21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

89. mál, Vesturlína

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það hafa nú orðið miklar umr. um þessa fsp. mína, og ég fagna því að það hefur orðið svo. Það hefur margt komið hér fram sem var ástæða að kæmi fram. En það hefur það í för með sér, að ég mun ekki víkja að ýmsum atriðum sem ég hefði annars vikið að, ef það hefði ekki verið þegar rætt áður.

Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans. Ég varð að sjálfsögðu mjög vonsvikinn og óánægður með efni þess. Og þá er það, sem höfuðmáli skiptir, sú yfirlýsing af hans hálfu, að hann geri ráð fyrir að Vesturlinunni verði ekki lokið á næsta ári, heldur verði það ekki fyrr en á árinu 1980. Ég varð líka fyrir vonbrigðum með sumt annað sem hæstv. ráðh. sagði. Hann talaði um sök fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum, það væri hennar sök, mátti skilja, að vikið er frá ákvörðun þeirrar sömu ríkisstj. að ljúka línunni á árinu 1979. Ég held að það sé ekki ástæða til að hafa slíkt orðaval í umr. um svo þýðingarmikið mál, og ég vil að það komi hér skýrt fram, að ég hreyfði ekki þessu máli til þess að stofna til illvígra deilna annars vegar milli stjórnarliðsins og hins vegar stjórnarandstöðunnar um þetta mál. En ég vil að það komi skýrt fram og ég legg áherslu á, að það hefur ekki verið á Vestfjörðum neinn pólitískur ágreiningur um stofnun Orkubús Vestfjarða og um mikilvægi þess að koma byggðalínunni í framkvæmd fyrir árslok 1979.

Það olli mér og vonbrigðum, að hæstv. ráðh. sagði að það hefði verið rasað um ráð fram við stofnun Orkubúsins. Hann færði þessum orðum sínum engan stað. Ég hélt að honum væri kunnugt um, eins og flestum á að vera kunnugt um hér á hv. Alþ., að það fór fram vandaður undirbúningur að stofnun þessa fyrirtækis og m.a. í formi þess að undirbúa löggjöf um þetta efni sem Alþ. samþykkti á sínum tíma.

Og hæstv. ráðh. sagði að það gæti verið, að Vestfirðingar hefðu ekki fengið þau loforð sem þeir töldu sig vera að fá þegar Orkubúið var stofnað, þ.e.a.s. að verið gæti að það séu ekki gild loforð sem Vestfirðingum voru gefin. En þessi loforð er fyrst og fremst að finna í stofnsamningi að Orkubúi Vestfjarða, sem er undirritaður af öllum stofnendum, bæði sveitarfélögunum á Vestfjörðum og af hálfu ríkisins. Hvers vegna er ekki hægt að treysta þessum loforðum? Og ég spyr: Hvernig var hægt að ganga betur frá þessum loforðum heldur en fella þau inn í sjálfan stofnsamninginn að fyrirtækinu? Það er ekki hægt. Þessi orð ráðh. eiga að sjálfsögðu enga stoð, nema það sé ætlun núv. ríkisstj. að svíkja þessi loforð. Ég vil hvorki gera hæstv. iðnrh. né öðrum ráðh. upp það, að þeir ætli ekki að standa við þau loforð sem gefin eru með þessum hætti. Ég skil raunar ekki hvernig þeir komast hjá því að standa við þau.

Hv. 1. þm. Vestf. tók af mér ómakið að svara þeim köpuryrðum, að upprifjun þessa máls væri fyrrv. ríkisstj. til lítils sóma. Ég held að það sé öllum ljóst og ekki síst Vestfirðingum, að fyrrv. ríkisstj. stóð með miklum sóma að stofnun Orkubús Vestfjarða og með miklum heilindum og með stuðningi Vestfirðinga atmennt án tillits til þess, hvar þeir skipa sér í pólitíska flokka.

Það hefur verið deilt um það, hvort hægt sé af tæknilegum ástæðum að ljúka lagningu Vesturlínunnar fyrir árslok 1979. Það er mikið búið að ræða um það. Ég vek aðeins athygli á því, að þegar ákveðin voru framlög til þessa verks á fjárl. var gert ráð fyrir að ákveðinn hluti af þessu fjármagni færi til pöntunar á því efni sem þyrfti að hafa mestan fyrirvara á, eins og í sambandi við pöntun á aðveitustöðvum sem hér þarf til. Þessar pantanir fóru fram í apríl á þessu ári. Ég vek athygli á því, að þegar fjárlög þessa árs voru samþ. í des. s.l. var ekki búið að panta neitt til Vesturlínu, en það var samt gert ráð fyrir að vinna á þessu ári. Hvenær var pantað? Það var pantað efni í línuna í mars 1978. Þá voru pantaðir staurar og annað slíkt sem þurfti — í mars. Þess vegna spyr ég: Getur það staðist sem sérfræðingar segja og RARIK segir um þetta efni? En RARIK hefur ekkert um þetta efni að segja nema sem hver annar verktaki. Það er ekki RARIK sem á að ákveða neitt um Vesturlínu. En dettur mönnum í hug að það hafi ekki verið nægilegur tími, hvort sem það var í endaðan ágúst eða endaðan september, sem menn hafa nú verið að deila um, að panta efni: staura, víra og annað slíkt sem þurfti til framkvæmda á næsta ári þegar slíkt hið sama var gert í mars s.l. til framkvæmda á þessu ári sem nú er að líða? Ég held að það þurfi ekki að ræða um þetta atriði.

En spurningin er fjárhagslegs eðlis. Það skil ég ósköp vel, að vandi getur verið á höndum fyrir fjármálastjórn landsins og ríkisstj. að standa við það loforð sem gefið var. Það er allt annað mál. En það verða að vera fjárráð í þessu skyni. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að standa við þau loforð sem gefin voru, og það kostar aukin fjárútlát frá því sem ríkisstj. hugsar sér nú. Í öðru lagi, ef það er ekki gert, þá kostar hinn kosturinn líka fjárútlát, því að ekki verður komist hjá því að bæta Orkubúinu upp þann skaða sem verður ef ekki verður lokið við línuna fyrir árslok 1979. Og þetta segi ég með stuðningi í beinum ákvæðum í stofnsamningi Orkubúsins.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu með nokkrum setningum. Ég vil aðeins segja það, að talað hefur verið um að það hafi verið lítið veitt til Vesturlínu á fjárl. í ár. Það er rétt, það var ekki mikið og það er minna en upphaflega var gert ráð fyrir. En upphæðin var ekki lækkuð fyrr en óyggjandi upplýsingar lágu fyrir um það frá Rafmagnsveitum ríkisins, að þetta væri framkvæmanlegt. Ég gæti sagt margar sögur af því, að það var ekki hlaupið að því að fallast á þessa lækkun fyrr en það lá skýlaust fyrir, að það væri hægt þrátt fyrir það að ljúka línunni á árinu 1979. En hvers vegna var það, að minna fjármagn var sett í þessa línu en við hefðum viljað? Það var m.a. vegna þess, að það er ekki hægt að gera allt í einu. Það var hafið mjög þýðingarmikið verk, þar sem var Austurlína, og við féllumst á að láta Austurlínu ganga fyrir til þess að ljúka því verki sem fyrst og hún gæti komið í gagnið sem fyrst.

Nú vil ég segja að lokum við alla sanngjarna menn og sérstaklega við hæstv. iðnrh.: Er ekki sanngjarnt að staðið sé við þau loforð sem fyrrv. ríkisstj. gaf um framkvæmd á Vesturlínu og voru á þann veg, að um leið var séð um að Austurlína gengi fyrir — og nú kemur Austurlínan í gagn um áramót? Geta nú ekki allir góðir og skynsamir menn sameinast um að gera það átak fyrir Vestfirðinga í framkvæmd Vesturlínu sem gert var ráð fyrir? Við erum að gera meira en eitthvað fyrir Vestfirðinga. Þetta er það eina þjóðhagslega rétta sem á að gera í þessu máli eins og málin standa í dag.