21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

331. mál, útbreiðsla sjónvarps

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi upplýsa að n. um skólasjónvarp skilaði áliti. Hún vann hægt, og það kemur í ljós að töluvert vandasamt mál er að finna út hvernig á að standa að slíkum útvarpsrekstri. Um segulbönd til sjómanna var athugað af nefnd. Hún skilaði stuttu áliti um að vandinn virtist e.t.v. mestur í sambandi við höfundaréttarmál. Eru tveir lögfróðir menn að vinna að því máli núna.

Ég vil láta koma fram hér, að ástæðan til þess, að áætlun nefndar, breytt eða ekki breytt, var ekki gerð að áætlun rn., var kannske fyrst og fremst sú, að það eru ákaflega mörg óvissuatriði í sambandi við þessi dreifingarmál, ekki síst tæknileg, bæði varðandi staðhætti og vegna margvíslegra nýjunga sem stöðugt eru að koma í ljós. Einnig var á sínum tíma mikil óvissa um fjármálahliðina, eins og menn heyra nú, að áætlanir hafa ekki staðist, þó að það sé ekki á venjubundinn hátt sem þær hafa farið úr skorðum.

Það kom fram í svörum hæstv. ráðh., að það er unnið á öllum sviðum eins og ráðgert var í áformum í ársbyrjun, og mér sýnist að eftir atvikum gangi undirbúningur undir næsta ár, og var aldrei við öðru að búast.

Ég stóð fyrst og fremst upp til að árétta það sem hér hefur komið fram, að Ríkisútvarpið þarf á öllu sínu að halda á næstunni. Það er viss galli að þessar tekjur skuli koma inn svona ört núna, í staðinn fyrir að dreifast yfir lengri tíma. Þetta þýðir að skiptin úr svarthvítu yfir í lit verða örari en menn höfðu gert ráð fyrir. En sjónvarpið þarf vissulega á öllu sínu að halda.

Ég árétta það sem hér hefur verið sagt um langbylgjustöðina á Vatnsendahæð, langbylgjukerfið, en bæði dreifikerfi sjónvarps og útvarps þarf á miklum peningum að halda á næstunni, fyrir utan það stóra mál sem skellur yfir fyrr en okkur varir, hjá því verður ekki komist. Húsbygging útvarpsins er nokkuð fjármögnuð samkv. lögum. 5% af tekjum stofnunarinnar fara í framkvæmdasjóð, eins og það heitir víst, en álagning gjalda í haust var með þeim hætti, að það leit út fyrir að unnt væri að láta 10% af gjöldunum renna í sjóðinn. Það er ekki lögbundið, en í raun og veru ætti að gera það, og þá er nokkuð vel séð fyrir því máli.

Menn hafa e.t.v. tilhneigingu til þess að klemma að Ríkisútvarpinu eins og fleiru með því að láta það hafa litla peninga til að moða úr. En það er ekki skynsamlegt, held ég, að beita þar aðhaldi á þann hátt einfaldlega að svelta stofnunina. Ég held að það hljóti að hefna sín. Það hefur e.t.v. verið reynt á vissan hátt um tíma og gaf ekki góða raun. Auðvitað þurfum við aðhald þar eins og annars staðar í okkar opinbera rekstri, en ekki á þann hátt.

Ég vil að lokum minna á að þessi stofnun er ekki einasta almenningseign, heldur er hún og þá náttúrlega sérstaklega hljóðvarpið ómetanlegt öryggistæki fyrir þjóðina. Ég held að við verðum að huga vel að því að svelta hana ekki og fylgja því eftir sem gert var af fyrri ríkisstj., að láta tolltekjurnar af tækjunum renna til útvarpsins þó að þessi hnykkur komi á þetta núna, fylgja því eftir á sama hátt og ætla stofnuninni þessar tekjur til sinna nota. Þetta er ekki lögbundið, en það var um þetta samkomulag þá, og ég vona að það verði haldið áfram á sömu braut að því leyti til, þrátt fyrir þann hnykk sem nú hefur orðið í innflutningi litasjónvarpstækja.