21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

334. mál, útgerð Ísafoldar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil að það komi fram ákveðið, að ég tel fulla ástæðu til að fara í þá úttekt sem hv. 3. þm. Vestf. nefndi um þær hættur sem fylgja kunna borunum í sambandi við olíuleit. Það er augljóst mál, að ef svo færi að olía fyndist á íslenskum hafsvæðum, eða líkur réttara sagt taldar á því, að olía væri í setlögum innan íslenskrar lögsögu, þá mundi þrýstingur aukast mjög á að fara út í frekari könnun á þeim málum og þá með borunum.

Hitt er svo annað mál, að enn sem komið er liggur ekki fyrir tækni til þess að vinna olíu á því dýpi sem helst eru nú taldar líkur á að setlög með olíu gæti verið að finna á íslenskum hafsvæðum, þannig að málið er kannske alls ekki nálægt okkur í tíma. Þótt sá vottur hafi fundist sem ég gat hér um, við kannanir sovéskra aðila 1973, tel ég að hann hafi verið það veikur, að ekki sé mikið á honum byggjandi, og sennilega er hann utan við lögsögu okkar, þó ég hafi ekki athugað það sérstaklega.

Þrátt fyrir þetta er hins vegar sjálfsagt að afla upplýsinga um þessi mál, og ég vil undirstrika það, að aðstæður á hafsvæðum við Ísland og norður af landinu eru að sjálfsögðu sérstæðar og talsvert annars eðlis en t.d. í Norðursjónum, þar sem Norðmenn og fleiri þjóðir standa fyrir olíuvinnslu.

Varðandi ræðu hv. þm. Gunnars Thoroddsens hef ég helst við meðferð málsins fram að þessu að athuga, að ekki skyldi áður en í þetta var ráðist hafa farið fram umræða um stefnumörkun í sambandi við þessi mál, — stefnumörkun sem mér finnst eðlilegt að Alþ. fjalli um áður en ríkisstj. taki ákvarðanir í málum af þessu tagi. Ég tel að hér sé um svo viðkvæm og jafnframt mjög þýðingarmikil mál að ræða, að eðlilegt sé að fyrir liggi víðtæk stefnumörkun af hálfu stjórnvalda sem byggist á skoðanaskiptum sem fram fari hér á Alþingi.

Ég tel að við eigum ekki að láta rannsóknarstofnanir, svo ágætar sem þær annars eru og þeir sem þar starfa, ráða ferðinni í þessum efnum. Áður en till. þeirra eru metnar þarf að fara fram pólitískt mat á því sem verið er að gera.

Ég vil einnig benda á það, að ekki hefur verið tryggt enn sem komið er fjármagn til þeirrar úrvinnslu og gagnavörslu sem þarf að fylgja í sambandi við athuganir af þessu tagi. Orkustofnun hefur sótt um fjárveitingar í þessu skyni. Alþ. hefur enn ekki afgreitt það mál.

Ég vil að endingu alveg sérstaklega leggja á það áherslu, að mörkuð verði skýr heildstæð stefna um landgrunnsrannsóknir á grundvelli laga þar að lútandi, nr. 17/1969. Slík reglugerð hefur enn ekki verið sett þótt lögin hafi verið þetta lengi í gildi. Ég tel að það sé fyllilega kominn tími til að taka á því máli og það tengist umr. sem hér hefur þegar farið fram á hv. Alþ. fyrir ekki mjög löngu í sambandi við landgrunnið og réttindi okkar yfir landgrunninu og hugsanlegum svæðum sem utan við það liggja.