21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

89. mál, Vesturlína

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í 1. gr, sameignarsamnings milli ríkisstj. Íslands og sveitarfélaga á Vestfjörðum um stofnun Orkubús Vestfjarða segir að samningurinn sé gerður á þeim meginforsendum:

1. Að fullnægt verði orkuþörf Vestfirðinga með innlendum orkugjöfum. Það þýðir á mæltu máli, að Vesturlína verði lögð og nánar tímasett á árinu 1979.

2. Að Vestfirðingar búi við sambærilegt orkuverð og aðrir landsmenn.

3. Að fyrirtækið hafi traustan rekstrargrundvöll.

Ég verð að játa að svar hæstv. iðnrh. við framlagðri fsp., þar sem fram kemur að ekki verður úr því sem komið er staðið við skuldbindingu stjórnvalda varðandi stofnun þessa fyrirtækis, hlýtur að valda öllum Vestfirðingum stórkostlegum vonbrigðum. Um leið og það liggur ljóst fyrir að ekki verði staðið við lagningu byggðalínu, þá fylgir því að Vestfirðingar muni fyrirsjáanlega ekki búa við sambærilegt orkuverð og aðrir landsmenn. Það er nú til jafns við það hæsta sem þekkist,í landinu. Í annan stað hlýtur þriðja meginforsendan að raskast um leið, vegna þess að sá kostnaðarauki, sem Orkubú Vestfjarða verður fyrir af þessum sökum, er ekki upp á nokkur hundruð milljóna. Ef við göngum út frá þeirri forsendu, að Orkubúið framfylgi fyrirætlunum sínum um heimildir til húshitunar, og gerum ekki ráð fyrir, að línan verði tengd fyrr en í árslok 1980, þá er hér um að ræða 1 milljarð kr. í kostnaðarauka, sem hlýst af því að ekki verður staðið við upphaflega skuldbindingu. Meginkrafan er þess vegna sú, að sá reikningur verði greiddur af þeim aðilum sem þessar skuldbindingar tóku á sig, ef þeir vilja reyna að standa við afleiðingar þess að skuldbindingin hefur brugðist.

Um það er deilt hér, hvernig á þessu standi og hvort hér sé um að ræða að þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við hafi legið ljóst fyrir að það hafi verið tæknilega ógerlegt að standa við umrædda skuldbindingu. Fram hafa verið lagðar upplýsingar um till. sem hafi legið fyrir á síðasta ríkisstjórnarfundi fráfarandi ríkisstj., þar sem gert var ráð fyrir að staðið yrði við þessar skuldbindingar. Ég vil upplýsa það, að á fundi fjvn. í morgun svaraði Kristján Jónsson forstjóri Rafmagnsveitna ríkisins því til aðspurður, að ef það hefði legið fyrir um mánaðamótin ágúst-september s.l., að fjármögnun væri fyrir hendi, þá hefði svar hans verið það, að þetta hefði verið tæknilega gerlegt. Þess vegna vil ég fá upplýst í þessum umr. nákvæmlega hvenær það gerðist, að fjárhagslegum forsendum þessa máls var breytt.

Það er að vísu sagt sem svo, að ekki hafi legið fyrir eiginlegt fjárlagafrv. Ég hef hér afrit af því skjali fjárlaga- og hagsýslustofnunar sem vitnað hefur verið til, þar sem greinilega kemur fram, að það er tillaga stofnunarinnar að gera ráð fyrir alls 3 milljörðum 980 millj. kr. í þetta verkefni, og vitnað til skuldbindingar og viljayfirlýsingar ríkisstj. Þetta er svo þýðingarmikið mál, að ég óska eindregið eftir að fá það nákvæmlega upplýst hvar og hvenær og af hverjum sú ákvörðun var tekin að breyta þessum fjárhagslegu forsendum. (Gripið fram í: 28. ágúst.) Það var 28. ágúst.

Að lokum vil ég aðeins leggja á það áherslu, að ég trúi því ekki að óreyndu að hæstv. ráðherrar, hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh., sem báðir eru þm. landsbyggðarkjördæmis sem hefur orðið að búa við alvarlegan orkuskort, þó að vonir standi til að verulega hafi úr ræst nú að undanförnu, taki þátt í því, að hlutur Vestfirðinga, þar sem ástandið er nú langverst, verði fyrir borð borinn. Ég vil einnig taka það fram, að okkur er fullkomlega ljóst, að nú verður að gæta mikillar aðhaldssemi í útgjöldum ríkisins. En hér er um að ræða mál sem bæði er bundið ótvíræðum skuldbindingum af hálfu stjórnvalda gagnvart þessum landsfjórðungi og fyrirtæki þar og algjört forgangsmál Vestfirðinga.