21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

334. mál, útgerð Ísafoldar

Fyrirspyrjandi (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 82 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til iðnrh. um olíuleit við Ísland.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að með nýrri þekkingu og nýrri tækni hefur það gerst á síðari árum, að upp hefur komið vitneskja um olíulindir á ýmsum þeim svæðum í veröldinni, þá ekki síst á sjávarbotni, þar sem menn höfðu ekki grunsemdir um að slíkar olíulindir væri að finna. Í þessum efnum er kannske nærtækast fyrir okkur að minnast þess sem gerst hefur við strendur Noregs á síðustu árum. Það er einnig vitað, að á ýmsum þeim svæðum, þar sem ekki liggur þó fyrir nein örugg vitneskja um olíu á sjávarbotni, er engu að síður talið af þeim sem gerst mega vita, að möguleikar kunni að vera fyrir hendi í þeim efnum, að e.t.v. muni rannsóknir leiða í ljós að um olíulindir sé að ræða. Þetta gildir m.a. um viss svæði, vissa hluta af hafsvæðinu í kringum Ísland.

Ljóst er að á allra síðustu árum hefur verið nokkuð fast eftir því leitað af ýmsum erlendum aðilum að fá tækifæri til að hefja olíuleit á hafsvæði við Íslandsstrendur, og það er í tilefni af því sem sú fsp. í 4 liðum, sem ég hef leyft mér að bera hér fram, er fram borin.

Ég hef í huga þá miklu nauðsyn sem á því er að í þessum efnum verði farið með ítrustu gát, þannig að hugsanlegar kannanir á sjávarbotni verði í engu til þess að spilla þeim mikilvægu auðlindum sem okkar fiskimið og lífríki sjávarins við strendur landsins eru. Ég vil í þessum efnum — með leyfi forseta — minna á samþykkt sem gerð var á Náttúruverndarþingi í apríl á þessu ári um þessi mál, vil leyfa mér að lesa hana upp, með leyfi forseta. Hún er á þessa leið:

„Náttúruverndarþing 1978 vekur athygli stjórnvalda á þeim hættum sem eru samfara olíuborun við strendur Íslands og kynnu að reynast afdrifaríkar fyrir lífkerfi sjávarins, þ. á m. fiskstofna innan þeirrar lögsögu sem við höfum tekið að okkur að vernda og berum því ábyrgð á gagnvart umheiminum. Þingið minnir á að olíulindir eru endanlegar auðlindir hér sem annars staðar, en fiskur og aðrar sjávarnytjar eru verðmæti sem geta varað um alla framtíð ef rétt er á málum haldið. Þingið telur nauðsynlegt að farið verði með ítrustu varúð í olíuleit við Ísland og ítarleg könnun fari fram á líklegum áhrifum olíuborunar, hvort heldur er til leitar eða vinnslu, á lífríki sjávarins og þjóðfélag okkar, áður en til greina kemur að veita leyfi til hennar. Verði þar stuðst við reynslu sem þegar er fengin, m.a. í grannlöndum okkar. Þingið leggur einnig áherslu á að full aðgát verði höfð í olíuleit og borunum og slík leit verði algerlega á vegum innlendra aðila.“

Hér lýkur tilvitnun í samþykkt Náttúruverndarþingsins. Ég vil að svo mæltu lesa upp það sem segir í hinni prentuðu fsp. til iðnrh. sem ég hef leyft mér að bera fram í 4 liðum, en hún er á þessa leið:

„1. Hvaða samningar hafa verið gerðir af íslenskum stjórnvöldum varðandi olíuleit á hafsvæðum við Ísland?

2. Á hvaða lagaheimildum eru slíkir samningar reistir?

3. Hefur verið metin sú hætta, er olíuleit og olíuvinnsla gæti haft í för með sér fyrir lífríki sjávar, m.a. fyrir fiskimiðin við landið?

4. Á hvern hátt hyggjast íslensk stjórnvöld fylgjast með umræddum rannsóknum?“