21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

89. mál, Vesturlína

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kom í svari hæstv. iðnrh: var sú upphæð, sem hann nefndi, tekin inn í framkvæmdaáætlun ríkisstj. fyrir þetta ár til Vesturlínu, og jafnframt var gefið fyrirheit um að framkvæmd við Vesturlínu yrði lokið á árinu 1979. Þessi afgreiðsla átti sér ekki stað fyrr en rétt fyrir jól á s.l. ári. Samt var hægt að panta efni til þessarar línu, staura sem unnið var að í sumar, þó að væri kominn desembermánuður. Því gef ég lítið fyrir fullyrðingar Rafmagnsveitna ríkisins í þeim efnum, að það hafi ekki verið tími til að panta bæði staura og annað efni til Vesturlínu til að ljúka framkvæmdum á árinu 1979. Í sambandi við þann niðurskurð, sem gerður var þegar þessi byggðalína var tekin á áætlun á s.l. ári, lýstu Rafmagnsveitur ríkisins því yfir, að það væri tæknilega hægt að framkvæma byggðalínuna að fullu og öllu á árinu 1979.

Í yfirliti um fjárlagafrv. fyrir árið 1979 frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem lagt var fyrir fyrrv. ríkisstj. á síðustu fundi hennar, var gert ráð fyrir að framlag í B-hluta fjárlaga til byggðalína yrði 4 milljarðar 533 millj. kr., þar af 3908 millj. kr. vegna Vesturlínu, með vísun til viljayfirlýsingar ríkisstj. um þessi mál. Það breytir því ekki, hvað sem sagt er varðandi pantanir, að þessi viljayfirlýsing lá fyrir, og það er þá núv. ríkisstj. sem hefur breytt frá fyrri ákvörðunum í þessum efnum.

Ég geri ekkert úr þeim fullyrðingum sérfræðinga Rafmagnsveitna ríkisins, að tæknilega sé ekki hægt að ljúka þessu verki. Það er þá af peningaástæðum einum saman, ef ekki er hægt að ljúka því. Og þá komum við að því, að ef það er fullur ásetningur hæstv. ríkisstj. að ljúka ekki þessari byggðalínu á árinu 1979, eins og fyrri ríkisstj. hafði ætlað sér, þá verður Orkubúið fyrir svo miklum skaða að það mun varla fá undir honum risið.

Eins og fram hefur komið í viðtölum orkubússtjórnarinnar við hæstv. iðnrh., er talið, ef seinkun línunnar á sér stað til ársloka 1980 eða hausts 1980, að það muni hafa um 342 millj. kr. kostnaðarauka í för með sér fyrir Orkubúið. Þess vegna er það auðvitað skýlaus krafa Vestfirðinga, að flutningur orku um Vesturlínuna hefjist ekki síðar en 1. okt. eða 1. nóv. 1979. Ef þetta verður skorið niður frá þeim frumdrögum, sem lágu fyrir á síðasta fundi fyrrv. ríkisstj., ber ríkisvaldinu að bæta Orkubúi Vestfjarða þann kostnaðarauka er verður vegna seinkunar á lagningu Vesturlínu. Ég fyrir mitt leyti er algerlega mótfallin því að seinka byggingu þessara Vesturlínu, en atkv. ráða hér á þingi í þeim efnum. En ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvernig ætlar hann og iðnrn. að bregðast við þeim vanda, ef hann ætlar að framkvæma það sem eftir er við lagningu Vesturlínu á tveim árum? Hvernig ætlar hann að bregðast við þeim vanda sem Orkubúinu verður skapaður vegna stórfellds kostnaðarauka? Hefur hann till. um það að bæta Orkubúinu og Vestfirðingum upp þann kostnaðarauka frá ríkinu, annaðhvort í fjárlögum eða með öðrum hætti?