21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

89. mál, Vesturlína

Varðandi þá fsp., sem ég gerði til hæstv. iðnrh. um bætur til Orkubúsins ef þetta verður ofan á, sem hann lýsir hér yfir, að þessi framkvæmd verði unnin á tveimur árum, þá segir hann:

Engin tillaga er um slíkt. Sú tillaga hlýtur að eiga að koma frá iðnrn. og iðnrh., síðar meir er ákvörðun ríkisstj. og Alþ. hvort við því verður orðið. Ég vil skora á hæstv. iðnrh. að verða við þessum tilmælum, því að þaðan á auðvitað frumkvæðið að koma í þessum efnum.

Ég vil svo taka það fram, að mér finnst leitt að gera þetta að einhverju hitamáli, því að hér er ekki verið að tala um fáfengilegt mál sem ekki skipti nokkru máli. Ástandið í raforkumálum í þessum landshluta er svo alvarlegt að það er uggur í mönnum, og fer það ekkert eftir hvar þeir búa í þessum landshluta eða hvaða atvinnu þeir hafa. Þeir hafa allir miklar áhyggjur af þessum málum, og ég fullyrði að enginn landshluti er verr settur núna en Vestfirðir í þessum efnum, þó að við vitum að það er alltaf óteljandi margt eftir að framkvæma, bæði í þessum málum og öðrum. Ég vil því að síðustu vænta þess, að hæstv. iðnrh. hugleiði betur þetta mál og sé ekki með neitt hnútukast til fyrrv, ríkisstj., að afgreiðsla á þessu máli hafi verið henni til lítils sóma. Ef hæstv. iðnrh. ætlar að halda áfram í þeim dúr sem hann gerði í lok ræðu sinnar, þá verður þetta mál honum ekki til lítils sóma, eins og hann sagði um fyrrv. ríkisstj., — það mun verða honum til stórskammar ef hann ætlar að halda áfram á þeirri braut, eins og var á honum að heyra í lok ræðunnar. Ég trúi því ekki að jafngreindur maður og hann er endurskoði ekki þetta mál í ljósi þeirra staðreynda, sem fyrir liggja, og sýni sanngirni gagnvart þessum landshluta.