21.11.1978
Sameinað þing: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

35. mál, bundið slitlag á vegum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta málefni, sem till. fjallar um, er mjög brýnt og ég er raunar sammála öllu því sem kom fram í framsöguræðu 1. flm. En tillgr. eins og hún er er í raun og veru ekki í samræmi við ræðu hans. Ég vil aðeins koma hér með örstuttan kafla, nokkrar línur úr ræðu hans, með leyfi forseta. Þar segir hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson:

„Líklegt er að skynsamlegt þætti og raunar óhjákvæmilegt að leggja bundið slitlag á vegakafla út frá þéttbýlisstöðum á undan fáfarnari köflum þeirra vega er í till. greinir. Á Möðrudalsöræfum og við norðanverðan Breiðafjörð er sumarumferð t.d. innan við 100 bílar á dag“ o.s.frv.

Tillgr., eins og hún er, er um að það sé áætlað að leggja bundið slitlag á hringveginn umhverfis landið, til Vestfjarða og um Snæfellsnes. Hvers vegna þá t.d. um Snæfellsnes frekar en til annarra staða, ef ætti að fara að taka hringveginn? Ég er ekki á sama máli um að hann eigi að ganga fyrir. Hvers vegna ekki til Þorlákshafnar? Hvers vegna ekki til Sauðárkróks? Hvers vegna ekki til Dalvíkur? Ég held að það væri miklu eðlilegra, að tillgr. hefði verið eitthvað á þessa leið: Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera áætlun um að leggja bundið slitlag á alla aðalvegi landsins og um fjáröflun til þeirra framkvæmda, — en ekki að taka til hringveginn eða tilgreina t.d. Snæfellsnes sérstaklega og Vestfirði. Ég vil vekja á því athygli, að í sjálfu sér — eins og till. hljóðar — er verið að undirstrika það sem á að sitja fyrir, þó að ræða hv. þm. væri í raun og veru á annan veg. Hví er till. ekki í samræmi við ræðu hans?

Það vill þannig til, að það er engin leið að halda vegum sums staðar akfærum vegna þess að bæði er umferðin mikil og efni, sem til er í sumum héruðum, er þannig að það er engin leið að halda vegunum færum í raun og veru. Þannig er það t.d. á veginum frá Moldhaugnahálsi og út á Dalvík. Þannig er þetta víðar í kringum þéttbýlisstaði. Ég hef farið eftir veginum til Þorlákshafnar og ég hef farið eftir ýmsum öðrum vegarköflum sem ekki eru á hringveginum og ættu einmitt að sitja fyrir frekar en ýmsir aðrir kaflar á hringveginum, t.d. austur yfir sanda eða yfir Möðrudalsöræfi, svo að ég tilgreini eitthvað sérstaklega.

Ég hef ekki heldur sannfæringu fyrir því, að okkur þýði í raun og veru að gera áætlun til margra ára. Við þyrftum að gera áætlun um það, hvað við gerum í þessu efni, t.d. til 3–4 ára í mesta lagi, og taka verkefnin í slíkum áföngum. En að gera áætlun, eins og kom fram hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni og raunar í þessari till. líka, til 10 eða 15 ára, — hvaða tilgangi í sjálfu sér þjónar það? Við erum alltaf að gera áætlanir, — áætlanir sem við þurfum að endurskoða eftir árið eða svo. Í þessum málum eru framfarir svo miklar, að við vitum alls ekki hvort m.a.s. áætlun til þriggja ára sé í sjálfu sér raunhæf, hvað þá til lengri tíma. Ég legg áherslu á það, að sú n. sem fær þessa till. til umfjöllunar, sem mun vera fjvn., athugi hvort ekki sé skynsamlegra að breyta tillgr. á þann veg sem ég nefndi áðan.

Ég átti þess kost að skoða vegakerfi í Færeyjum og á Norðurlöndum s.l. sumar, og það var mér veruleg reynsla, t.d. að Færeyingar skuli vera búnir að leggja bundið slitlag á hér um bil alla vegi sína og gera víða jarðgöng í gegnum fjöll. Það var mér líka reynsla að sjá hvernig Norðmenn eru búnir að byggja upp sitt vegakerfi, en það er auðvitað skýranlegra en framtak Færeyinga. Ég er alveg sammála því, sem kom fram í ræðu hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar, að þarna er verkefni sem við verðum að sinna og verðum að vera samtaka um að reyna að hrinda fram á eins skömmum tíma og mögulegt er. En ég get ekki staðið að því að samþykkja till., sem er orðuð eins og þessi till., vegna þess að röðunin á verkefnunum, eins og hún kemur þarna fram, er röng að mínu mati.

Það vill líka þannig til, að eftir er að byggja upp vegi víða á hringveginum, en búið er á leiðum á milli þéttbýlisstaða að byggja upp vegi, t.d. frá Húsavík og fram í Reykjadal. En eftir þessari till. á þessi partur að vera eftir. Það er búið að byggja upp mestan hluta vegarins frá Akureyri út á Dalvík, eða a.m.k. 2/3, en það er eftir að byggja upp allan veginn fram Þelamörk og fram að botni í Öxnadal. Það er sem sagt víða utan hringvegarins sem er tilbúið að leggja slitlag á. Svo eru menn að koma hér fram með till. um að hringvegurinn eigi að hafa einhvern forgang í þessu tilliti.

Ég vil svo endurtaka það, að ég vona að samkomulag verði um að breyta þessari till. þannig að við getum allir á orðalag hennar fallist. Og það er mér mikil spurning, hvort ekki þarf að breyta henni meira en ég hef getið um. En ég fagna því, að umræða um þessi mál kemur enn upp, vegna þess að það kemur alltaf betur og betur í ljós með hverju árinu sem líður, að við getum ekki annað en hafið framkvæmdir á þessu sviði í stærri stíl en hingað til hefur verið gert.