21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

331. mál, útbreiðsla sjónvarps

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Vegna fram kominnar fsp. og svars hæstv. menntmrh. langar mig til þess að taka undir með þeim, sem hér hafa rætt um þessi mál, og þó sérstaklega um það, hve mikilvægt er að þær tekjur, sem fást af umræddum tollum, séu notaðar í dreifikerfi sjónvarpsins. Þá vil ég enn fremur taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að vandamál Ríkisútvarpsins, sérstaklega að því er varðar langbylgjustöðina, hlýtur að koma á borð þm. innan tíðar, enda höfum við, sem sitjum í útvarpsráði, fengið að heyra það hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins, að bráðum nálgist sá dagur að þetta kerfi hrynji algerlega í rúst, og þá er sérstaklega átt við mastrið sem er á Vatnsenda.

Það er, held ég, öllum ljóst, að það er varla hægt að ná því fram hér á landi né annars staðar, að dreifing á sjónvarpi verði 100%. Að sjálfsögðu á að stefna að því, en það tekst sjálfsagt seint, ef nokkurn tíma. En nú er komin sú tækni upp í þessum málum, að hugsanlegt er að Ríkisútvarpið-Sjónvarp geti jafnvel í framtíðinni, ef samningar nást við ýmsa aðila þar um, komið sér upp safni kvikmynda á myndsegulböndum sem verði leigðar þeim sjómönnum sem ekki geta enn sem komið er notið þess á miðunum að horfa á sjónvarp í frítíma sínum.

Í þessum umræðum er vert að minnast á þetta mál og hafa það í huga, og ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. geri það þegar hann hugar að málefnum Ríkisútvarpsins. Auk þess vil ég gjarnan koma því á framfæri, fyrst rætt er um málefni Ríkisútvarpsins, að tími er til þess kominn að einhver stefna sé mörkuð varðandi skólasjónvarp.

Loks ítreka ég það sem kom hér fram um daginn í umr. um Nordsat eða samvinnu Norðurlanda, að með því kerfi gefst kannske kostur á því að ná fram þeirri dreifingu sem að er stefnt, ekki einungis á landinu, heldur jafnframt til þeirra Íslendinga sem eru á miðunum umhverfis landið og eru að færa þjóðinni björg í bú.