21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

89. mál, Vesturlína

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson ber hér fram fsp. varðandi Vesturlínu sem ég mun leitast við að svara.

Hann spyr hvað liði framkvæmdum við háspennulínu frá Hrútatungu í Hrútafirði að Mjólká í Arnarfirði og tengingu Vestfjarða við aðalraforkukerfi landsins fyrir árslok 1979, eins og ráð hafi verið fyrir gert við stofnun Orkubús Vestfjarða.

Ég mun fyrst svara þessari fsp. í nokkrum orðum, en tel auk þess nauðsynlegt að rekja aðalatriði úr forsögu málsins til glöggvunar fyrir hv. alþm.

Svar mitt við fyrri lið fsp. er þannig:

Samkvæmt lánsfjáráætlun 1978 eru áætlaðar 408 millj. kr. til framkvæmda við Vesturlínu, Í árslok er gert ráð fyrir að lokið verði við að reisa staura á kaflanum Hrútatunga–Gilsfjörður. Pantað hefur verið efni í aðveitustöðvar í Hrútatungu, við Glerárskóga og við Mjólká.

Um síðari lið fsp. er þetta að segja:

Ekki er unnt að ljúka tengingu Vesturlínu við samveitusvæði Vestfjarða fyrir árslok 1979, en iðnrn. vinnur að því, að unnt verði að ná endum saman haustið 1980. Á árinu 1979 er gert ráð fyrir að Dalir og Austur-Barðastrandarsýsla svo og Strandasýsla geti tengst landskerfinu. til þess að unnt sé að tengja Vesturlínu við kerfi Mjólkárvirkjunar þarf að bæta á árinu 1980 746 millj. kr. við það fé sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1979, en það er með 1313 millj. kr., þannig að alls verði varið í þessu skyni á árinu 1979 2 milljörðum og 59 millj. kr. og síðan um 1800 millj. kr. árið 1980. Er þá miðað við áætlun Rafmagnsveitna ríkisins sem gerð var í síðasta mánuði og miðast við áætlað verðlag á árinu 1979.

Varðandi forsögu málsins og núverandi stöðu þess vil ég segja eftirfarandi: Í stofnsamningi fyrir Orkubú Vestf. segir m.a.:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að Orkubúið njóti sömu fyrirgreiðslu ríkisins og önnur orkufyrirtæki vegna hliðstæðra framkvæmda, svo sem varðandi rannsóknir, sveitarafvæðingu, tengingu við aðalorkukerfi landsins, aðflutningsgjöld og söluskatt og aðgerðir til að mæta tímabundnum greiðsluerfiðleikum.“

Á stofnfundi Orkubús Vestfjarða 28. ágúst 1977 gerði iðnrh. m.a. svofellda bókun varðandi Vesturlínu: „Iðnrh. hefur falið Rafmagnsveitum ríkisins að hefja undirbúning og vinna að lagningu svonefndrar byggðalínu eða Vestfjarðatínu frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun í Arnarfirði. Línan verði lögð um Dalasýslu, með úttaki í grennd við Búðardal, yfir Gilsfjörð og í Króksfjarðarnes, með úttaki fyrir Þverárvirkjunarsvæðið, og síðan í Mjólkárvirkjun. Í samræmi við þetta hafa Rafmagnsveiturnar og iðnrn. gert till. til fjárlaga 1978 að Vestfjarðalína verði lögð á árunum 1978 og 1979 og verði tekin í notkun haustið 1979. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður línunnar verði um 2500 millj. kr. án úttaks fyrir Þverárvirkjunarsvæðið sem gert er ráð fyrir að komi síðar.“

Við undirbúning fjárlaga ársins 1978 gerðu Rafmagnsveitur ríkisins till. um fjárútvegun til línunnar að upphæð 639 millj. kr, og til aðveitustöðva 54 millj, kr., eða samtals 693 millj. kr. Til að ljúka línunni og tengja hana árið 1979 hefði samkv. þeirri áætlun þurft 1744 millj. kr. Sú áætlun var byggð á verðlagi í maí 1977. Samkv. lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár eru áætlaðar 408 millj. kr. til Vesturlínunnar eða 285 millj. kr, lægri upphæð en í upphafi var gert ráð fyrir í till. Rafmagnsveitnanna. Miðaðist þessi fjárhæð við að hægt væri að leggja línuna frá Hrútatungu að Glerárskógum í Dölum og áfram að Gilsfirði og að gengið yrði frá pöntun aðveitustöðva í Hrútatungu, Gilsfirði og Mjólká, en afgreiðslufrestur á efni til aðveitustöðva er yfirleitt á annað ár. Á þessu ári verður sem fyrr segir lokið við að reisa staura í línuna frá Hrútatungu að Gilsfirði.

Vegna undirbúnings fjárlaga fyrir árið 1979 gerðu Rafmagnsveiturnar till. um fjárútvegun til línunnar og tilheyrandi aðveitustöðva að upphæð 3 milljarðar 855 millj, kr. með hliðsjón af yfirlýsingu fyrrv. iðnrh. um að línan skyldi tengjast árið 1979. Auk þess var talið að útvega þyrfti 200 millj. kr. viðbótarfé til framkvæmda árið 1978, ef hægt ætti að vera að ljúka línulögninni árið 1979, og var þar um að ræða viðbótarkostnað vegna flýtingar á línulögninni. Af hálfu Rafmagnsveitnanna var lögð áhersla á að tryggja yrði fjármagn og ganga frá pöntun á efni þegar á síðasta sumri ef mögulegt ætti að vera að ljúka lagningu línunnar árið 1979.

Niðurstaða Rafmagnsveitnanna í bréfi til fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem dagsett er 10. ágúst s.l., er svo hljóðandi:

„Minnstu tafir á afgreiðslu fjármagns til verkefnisins samkv. framangreindri áætlun svo og óeðlilegar tafir vegna veðurs, verkfalla og þess háttar mundu raska henni á þann hátt að línan yrði ekki tilbúin fyrr en sumarið 1980. Vegna hins stutta framkvæmdatíma á hluta línunnar, þ.e. Þorskafjörður — Mjólká og vegna þeirra erfiðleika, sem við höfum reynt hvað varðar tímanlega fjármögnun verkefna, teljum við rétt að skipta framkvæmdinni á tvö ár.“

Fyrrv. iðnrh. mun hafa lagt á það ríka áherslu að útvegað yrði fjármagn til línunnar fyrir næsta ár til að hægt væri að tengja hana í samræmi við fyrirheit það, sem hann gaf á stofnfundi Orkubús Vestfjarða, en tillögur hans fengu ekki hljómgrunn í fjmrn.

Í drögum þeim, sem gerð höfðu verið að fjárlagafrv. fyrir stjórnarskipti, var áætlað að veita 1313 millj. kr. til línulagningarinnar á næsta ári, en sú fjárhæð mun duga til að tengja Dali og Strandasýslu við landskerfið.

Eftir að ég kom í iðnrn, óskaði ég eftir grg. frá Rafmagnsveitum ríkisins um æskilega tilhögun framkvæmda við Vesturlínu, en þá var sýnt að framkvæmdalega séð væri útilokað að ljúka lagningu línunnar á næsta ári. Svar Rafmagnsveitnanna lá fyrir 6. okt. s.l. og segir þar m.a.:

„Ljóst er nú, að ekki er hægt að ljúka framkvæmdum við línuna á árinu 1979, þ.e. hluta línunnar Þorskafjörður — Mjólká, þar sem ákvörðun um þetta var ekki tekin í tíma. Til þess að hægt væri að gera viðeigandi ráðstafanir hefði ákvörðun þurft að liggja fyrir strax upp úr mánaðamótunum ágúst–september. Jafnframt leggja Rafmagnsveiturnar til að lagningu Vesturlínu verði lokið á árinu 1980. Til þess að svo megi verða þarf að koma til fjármagn sem nemur 746 millj. kr. á næsta ári í viðbót við 1313 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., þannig að árið 1979 verði fjáröflun til línunnar 2059 millj. kr. Árið 1980 þarf þá að gera ráð fyrir 1796 millj. kr. til að ljúka línunni, og er heildarkostnaður við verkið allt samkv. þessu ásamt háspennusíma áætlaður 4 milljarðar 263 millj. kr. Rétt er að fram komi að Rafmagnsveiturnar áætla að sparnaður Orkubús Vestfjarða í dísilorkuvinnslu milli áranna 1980 og 1981 nemi um 300 millj. kr., ef línan tengist haustið 1980 í stað 1981, og raunar talsvert meiri eða 400–500 millj, kr., ef ekki verði stöðvuð aukning rafhitunar á svæðinu uns tenging við landskerfið er komin á.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi hér raunar hærri tölur, sem miðast við það að gert væri ráð fyrir örari húshitun væntanlega fram á árið 1980 en Rafmagnsveiturnar leggja til grundvallar í sínu mati.

Iðnrn. hefur lagt til að fjármögnun framkvæmda við línuna verði hagað þannig, að unnt verði að tengja hana árið 1980, en til þess þarf, eins og tvítekið hefur verið, 2059 millj. kr. í fjárveitingu á næsta ári og um 1800 millj. kr. á árinu 1980, miðað við áætlað verðlag á árinu 1979. Til þess að ljúka línunni á árinu 1979 hefði þurft að útvega alls 3855 millj. kr., sem er tvöföld sú upphæð sem samkv. fjárlagafrv. er áætluð til framkvæmda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða til samans.

Hér er vissulega um að ræða kostnaðarsama framkvæmd en þýðing hennar fyrir öryggi Vestfjarða í raforkumálum og afkomu Orkubús Vestfjarða er ótvíræð. Því er það nú stefna iðnrn., að leggja beri áherslu á að koma þessu verki í höfn á næstu tveim árum. Endanlega mun það svo ráðast við afgreiðslu lánsfjáráætlunar fyrir næsta ár, hvaða stefna verður tekin í þessu mikilsverða máli.