tekin til endurskoðunar ekki síður en önnur kjaramál, sem nú er rætt um í landinu, og jafnvel miklu frekar. Hér er víða um að ræða fríðindi sem eru af þeim toga, að ég tel eðlilegt að þau væru afnumin, og vil í því sambandi minna á, að á döfinni er af hálfu ríkisstj., eins og fram hefur komið í yfirlýsingum hæstv. fjmrh., frv. um að fella niður þau sérstöku tollfríðindi sem ráðh. hafa til þessa notið vegna bifreiðakaupa.

Ég vænti þess, að fsp. sé svarað þannig að fullnægjandi þyki, en vil að síðustu taka það fram, að á sama þskj. hefur sami hv. þm. borið fram fsp. um það, hversu margar eru nafnlausar bankabækur og hve há upphæð stendur inni á slíkum bókum samtals. Það er unnið að því í viðskrn. og bönkunum að tína þessar upplýsingar saman, tekur eðlilega nokkurn tíma, en ég vænti þess, að fsp. verði svarað hér á hv. Alþ. áður en mjög langur tími líður.