21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

89. mál, Vesturlína

Jón Helgason:

Herra forseti. Þar sem ég var settur í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins á s.l. vori vil ég aðeins staðfesta þau orð hv. 2. þm. Norðurl. v., sem hann sagði áðan, að Rafmagnsveitum ríkisins barst ekki nein tilkynning um ákvörðun fyrrv. ríkisstj. um að það ætti að leggja nægilegt fjármagn til þessa verks á næsta ári og þess vegna gat hún ekki farið að panta efni, vegna þeirrar reglu, sem hún hefur, að gera það ekki fyrr en einhvers konar trygging er fengin fyrir því. Þá reglu munu Rafmagnsveitur ríkisins einmitt hafa tekið upp vegna þess, að á það hefur skort að það hafi fengist greitt tímanlega sem Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið falið að panta. Þetta hefur valdið Rafmagnsveitum ríkisins miklum fjárhagserfiðleikum. Og eitt af því, sem á hefur skort nú á þessu ári, eru einmitt greiðslur frá Orkusjóði til styrkingar á dreifikerfi í sveitum. Þar hefur Orkusjóður ekki greitt nærri alla þá upphæð sem til þess er veitt samkv. fjárlögum.

Það hefur verið aðeins minnst hér á að það þyrfti að jafna misrétti og erfiðleika sem Vestfirðingar kynnu að verða fyrir vegna þess dráttar sem þarna er augljóst að verður. Ég vil taka undir það, að vitanlega á að jafna allar slíkar byrðar og það þarf vitanlega að gera það í miklu ríkari mæli en gert hefur verið. En ég vil aðeins vekja athygli á því, að í þáltill., sem Kjartan Ólafsson flytur hér, kemur fram að Orkubú Vestfjarða selur rafmagn til heimilisnotkunar á rúmum þremur kr. lægra verði heldur en Rafmagnsveitur ríkisins. Þarna er komið fram það sem ég hélt fram í umr. við afgreiðslu laga um Orkubú Vestfjarða, þar sem tekin voru 20% af verðjöfnunargjaldi af Rafmagnsveitum ríkisins og fengin Orkubúi Vestfjarða, að það væri engin trygging fyrir því, að það yrði ekki til þess að Rafmagnsveitur ríkisins yrðu að selja á dýrara verði en Orkubú Vestfjarða. Þarna er sem sé komið í ljós að Orkubú Vestfjarða notar þennan hluta sinn til þess að selja raforku á lægra verði til heimilisnota heldur en Rafmagnsveitur ríkisins verða að gera.