21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

327. mál, launakjör og fríðindi bankastjóra ríkisbankanna

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans við þessari tvíþættu fsp. minni, einnig fyrir þann boðskap hans, að þau atriði, sem lúta að aukagreiðslum og ýmiss konar fríðindum til opinberra starfsmanna og hinna æðstu embættismanna, verði tekin til athugunar mjög bráðlega og einarðlega. Ég hefði að vísu gjarnan viljað að sundurliðaður hefði verið kostnaður Seðlabanka og Landsbanka til gestamóttöku upp á nærri 50 millj. kr. samtals, ætla að þar hafi þessar hv. stofnanir tekið ómak og kostnað af ríkisstj. á sig að verulegu leyti. Og ég vil vænta þess, að gestir þeirra hafi notið vel veitinga og þeirra skemmtana sem hægt er enn í dag að fá fyrir slíka upphæð á Íslandi.