21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

89. mál, Vesturlína

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hér er fsp. til hæstv. iðnrh. um Vesturlínu. Hér er um að ræða þátt í orkumálunum sem hefur verið mjög fyrirferðarmikill á undanförnum árum og ein af hinum þýðingarmestu framkvæmdum í orkumálum Íslands, þ.e.a.s. lið í því að tengja landið þannig að það verði eitt samveitusvæði. Á undanförnum árum hefur verið unnið stórt átak í þessu efni og hefur verið miðað að því, að tengja landshlutana alla saman við aðalorkuveitukerfi Suðvesturlands, þ.e.a.s. tengja Norðurland, Austurland og Vestfirði saman við þetta svæði, þannig að þá verði kominn grundvöllur að því að allt landið sé eitt orkuveitusvæði. Þegar er lokið Norðurlínu, svo sem kunnugt er, gert er ráð fyrir að Austurlína komi í gagnið um næstu áramót, og unnið hefur verið við lagningu Vesturlínu á þessu ári. Og þessi fsp. fjallar um Vesturtínu.

Vesturlínan er ekki einungis þýðingarmikill þáttur frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, heldur varðar Vesturlínan miklu máli Vestfirði, það fólk sem býr á Vestfjörðum. Nú er það svo, að árið 1977, á s.l. ári, var stofnað sameignarfélag ríkis og sveitarfélaganna á Vestfjörðum, Orkubú Vestfjarða, til þess að hafa það verkefni að annast orkumál Vestfjarða. Stofnun þessa fyrirtækis var nýjung á margan hátt, m.a. vegna þess að þetta er eina orkufyrirtæki landsins sem hefur það hlutverk að fjalla um orkumál hver svo sem orkugjafinn er.

Við stofnun þessa fyrirtækis voru nokkrar höfuðforsendur sem Vestfirðingar settu fyrir stofnun þessa fyrirtækis. Það var í fyrsta lagi, að fullnægt væri orkuþörf Vestfirðinga með innlendum orkugjöfum, í öðru lagi, að sambærilegt orkuverð væri á Vestfjörðum og annars staðar á landinu, og í þriðja lagi, að Orkubúinu væri tryggður traustur rekstrargrundvöllur. Það þurfti að huga að mörgu í þessu sambandi, og það var gert þegar við stofnun fyrirtækisins. Athygli manna beindist sérstaklega að því, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að fullnægja orkuþörf Vestfjarða með innlendum orkugjöfum. Ekki var kostur þess að gera það með því að reisa vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum, vegna þess að orkuskorturinn var þegar orðinn og fyrirsjáanlegt að hann yrði svo mikill á næstu árum að það hefði verið allt of seinvirk leið. Þess vegna beindist hugur manna að því að leggja áherslu á að tengja Vestfirði við aðalsamveitukerfi landsins. Því var það að gefin voru fyrirheit af hálfu ríkisvaldsins um að lokið yrði lagningu Vesturlínu fyrir árslok 1979. Þetta var ein af meginforsendunum fyrir því, að Vestfirðingar bundust samtökum með ríkinu um stofnun Orkubús Vestfjarða.

Það má fara mörgum orðum um það, hve þýðingarmikil þessi framkvæmd er, og skal ég ekki gera það, enda takmarkaður tími sem ég hef til umráða. En ég vil aðeins vekja athygli á því, hvaða þýðingu það hefði nú ef svo kynni að fara að ekki yrði staðið við fyrirheit, sem Vestfirðingum voru gefin við stofnun Orkubús Vestfjarða, að línan yrði fullgerð í árslok 1979. Það þýðir það, að Vestfirðingar eiga ekki annars úrkosta en að auka framleiðslu rafmagns með dísilvélum. Vita allir hversu hagkvæmt eða réttara sagt óhagkvæmt það er og hversu óviðunandi er að nota slíkt rafmagn til upphitunar húsa. Það er þess vegna raunverulega um stöðvun í þessu máli að ræða á Vestfjörðum ef ekki verður staðið við þetta fyrirheit nema með því að Orkubúið fái aðstöðu til þess að afla sér dísilvéla, margra slíkra véla, með ærnum kostnaði og reka þær. En olíukostnaður á árinu 1980 undir þessum kringumstæðum mundi nema 670 millj. kr. fyrir Orkubú Vestfjarða miðað við verðlag í okt. í ár.

Af þessu má nokkuð marka hversu mjög þetta mál er þýðingarmikið, ekki einungis til þess að tryggja Vestfirðingum innlenda orku, heldur og til þess að tryggja rekstrargrundvöll fyrir Orkubúið ef það á að standa við það fyrirheit sem gefið var og verður að standa við, að orkuverðið verði sambærilegt við það sem gerist annars staðar í landinu. Það er því ekki að ófyrirsynju, að ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. um hvað þessari framkvæmd líði. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram, herra forseti, svo hljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh:

„Hvað líður framkvæmdum við háspennulínu frá Hrútatungu í Hrútafirði að Mjólká í Arnarfirði og tengingu Vestfjarða við aðalraforkukerfi landsins fyrir árslok 1979, svo sem ráð var fyrir gert við stofnun Orkubús Vestfjarða?“