21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

89. mál, Vesturlína

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. var eiginlega undrandi á því, að fyrrv. ríkisstj. hefði ekki Kjartan Ólafsson: Herra forseti. Ég stend hér upp til þess að vekja athygli á fáeinum atriðum sem fram hafa komið, en aðallega þó vegna þess, að ég tel að það skipti nokkru máli hvort dómur stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins varðandi framkvæmdamöguleika við Vesturlínu hafi verið sá, að efnispöntun yrði að fara fram fyrir ágústlok eða fyrir septemberlok. Ríkisstjórnarskiptin urðu 1. sept. Mér heyrðist á máli hæstv. iðnrh. áðan, að hann talaði um septemberlok í þessum efnum, en ég þykist hins vegar muna það fullvel, að í bréfi, sem ég hef séð afrit af frá stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, að ég hygg dags. 10. ágúst, sé tekið skýrt fram að pöntunin hafi þurft að eiga sér stað í síðasta lagi fyrir lok þess mánaðar. Um þetta vil ég spyrja hæstv. iðnrh. (Gripið fram í.) Það er ekki rétt, segir fyrrv. iðnrh. Það er rétt, segir hæstv. núv. iðnrh. Ég óska eftir, að bréfið verði lesið upp hér á eftir, og vil beina því til hæstv. iðnrh. að hann lesi bréfið upp á eftir, ef hann er með það við höndina.

Að öðru leyti vil ég aðeins segja það, að það er næsta furðulegt að þeir tveir hv. þm., sem hér hafa talað og áttu sæti í fráfarandi ríkisstj., hv. 11. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Vestf., gera mikið úr því, að á kvöldfundi ríkisstj. 28. ágúst hafi verið bókuð viljayfirlýsing fráfarandi ríkisstj. í þeim efnum að tryggja byggingu Vesturlínu á árinu 1979. Það er nokkuð seint að verkinu staðið, og ég hygg að með tilliti til þess, að í bréfi frá fjmrn., dags. þennan sama dag, það er ekki tekið fram klukkan hvað það er skrifað, sennilega um morguninn eða miðjan daginn, og hæstv. iðnrh. las hér upp áðan, þá er skýrt tekið fram í þessu bréfi fjmrn. til iðnrn. frá 28. ágúst, að það, sem þeir opna fyrir hjá fjmrh. um byggingu Vesturlínu, sé að rn. fallist á að unnið verði að gerð útboðsgagna og leitað verði tilboða, en tekið fram, án fjárhagslegra skuldbindinga. Sem sagt, um hádegi eða svo 28. ágúst, þrem dögum áður en ríkisstj. fór frá, var fjmrn. enga skuldbindingu tilbúið að láta í té í þessum efnum. Ég vil að þetta sé undirstrikað hér sérstaklega, ekki síst vegna þess að það kom mjög skýrt fram í máli hv. 2, þm. Norðurl. v., sem á sæti í stjórn RARIK, að það sé alger regla þeirrar stjórnar, að til þess að panta efni í stofnlínur af þessu tagi þurfi að liggja fyrir skýlaus yfirlýsing frá fjmrn. og hún hafi ekki legið fyrir og hafi aldrei borist stjórn RARIK. Með tilliti til þess bréfs, sem ég vitnaði í, að pöntun hafi þurft að eiga sér stað fyrir ágústlok, var málið mjög illa komið, vægast sagt, þegar stjórnarskiptin urðu.