21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

89. mál, Vesturlína

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að koma inn í þessa umr. aftur og greina frá ýmsum þáttum í sambandi við þetta mál.

Ég skil ofurvel að þm. Vestfirðinga komi hér upp og tjái áhyggjur sínar í sambandi við stöðu þess og vilji fá upplýsta einstaka þætti sem tengjast afgreiðslu stjórnvalda í sambandi við þetta atriði. Ég skal upplýsa það eftir því sem ég get og föng eru á, og ég hef raunar gert það gagnvart stjórn Orkubús Vestfjarða á fundi sem ég átti með stjórninni allri fyrir ekki mjög löngu.

Því hefur verið haldið fram hér í umr., að það sé sök og ákvörðun þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að breytt hafi verið stefnu í þessu máli. Hv. þm. Gunnar Thoroddsen vitnaði í erindi sem hann ritaði fjmrh. 22. ágúst. s.l., þar sem hann ítrekar, — sennilega hefur það ekki verið í fyrsta sinn, því ég efast ekki um að hann hafi lagt áherslu á að ná þessu máli fram, þar sem hann ítrekar að fá fjárveitingu til þess að hægt verði að standa við það loforð sem hann hafði gefið á stofnfundi Orkubús Vestfjarða á sínum tíma.

Í sambandi við það loforð er eðlilegt að spurt sé hvort skuldbindingar, sem iðnrh. gefur á slíkum fundi, eru skuldbindandi fyrir fjárveitingavaldið. Ég hef að vísu ekki lögfræðilega þekkingu á því, en ég er smeykur um að svo sé ekki og á hafi vantað í þessu máli, að þessi yfirlýsing hafi verið staðfest og þær skuldbindingar, sem í henni fólust, hafi verið staðfestar af réttum aðilum, þ.e.a.s. fjmrh. og þeim sem með fjárveitingavaldið fara. Það hygg ég að hafi á vantað.

Við þessu erindi kemur svar, og vegna þess, sem hefur komið fram í umr., tel ég nauðsynlegt að vitna til þess, með leyfi hæstv. forseta. Það kemur svar til iðnrn. frá fjmrn., dags. 28. ágúst 1978, þremur dögum áður en fyrrv. ríkisstj. fór frá völdum, og það hljóðar þannig:

„Vísað er til bréfs iðnrn., dags. 22. þ. m., varðandi heimild til efnispöntunar vegna fyrirhugaðrar lagningar Vesturlínu.

Með hliðsjón af umræðum, sem vitnað er til í bréfi iðnrn., fellst þetta rn. fyrir sitt leyti á að unnið verði að gerð viðkomandi útboðsgagna og leitað tilboða án fjárhagslegra skuldbindinga. Væntanleg tilboð komi síðan til mats í þessu rn., eins og venja hefur verið, áður en endanlegar fjárskuldbindingar verða gerðar.

Varðandi heimild til lántöku að upphæð 50 millj. kr. síðar á árinu er af hálfu rn. ekkert til fyrirstöðu, ef það þá telst nauðsynlegt.“

Beðið var um milljarða. Svar fjmrn. er 50 millj. kr. Nokkrum dögum áður hafði verið fært sem tillöguliður eða verið bókað að stæði í till. fjárlaga- og hagsýslustofnunar til Vesturlínu 1313 millj. kr., fært inn í skjöl rn. 25. 8. 1978.

Hér hefur komið fram í umr. hjá þm. Matthíasi Bjarnasyni og hv. þm. Gunnari Thoroddsen, að fyrir hafi legið á síðasta fundi fyrrv. ríkisstj. till. frá fjárlaga- og hagsýslustofnun um að taka inn í till. til fjárlagagerðar hátt í 4 milljarða kr. vegna Vesturlínu. Af þessum síðasta fundi, þessum kvöldfundi fyrrv. ríkisstj., hef ég ekki nein gögn og hef ekkert af honum fregnað. Í málsskjölum iðnrn. er engar upplýsingar um þennan fund að finna, og ég er hræddur um að þær samþykktir, sem þar voru gerðar, og þeir samningar, sem virðast hafa farið fram á milli hæstv. ráðh. síðasta daginn um ráðstöfun á yfir tveimur milljörðum króna, — mál sem þeir höfðu verið að velta á milli sín bréflega vikuna á undan, það sé fremur marklítið, ekki síst ef ekki hefur meiri hugur fylgt máli en það, að engin voru gögn eftir skilin í iðnrn., hvað þetta snertir. Það er fyrst þegar kemur vel fram í septembermánuð, fram undir miðjan septembermánuð, að ég heyri um þetta mál, að það er ókyrrð vegna þessa máls hjá þeim aðilum sem eðlilega báru það fyrir brjósti, Vestfirðingum. En enginn úr þeirra liði hringdi þó til mín vegna þess í septembermánuði, svo að mig reki minni til.

Hins vegar, þegar ég varð var við að menn höfðu áhyggjur af þessu og talið var að fyrir lægju yfirlýsingar eða einhver loforð frá stjórnvöldum frá árinu 1977 um að þessi lína skyldi lögð, þá hafði ég samband við Rafmagnsveitur ríkisins og rafmagnsveitustjóra, strax og hann kom úr sumarleyfi upp úr 20. sept., og óskaði eftir upplýsingum frá honum um þetta mál. Hann skilaði síðan skriflegri grg. 6. okt., sem ég vitnaði til, og í þeirri grg. kemur fram að síðustu forvöð til að panta efni í þessa línu, eftir því sem hann segir í þeirri grg., hafi verið þegar upp úr mánaðamótunum ágúst–september. Í bréfi sem Rafmagnsveiturnar skrifuðu til fjárlaga- og hagsýslustofnunar, dags. 10. ágúst, var hins vegar sagt: í lok ágúst. Þarna skeikar auðvitað mjög litlu. Þetta voru ítrustu síðustu tímamörk, og á þessum tíma höfðu hæstv. ráðh. fyrrv. ríkisstj. verið að velta þessu máli á milli sín, en ekki komið því í höfn. Svo ætlast þessir heiðursmenn til að sú ríkisstj., sem settist á stóla 1. sept. hefði þá á stundinni haft vitneskju um þetta mál, sem þeir skildu ekki eftir, a.m.k. ekki iðnrh., nein gögn um handa þeim sem við tók, og hún leysti þetta samstundis.

Ég verð að segja að þetta er heldur óskemmtilegur lokasöngur úr samskiptum fyrrv. ráðh., hæstv. iðnrh. og fjmrh., og segir kannske dálitla sögu um þeirra samskipti sem ég ætla ekki að fara að rekja hér.

Það var spurt um það af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, hvernig iðnrn, ætlaði að bregðast við þeim vanda sem Orkubú Vestfjarða yrði fyrir vegna kostnaðarauka í sambandi við þetta mál. Engin ákvörðun hefur verið um það tekin af hálfu iðnrn., enda ekki á valdi þess að taka ákvarðanir þar að lútandi, hvernig við slíku skuli brugðist.

Hins vegar tel ég það mestu skipta, að fyrst verði að forðast orkuskort á Vestfjörðum vegna breytingar á framkvæmdatíma í sambandi við þessa línulögn. Við höfum gert um það till. frá iðnrn., að tekin verði inn fjárveiting í sambandi við næstu fjárlagagerð, — fjárveiting sem ekki var og ekki er í fjárlagatill. Við höfum tekið það sérstaklega upp við fjmrn. ásamt ýmsu öðru er orkumál snertir, að þar verði tekin upp fjárveiting, að mig minnir sem nemur 40 millj. kr., til þess að tryggja þær dísilstöðvar sem að mati Rafmagnsveitna ríkisins og ég vænti einnig stjórnar Orkubús Vestfjarða eru nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir orkuskort á Vestfjörðum veturinn 1979–1980.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson taldi einnig að ætlast yrði til þess, að ríkisstj. auðveldaði Orkubúi Vestfjarða að komast yfir þann kostnaðarauka sem yrði vegna seinkunar. Ég vil ekki gefa hér nein loforð hvað þetta snertir. En ég ítreka það, að ég tel nauðsynlegt og mjög brýnt að við þessa línulögn verði lokið á tveimur árum héðan í frá. Ég tel það út af fyrir sig vera verulegt verkefni við að glíma, þar sem ljóst er að þessi framkvæmd muni kosta um 2 milljarða kr. hvort árið. Og komið hefur fram í þeim gögnum, sem hér hefur verið vitnað til, að það hefði verið mjög torsótt og það hefði verið dýrara, svo að nam 200 millj. kr., að vinna þetta verk á árinu 1979 í einum áfanga, sem segir sig sjálft þegar um er að ræða línulögn yfir mjög torsótta og erfiða fjallvegi. Hins vegar er það auðvitað alltaf matsatriði, hversu miklu fjármagni er varið og hversu mikið kapp er lágt á framkvæmdir af þessu tagi.

Hvað snertir yfirlýsingar við Orkubú Vestfjarða á sínum tíma skal ég ekki heldur leggja mat á þær. En ég er dálítið smeykur um að rasað hafi verið um ráð fram um sumar ákvarðanir sem lutu að stofnun þessa landshlutafyrirtækis, þó ég vilji ekki fara út í það hér og ekki gagnrýna það í einstökum atriðum. Ég er hræddur um að þær tryggingar, sem Vestfirðingar héldu sig vera að kaupa, hafi þá ekki legið fyrir.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vék einnig að þessum kostnaðarauka og nefndi þar miklu hærri tölur en ég hef séð sem mat á kostnaðarauka fyrir Orkubú Vestfjarða. Hann nefndi allt að 1 milljarði kr. Þetta fer áreiðanlega eftir því, hvort menn ætla að ráðast í eða telja óhjákvæmilegt að ráðast í mjög aukna húshitun á Vestfjörðum á þessum tímabili. Við því hefur verið varað, og ég veit að stjórn Orkubús Vestfjarða hefur beinlínis beint þeim eindregnu tilmælum til Vestfirðinga að ráðast ekki í aukna húshitun. Þetta tel ég hins vegar mjög erfitt og í rauninni slæmt að þurfa að gefa út slík fyrirmæli. Og ég tel það sanngirnismál, að greitt sé fyrir því af samfélaginu, að íbúum landshluta, sem búa við mjög slæmt og óhagstætt orkuverð, gefist kostur á að hljóta einhvern stuðning eða styrk eða úrlausn sinna vandamála þegar um er að ræða valkosti um húshitun.

Ég vil að endingu ítreka það, að ég tel að upprifjun á þætti fyrrv. ríkisstj. í þessu máli sé henni til heldur lítils sóma.