21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

89. mál, Vesturlína

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Á þeim örstutta tíma, sem ég hef til umráða hér, er ekki hægt að fara mörgum orðum um það ástand sem ríkir í raforkumálum á Vestfjörðum, en satt að segja er það ákaflega slæmt. Ég vil harma það mjög, að svo skuli nú horfa að ekki virðist talið unnt að standa við það loforð sem á sínum tíma var gefið um að ljúka við byggingu Vesturlínu á árinu 1979. En ég vil undirstrika það alveg sérstaklega, að það lá fyrir í skjalfestum gögnum frá stjórn Rafmagnsveitna ríkisins strax í ágústmánuði í sumar, að ef ekki væri gengið frá pöntunum til þessara miklu framkvæmda fyrir ágústlok og fjármagn tryggt, þá væri ekki tæknilega unnt að dómi Rafmagnsveitna ríkisins að ljúka við verkefnið á árinu 1979. Þetta liggur fyrir skjalfest. Þrátt fyrir það stóðu mál þannig við stjórnarskipti 1. sept., að engar pantanir höfðu verið gerðar, og enda þótt ég efist ekki um einlægan vilja fyrrv. iðnrh., Gunnars Thoroddsens, í þessum efnum, þá lá það einnig fyrir að ekki var um neina fjármagnsútvegun að ræða sem dugað hefði getað til þess að ljúka verkefninu eins og lofað hafði verið.

Ég hygg því að málið hafi verið á því stigi við stjórnarskiptin, að það hafi í raun og veru þá þegar verið tapað ef miða átti við upphafleg áform um að ljúka byggingu Vesturlínu á árinu 1979. Og ég vil leyfa mér að láta það í ljós, að þegar ákveðið var að verja aðeins 400 millj. rúmum til þessa verkefnis við fjárlagaafgreiðslu þessa árs, 1978, þá var sú upphæð svo lág að það var ærið mikið sem þurfti til, ef takast átti að ljúka verkinu 1979 þrátt fyrir svo lága fjárveitingu. Það hefði þó sjálfsagt verið unnt, ef menn hefðu hafist handa um pantanir í tíma á s.l. sumri, en það var ekki gert.

Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel að þarna hafi verið um slíkt loforð að ræða, sem upphaflega var gefið af fyrrv. ríkisstj., að stjórn Orkubús Vestfjarða og Vestfirðingar almennt hafi haft fulla ástæðu til að treysta því. Og ég vil taka það fram, að ég tel að með tilliti til þessa loforðs, sem gefið var þá, verði að ætlast til þess mjög alvarlega af hæstv. núv. ríkisstj., að hún geri fjármálalegar ráðstafanir til þess að auðvelda Orkubúi Vestfjarða að komast yfir þann mikla kostnaðarauka sem óhjákvæmilega hlýtur að verða vegna aukinnar dísilvélakeyrslu og dísilvélanotkunar á árinu 1980, ef svo fer að lögn línunnar seinki í samræmi við það sem nú horfir og fram hefur komið hjá hæstv. iðnrh. Þarna tel ég, að nauðsyn beri til að ríkisvaldið komi til með ákveðið liðsinni.

Tími minn er útrunninn, en ég vil aðeins, áður en ég hverf úr ræðustól, vekja athygli á því, hversu gífurlega mikið misrétti ríkir milli hinna ýmsu landshluta hvað varðar raforkuverð, eins og mál standa í dag. Ég vil minna á það, að skv. verðlagningu 1. okt. s.l. kostaði kwst. frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur til heimilisnotkunar 19.80 kr., en á sama tíma kostaði kwst. frá Orkubúi Vestfjarða 34.20 kr., og ef miðað er við orkusölu til vélanotkunar er munurinn hlutfallslega enn meiri. Í þessum efnum þarf að sjálfsögðu að stefna að jöfnun raforkuverðs. Hvað varðar Orkubú Vestfjarða skiptir ákaflega miklu máli í þeim efnum, að Vesturlínan komist í notkun hið allra fyrsta, og fari svo, að það takist ekki á næsta ári, ber að leggja ofurkapp á að það verði þó a.m.k. á árinu 1980. Og ég vil ljúka máli mínu með því að minna á þá till. til þál., sem ég hef leyft mér að leggja fram hér á hinu háa Alþ. ásamt hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, en hún felur í sér áskorun á ríkisstj. að gera nauðsynlegar ráðstafanir til jöfnunar á rafmagnsverði frá almenningsveitum hið allra fyrsta.